Berg Contemporary

BERG Contemporary: Ljósvaki // Æther 1.0.1

Sýning Selmu Hreggviðsdóttur og Sirru Sigrúnar Sigurðardóttur opnar í BERG Contemporary föstudaginn 24.janúar kl.17

Kunnuglegan, en óræðan titil sýningarinnar má meðal annars rekja til kenninga um hið ímyndaða frumefni ljósvaka sem fylla átti út í himingeiminn og bar ljós í gegnum tíma og rúm. Kenning þessi var síðar afsönnuð með afstæðiskenningu Alberts Einsteins.

Hið töfrakenda augnablik þegar horft er í gegnum kristalinn og heimurinn tvöfaldast í gegnum ljósbrotið er uppspretta verkanna sem hér ber að líta eftir Selmu Hreggviðsdóttur og Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur um leið og þær varpa ljósi á forvitnilega sögu séríslensks náttúrufyrirbæris sem mörgum kann enn að vera á huldu.

Það var á 17. öld að smáir kristallar sem bárust niður fjallshlíðina með lækjum, vöktu athygli íbúa í sveitinni að Helgustöðum og danskra kaupmanna sem höfðu verslunarstað skammt frá. Þessir glitrandi glæru steinar voru síðar kallaðir silfurberg á íslensku en framan af töluðu útlendingar um Íslandskristal. Þegar farið var að grafa í fjallið kom í ljós að þar lágu gríðarstórir silfurbergskristallar, sumir allt að margir metrar að stærð samkvæmt gömlum heimildum.

Silfurberg er kalsít (kalsíumkarbónat) sem kristallast hefur á sérstakan hátt. Kalsít má finna í jarðlögum um allan heim og er meðal annars uppistaðan í kalksteini og marmara. Fram yfir aldamótin 1900 var það hins vegar aðeins á Íslandi sem fundist hafði fullkomlega tært kalsít með hina sérstöku lögun sem einkenndi silfurbergið. Allt frá því á 17. öld höfðu slíkir kristallar vakið mikla athygli og borist til safna og vísindamanna um allan heim. Stóra kalsítkristalla mátti vissulega finna víðar en á Íslandi, en þeir voru ólíkir að lögun og lit. Sagan segir að um aldamótin 1800 hafi franski fræðimaðurinn René Just Haüy misst einn slíkan kalsítkristal í gólfið þannig að hann splundraðist. Hann sá þá að brotin höfðu sömu reglulegu lögun og silfurbergið frá Íslandi. Á hann þá að hafa hrópað upp yfir sig: „Allt er ljóst!“ og í framhaldinu lagði hann grundvöllinn að nútíma kristallafræði.

Vegna hins sérstaka tvöfalda ljósbrots í silfurberginu frá Íslandi og annarra efniseiginleika þess lék það einnig lykilhlutverk í þróun eðlisfræði, bæði ljóss og kristallaðra efna í um 250 ár. Þar að auki átti það sinn þátt í því að nýjar rannsóknaaðferðir og uppgötvanir innan bergfræði, efnafræði, lífefnafræði og læknisfræði komu fram á sjónarsviðið. Þetta framlag hinna íslensku kristalla lá þó lengi grafið í fræðiritum á bókasöfnum heimsins, þar til Leó Kristjánsson jarðeðlisfræðingur hófst handa við að kynna sér tugþúsundir heimilda um afdrif silfurbergskristallanna frá Helgustöðum. Í ljós kom að mikilvægi silfurbergsins í þróun vísinda og tækni frá 17. öld og fram á þá 20. var slíkt að óhætt er að telja það eitt merkasta framlag Íslands til menningarsögunnar.

Um er að ræða annan þátt í áframhaldandi rannsókn listamannanna
tveggja á fyrirbærunum sem hér að ofan eru nefnd, en fyrsti þáttur var sýndur á Eskifirði, í norska síldarsjóhúsinu Dhalshúsi sumarið 2019. Að þessu sinni ljá Sirra og Selma BERG Contemporary nýja ásýnd, sem einungis hlýst í gegnum skautað sjónarsvið silfurbergsins í vídeóverki sínu Extraordinary Ray (2020), um leið og þær fanga augnablik sem skapast í silfurbergshvelfingu aðalbyggingar Háskóla Íslands, sem búið var til af Guðmundi frá Miðdal og Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins, í verki sínu Hvelfing (2020).

Samhliða kristöllum sínum stilla þær upp einstakri silfurbergskúlu sem fengin hefur verið að láni frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Kúlan var formuð og slípuð af Bjarna Ólafssyni frá Brimnesgerði í því skyni að senda hana á heimssýninguna í Chicago 1892. Þessi smíð Bjarna þykir nánast ógjörningur þar sem silfurbergið er afar viðkvæmt og mikil hætta á að það brotni í áðurnefnd upprunaleg form sín. Kúlan er um þrír sentimetrar í þvermál, slétt og kristaltær, en hún náði aldrei á heimssýninguna. Kúlan er því einstakur sýningargripur, sem í breyttri formgerð sinni stríðir gegn eigin lögmálum. Með því að stilla kúlunni upp í samhengi við kristalla sem listamennirnir hafa sjálfir ræktað, verður til áleitið samtal um hvað kann að búa á samskeytum þess manngerða og hins náttúrulega, um leið og nýju ljósi er varpað á þekkingarsköpun í gegnum eiginleika efnis á árum áður og undirstrikar um leið mikilvægi sjónrænna tilrauna þegar kemur að nýjum og eldri rannsóknum á eðli hlutanna.
-Kristján Leósson & Kristína Aðalsteinsdóttir

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com