I8gallery

B. Ingrid Olson opnar sýninguna Fingered Eyed í i8 Gellery

Opnun í dag, 6.júní, kl.17-19

Hvað gerist á mótum mis-en-scène, l’esprit de l’escalier, og mise en abyme? Enn betri spurning væri: hvað gerist þegar listsköpun teygir sig út fyrir þau verkfæri sem við erum vönust? Varnarstaða verður stökkpallur. Eða svo vitnað sé í orð sem Rosemary Waldrop hafði eftir Ezra Pound: miðja sem eitthvað snýst um en ekki kassi utan um eitthvað.

Það er til marks um sjaldgæfan árangur þegar sjálfur orðaforðinn sem rýnandi gæti nýtt sér til að henda reiður á skynfyrirbærum kemst í uppnám. Verk B. Ingrid Olson hafa fram til þessa fallið illa að flokkunarkerfi listmiðlunar: um leið og þau eru svo miklu meira en „skúlptúrar og ljósmyndir í innrými“ eru verkin vitanlega mestanpart skúlptúrar, oft ljósmyndir og alltaf í samspili við innrými. Þessi skilgreining lýsir verkunum þó ekki sérlega vel, nær ekki almennilega utan um þau – eina afsökunin fyrir því að nota hana sem útgangspunkt er að hún hefur ákveðna viðloðun. Þótt það sé vissulega rétt að verk listamannsins kalla á skoðun útfrá mismunandi römmum (eða sjónarhornum eða samhengi, eða hefð) er ekki síður rétt að þessir tveir aðgreindu þættir (skúlpturarnir, ljósmyndirnar) gætu sameinast aftur (í sýningarrými) og skapað heild sem vegur þyngra en hinir aðskildu hlutar.

Þegar tveir tala saman verður til þriðja röddin. Þar sem sú rödd sprettur af samtalinu er hún að vissu leyti fremst. Þannig spornar samræðan gegn hornréttunni, það er að segja ólíkar nálganir og og verkun þeirra vinna gegn þverstæðum línum. Við könnum helminga og heildir: rétt einsog skilgreina má tvíræðni sem það að leggja að jöfnu tvær ólíkar merkingar sama orðs, eða röksemdafærslu sem notar eitt orð yfir tvo ólíka hluti, þannig spretta þeir þættir sem við fylgjum í verkum Ingridar af náttúrlegri framvindu fremur en afmörkun. Sé lagt út frá orðum Anne Truitt, Hér þar sem penni minn snertir blaðið er staðurinn þar sem líkami heldur sér óskiptum, má segja að Ingrid marki andartakið þegar líkaminn – hennar? okkar? – verður hálfframandi, tvískiptur en um leið tvíeinn, opinn, óskiptur.

Eftir því sem verkum B. Ingrid Olson vindur fram verður til eins konar samhverfa sem afneitar jafngildi, verkin framkalla hliðrun, tvíræðni, fljótandi skil. Á þessu sviði – sem bæði er efnislegt og sjónrænt – er hvaðeina viðfang (og þá sem andmæla því bið ég að sanna hið gagnstæða). Ögn losaralegri staðhæfing er að segja að allt sem sést – það er að segja allt sem fellur undir sjónræna skynjun – sé mynd. Öllu því sem virkar sem ímynd er valinn staður af linsunni, hvort sem það afmarkast af linsuopi ljósmyndavélarinnar eða linsu augans sem opnast og lokast. Þessi myndlistarsýning setur í öndvegi það sem aðskilur hið einstaka og hið samsetta, hið einglyrnda og hið tvíglyrnda, sem hvort um sig brýst saman og flettist sundur á nýstárlegri vegu en nokkur líf/tæknileg aðgreining á linsu úr gleri og linsu augans. Fyrir Ingrid virðist ljósmyndun vera safn af nústilltum atvikum sem fara fram undir vökulu auga einglyrndrar vélar til framsetningar fyrir tvíglyrndan áhorfanda.

