Berg Contemporary

BERG Contemporary: Leiðsögn – Páll Haukur í samtali við Jóhannes Dagsson

Laugardaginn 11. janúar kl. 15 mun PÁLL HAUKUR leiða gesti um sýningu sína ‘loforð um landslag, the field itself & the movement through’ í BERG Contemporary. Honum til halds og trausts verður heimspekingurinn og myndlistarmaðurinn JÓHANNES DAGSSON. Leiðsögnin fer fram á íslensku, er öllum opin og er um að ræða síðasta sýningardag sýningarinnar.

____

Frekar um sýninguna:

„Því miður (ættum við að segja) er ekkert sem við getum gert fyrir Eri Asai. Það kann að hljóma merkingarlaust, en við erum ekkert annað en sjónarhorn. Við getum ekki á nokkurn hátt haft áhrif á hlutina.“

(Haruki Murakami, Eftir myrkur, bls. 145)

Virknin og athafnirnar eru bersýnilegar, jafnvel án sérstakrar hluttekningar. Við þurfum ekki að veita þeim sérstaka eftirtekt eða athygli, þær eru á yfirborðinu og auðvelt að eigna sér þær. Með þessu býr myndin yfir skrásetningu á eigin sögu, þrátt fyrir að nokkrar blaðsíður (eða kafla) gæti vantað. Við færum okkur frá einni athöfn yfir í aðra og listaverkið tekur á sig mynd í tíma. Þetta tímaferli verður til með hugsunum og upplifunum sem færast frá a til b og er ekki orsakabundin framrás, heldur samfelld virkni þar sem útkoman ræðst að nokkru leyti af því sem lagt er upp með. Þetta er ekki óhjákvæmilegt, mætti jafnvel frekar segja að það væri líklegt, nær því að vera útkoma sem skýrir ferlið eða ferli sem skýrir útkomuna. Þetta er ekki tími tákna eða tungumáls, heldur tími aðgerða, framkvæmda, tími þess að færast yfir flötinn. Rekja má hreyfinguna innan flatarins og flöturinn er aðeins aðgengilegur/raunverulegur í gegnum hreyfinguna.

Liturinn er brotinn upp og brotunum dreift. Hægt væri að ímynda sér að um safn væri að ræða. Safn án nokkurs þema sem hefði þann eina tilgang að safna merkingarþrungnum hlutum. Safn sem þetta myndi byggja á reglum töluvert frábrugðnum þeim sem við eigum að venjast innan hefðbundinna safna. Safnið myndi ekki treysta á merkingu eða mikilvægi hluta (lita, línu, ímynda, forma og svo mætti lengi telja, allt eftir smekk hvers og eins) og innan þess væru hlutir settir saman (að nýju, einnig eftir smekk), en án þess að búa til merkingu. Reglur safnsins væru einfaldlega að hlutir þurfi að vera staðsettir nærri hvor öðrum; að safna viðstöðulaust og setja hlutina í námunda við hvorn annan, stefnulaust, af áþreifanlegri, efnislegri nauðsyn einni saman. Jafnvel efnislegt yfirborð verksins raskast við söfnun sem fer fram eftir þessum reglum. Í yfirborðinu koma sama mismunandi áferðir, upplausnir og uppruni o.s.frv. Þetta gæti verið fagnaðarefni (fyrir flesta) þar sem það gæfi forsendur fyrir því að flækjast frá hinu persónulega yfir í hið opinbera, á milli þess fábrotna og hins háleita og þar fram eftir götum, en kannski það sem mestu máli skiptir, á milli myndar og merkingarfræði hennar. Slíku gæti því fylgt frásögn, til dæmis um jafn hversdagslegt fyrirbæri og kött.

Það er ekki návist handarinnar sem verður sýnileg, eða það að hún framkvæmi athöfnina, heldur eru það athafnirnar sjálfar sem eru settar berskjaldaðar fram. Ummerkin um tæknina og tækin sem notuðu eru til að staðsetja og til að finna sér aðstæður til að sleppa óáreitt frá, trufla skynjun okkar á nærveru handarinnar, truflar færsluna frá því að gera að því sem er gert. Við gætum verið á öðrum stað, en við erum það ekki, við erum sjónarhorn, sem gerir okkur að þeim sem við erum. Sjónarhornið kann að vera persónulegt eða formlegt og jafnvel falskt, en það er það sem það er.

-Jóhannes Dagsson

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com