Berg Contemporary

Berg Contemporary: Sýningin Gróður opnar 12.september

Katrín Elvarsdóttir
Lilja Birgisdóttir
Nina Zurier

Katrín Elvarsdóttir, Bananaplant Shamian Island

GRÓÐUR
nándar-myndir af athvarfi
og endimörkum

Við endimörk gróskunnar- þar sem eplatré eru eins og japönsk kryppluð dvergtré í metnaðarfullum garði- á sárum jaðri frjósömu græðandi þekjunnnar sem umlykur heiminn- við upphaf eyðimerkur og auðnar- tala umskiptin til okkar.

Gegn rofinu fara orrustuplöntur, fjólubláar, bleikar, gular, grænar. Skora auðnina á hólm. Ágengar jurtir sem reynast líka máttugar í viðureign við plágur sem herja á líkamann. En valda sjálfar eyðileggingu ef ekkert ögrar þeim á móti.

Sortulyngið ógnar ekki fjölbreytileika flórunnar en heldur samt jörðinni á staðnum í norðrinu. Mulin berin bægja burt draugum og styrkja þvagrásar- og innkirtlakerfið. En svartur vessinn espir svartagall miltans í of miklum mæli. Lyngið var líka notað til að búa til blek til að skrifa með bækur. Ef við gætum skilið samband gróðurfars, þvagrása og bókmennta!

Les fleurs du mal. Blóm illskunnar, illgresið. Ágengu blómin. Það er erfitt að kortleggja illgresi á Íslandi. Og tengsl okkar við illgresið og eyðinguna, eitrið. Kortið væri sífellt að breytast, þar sem unglingar eru svo iðnir við að reita fífla og arfa og þúsund tonnum af etiri er hellt yfir þessar helstu lækningarjurtir sögunnar. Til að halda garðinum við.

Það er freistandi fyrir barn að fara út úr girðingunni, láta sig hverfa inn í skóg og finna rjóður og leika sér þar í næði. En það eru ekki bara eitruð blóm í garðinum. Börnin skreyta sig með fallegum bjöllum, gulum og bleikum og smakka aðeins á baneitruðum blöðum. Búa til seremóníu og gifta sig, dansa með berserkjasvepp í hönd. Sú gleðistund sest að í líkamanum. Og líka stund skammanna: Jú þið megið alveg leika
ykkur en ekki láta ykkur hverfa!

Minningar um augnablik andstæðra tilfinninga. Fjólubláar minningar um nánd. Svartar. Litríkar. Hvítar. Við endurgerum þær með pappír, ljósmyndum, lími og bleki. Við nálgumst kjarnann í upplifuninni, hinum glaða leik þegar við gleymdum okkur. Reynum að nálgast hann með því að gegnumlýsa gróðurinn, lýsa hann upp, komast inn í hann. Og skila skömminni. Illskan var ekki blómanna, og ekki okkar. Við upplýsum
minninguna.

Umkringjum okkur með jurtum sem minna okkur á staðinn sem við fundum sjálf okkur á. Gerum tilraun til að búa okkar eigið gervi-landslag sem hjálpar okkur að búa okkur skjól þar sem sár okkar ná að gróa. Tilraun til að tengjast þolmörkum okkar og annarra?

Eignumst athvarf í fjarlægum bananahúsum. Búum okkur til skjól fyrir rofinu, bananalaufin framkalla hljóð sem sefa okkur. Litir sem ekki eru til á okkar gróðursvæði verða hluti af okkar landslagi. En apinn í gróðurhúsinu okkar hrekkur upp af þegar eina bananatré landsins brotnar í jarðskjálfta.

Upplýsingar berast okkur á ljóshraða. Móttökuskilyrðin frekar treg þótt við tjúnum upp netið. En náum þó einhverju um endurheimt votlendisins. Ha? Og endurheimt fífla? Uppreisn brjálaðra blóma? Erum við að læra að ljóstillífa? Og eigum við að gefast upp á skipulaginu? Fer þá ekki allt í helvítis órækt og óreiðu?

Kjarni hins óða vísdóms felst í því að láta af stjórnkænsku og stefnumótun og vera bara opinn… Og það reynist vera vísindaleg aðgerð í þeim skilningi að opnunin er í stöðugum tengslum við elementin í náttúrunni.
(Chögyam trungpa, crazy wisdom).

Ef við leyfðum elementunum að leika sér, gróðrinum að leiða okkur áfram, myndu þá teiknast upp gróðurkort um annað en yfirgang? Um eyðilegggingu gróðurs á einum stað og uppræktun á öðrum stað, umplöntunum, jarðraski. Ef til væru álíka metnaðarfull yfirlitskort um tilfinningar okkar gagnvart ólíkum gróðri í heiminum. Tilfinningar byggðar á sameiginlegri arfleifð og undirvitund en líka persónulegum upplifunum og áföllum.

Byrjum við á að draga upp mynd af gróðri sem við höfum komist í náin kynni við, mynd af nándinni?
-Oddný Eir Ævarsdóttir

Katrín Elvarsdóttir, Cactus

Fyrsti sýningardagur verður núna á laugardaginn, þann 12. september og verður sýningin opin öllum á hefðbundnum opnunartíma gallerísins. Sökum Covid verður ekki formleg opnun, en hún stendur þar til 31. október 2020.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com