Brúnir ljósmyndaðra viðfanga B. Ingrid olson (plexígler, litprentun á ál, trefjaplötur) skaga út frá veggnum í átt til áhorfenda einsog augnblökur, króa þá af einn og einn í einu með því að gefa þeim aðeins einn möguleika á sjónrænni upplifun. Sjónarhornið gæti ekki verið þrengra án þess hreinlega að reyra áhorfandann niður. Hafi ljósmyndirnar enn til að bera einhverja þekkjanlega staðreyndalega merkingu mætti gera því skóna að eitt af markmiðum ljósmyndaverka Ingridar sé að vísa samhliða til margþætts sannleika: hvers vegna ætti listamaðurinn annars að leggja svona mikla áherslu á spegilinn, spegil sem sýnir áhorfandanum ekkert annað en þá ákvörðun listamannsins að nota hann? Að negla niður spegilmynd, það er að segja, sýna stöðuga mynd af einhverju sem í sínum innsta kjarna er síkvikult, er ákvörðun sem minnir áhorfandann á eigin takmarkanir. Skynjun fullvissu er samsett úr margs konar hálfsannleika.

Bæði myndirnar og skúlptúrarnir eru truflanir: þau trufla bæði rýmið og hið sjónræna samhengi. Með nýstárlegri framsetningu á hinu kunnuglega skapa merkingarleg undanbrögð þeirra – eða hliðstæðni –leikrými úr löghyggju hins skipulega lífs. Stundum er ekki hægt að afturkalla hið séða: við breytumst. Hvað skúlptúrísk verk hennar snertir (það er að segja verk án ljósmyndaþátta) er sköpun þeirra, og nærvera, óséð útsýni, yfirvofandi sviðsetning. Návist þeirra í rýminu verður ekki aftur tekin: enn á ný breytumst við.

Skúlptúrverkin á þessari sýningu eru hvert um sig föst á fleti, þau rjúfa vegginn og nota hann sem undirstöðu til að vaxa útfrá. Og þó einmitt öfugt: Sandkornið, ertingarvaldurinn, er frumglæði perlunnar en það er skeldýrið sem skapar hana. Þrívíð verk Ingridar virkja áhorfandann, þau ögra samfellu skynjunarinnar, efnisgera og tvístra í senn bæði innrýminu og andhverfu þess (andrúmsloftinu) sem það felur í sér. Skúlptúrarnir senda frá sér það sem þeir eru. Annars vegar nota þeir óræðni sína sem eldsneyti – og brenna henni þar með um leið. Þeir eru bæði röskun og kennimark; þeir fela í sér möguleika einsog gangstígur sem greinist. Á hinn bóginn básúna þeir tilveru sína sem staðreynd með því að stjórna, ráðskast með hið áþreifanlega. Myndlistarmenn vinna oft á oddpunkti þessara aðdráttar- og svigkrafta, þótt vera megi að í verkum Ingridar sjáum við samþættingu þessara ólíku tegunda skynjunar, uppmögnun beggja aðferða í tvöföldum frumleika. Þessi verk verða til í aðferðafræði stúdíóvinnunnar þar sem ekki er sjálfgefið að mótið sé tekið fram yfir afsteypuna eða plötuprentið. Á mörkum ljósmyndar og skúlptúrs færir hin listræna heild okkur verkfæri til ígrundunar á tveimur sjálfstæðum en þó gagnverkandi þáttum hugsunar. Eða, svo vitnað sé í Gertrud Stein: Haga verki þínu þannig að miðjan sé með öllu óþörf.

Sum ferli eru þannig að ekki hægt að sjóða þau niður eða hraða á þeim. Þessi ferli – sýningar, listiðkun, spurningar – breiðast út í bylgju sem lyftist upp fyrir tilverkan hröðunar og framrásar hinna einstöku þátta – listaverka, sýninga, svara – sem ferlin spanna. Þessi stærri bylgja hnitast um innri sveiflu; hún tekur verknað fram yfir afmörkun: ef þú ert hluti af henni ertu undir henni. Ef þú sérð hana ertu utan hennar.

– Andrew Blackley

B. Ingrid Olson (bandarísk, fædd 1987) útskrifaðist með BFA gráðu frá School of the Art Institute of Chicago árið 2010. Hún býr og starfar í Chicago.

Verk hennar hafa verið sýnd í Albright-Knox Art Gallery í Buffalo; The Renaissance Society, Chicago; The Museum of Modern Art, New York; Asper Art Museum, Aspen; og í Museum of Contemporary Art í Chicago. Hún tók þátt í Print Catalyst Program við Yale School of Art árið 2019 og hefur verið gestalistamaður við Ox-bow School of Art og við Latitude Chicago. Bók með ljósmyndaverkum hennar kom út árið 2016 hjá útgáfunni Hassla og verk hennar hafa nýlega bæst í safneign The Museum of Modern Art í New York, The Albert-Knox Art Gallery og The Rose Art Museum.

Þetta er fyrsta einkasýning B. Ingrid Olson í i8 gallerí

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com