Teikningar I Bjargey

BJARGEY ÓLAFSDÓTTIR SÝNIR Í ÚTHVERFU

Laugardaginn 28. október 2017 opnar Bjargey Ólafsdóttir sýninguna SYNGJANDI FLAKKARINN (TILGANGSVERKEFNIÐ) í Gallerí Úthverfu á Ísafirði.

,,Fyrir nokkrum árum hitti ég miðil í Buenos Aires. Hún féll í trans og sagði mér að í einu af mínum fyrri lífum hefði ég verið einmana hirðingi sem reikaði um sléttur Síberíu. Hún sagði mér ennfremur að tilgangur núverandi jarðvistar minnar væri sá að syngja og teikna. Ef ég myndi einbeita mér að því að syngja og teikna þá myndi ég verða hamingjusöm mannvera og gera aðra hamingjusama. Verkin teiknaði ég syngjandi í gestavinnustofu Nordic Art Association-Malongen í Stokkhólmi sumarið 2017 og sýndi þau fyrst í verkefnarými NKF.‘‘

Bjargey Ólafsdóttir býr og starfar að list sinni í Reykjavík. Hún nam myndlist við Myndlista og handíðaskóla Íslands sem og Myndlistarakademíuna í Helsinki. Hún nam ljósmyndun við Aalto University í Helsinki og kvikmyndagerð við Binger Filmlab í Amsterdam.  Listsköpun Bjargeyjar Ólafsdóttur er ekki bundin við einn listmiðil heldur velur hún sér þann miðil sem henni finnst henta hugmyndinni best hverju sinni. Bjargey fæst við kvikmyndagerð, hljóðverk, gjörninga, teiknar, málar og ljósmyndar. Mörg verka hennar segja sögur. Þau segja til að mynda sögur af tannlæknum sem leiðist, rokkstjörnum í Japan og konum sem geta skyggnst inn í framtíðina og handan hins sýnilega heims. Verk hennar eru stundum ískyggileg og þau eru oft ísmeygileg og fjörug. Sum verka hennar eru súrrealísk og þau eru hlaðin táknum sem virðast hafa komið til listamannsins í draumi eða þegar hann var á milli svefns og vöku. Verk Bjargeyjar leika sér þannig að því sem við teljum gefið, þau dansa á línunni á milli raunveruleika og skáldskapar.

Bjargey var tilnefnd til ljósmyndaverðlaunanna Deutsche Börse Photography prize og the Godowski Colour photography Award fyrir ljósmyndaseríu sína Tíru sem hún sýndi í Ljósmyndasafni Reykjavíkur árið 2009. Bjargey hefur undanfarin ár sýnt list sína hér heima og erlendis. Til að mynda á Listasafni Reykjavíkur, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Kunstverein Munich, KunstWerke Berlin, Galeria Traschi, Santiago Chile, Nútímalistasafninu í Stokkhólmi, Manifesta Foundation Amsterdam, XYZ Collective, Tokyo, Japan, The Moore Space Miami og E-flux og BRAC í New York. Palm Springs International film festival, USA, Gothenburg Film Festival, Sweden, Aix en Provence international short film festival, France. Heimasíður: www.bjargey.com og www. this.is/bjargey

Sýning Bjargeyjar Ólafsdóttur í Gallerí Úthverfu opnar kl. 15 á laugardaginn og stendur til sunnudagsins 26. nóvember.

 

 

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða og Ísafjarðarbær styrkja rekstur Gallerís Úthverfu.

 

OUTVERT ART SPACE / Gallerí Úthverfa

opið eftir samkomulagi / open by appointment

ArtsIceland – Aðalstræti 22 – 400 Ísafjörður

www.kolsalt.is  +354 868 1845   galleryoutvert@gmail.com

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com