
Bjarni Bernharður sýnir í SÍM salnum
Föstudaginn 2. júní kl. 17:00 opnar í SÍM salnum, Hafnarstræti 16, málverkasýning Bjarna Bernharðs, en sýningaropnunin verður jafnframt útgáfuteiti nýjustu bókar hans; “Í LANDI ÞÚSUND DJÖFLA”.
Bjarni mun lesa upp ljóð úr bókinni við lifandi undirleik dúettsins Azima & Gason Bra. Léttar veitingar verða í boði og allir velkomnir.
Bjarni Bernharður Bjarnason er sjálfmenntaður myndlistarmaður og ljóðskáld. Hann hefur áður sýnt verk sín á fjölmörgum málverkasýningum, en myndirnar eru að þessu sinni málaðar með olíu á striga.
Sýningin mun standa opin til og með 20. júní. SÍM salurinn er opinn gestum og gangandi alla virka daga frá kl. 10:00 – 16:00.