15974914 10154839697903286 3771030648393244222 O

Auður Lóa Guðnadóttir: Mythologies / Goðsagnir

Fimmtudaginn 26. janúar klukkan 17 opnar ljósmyndasýningin Mythologies / Goðsagnir eftir Auði Lóu Guðnadóttur, í Plássi Listaverkasölunnar að Skeggjagötu 2.

Verkið Mythologies / Goðsagnir er byggt upp varlega, rólega. Lög af blautum pappír mótuð utan um grunn, sem mynda á endanum form; auðþekkjanleg, nafnlaus, alltumlykjandi en jafnframt persónuleg, handgerð.

Á bakgrunni úr hafi eða himni, sem klofinn er af sjónarröndinni, er formið í hlutverki, verður hluti af sögu, og listamaðurinn skapar þannig eigin goðsögn sem ótengd er tíma og náttúru, án þess þó að bjóða áhorfendum svar.

Auður Lóa Guðnadóttir útskrifaðist af myndlistasviði Listaháskóla Íslands 2015. Síðan þá hefur hún starfað sjálfstætt og í samstarfi við aðra listamenn, og tekið þátt í sýningum eins og ,,Kyrralíf” í Listasafni Reykjavíkur, ,,109 Kettir í Peysum” í Ekkisens og ,,Lón og Bæjarvötn” í sundlaug Langanesbyggðar. Auður Lóa fékk úthlutaða vinnustofu, á vegum MART gallery í Dublin, október síðastliðinn. Serían ,,Mythologies / Goðsagnir” er útkoma dvalarinnar, en sýningin er samansafn ljósmynda af skúlptúrum sem allir brotnuðu á leiðinni aftur heim.

Pláss er heimagallerí á vegum Listaverkasölunnar, vefverslun með íslenska myndlist og er opið á sunnudögum frá 14 – 17 og eftir samkomulagi. Sýningunni lýkur sunnudaginn 26. febrúar.

Sjá nánar á listaverkasalan.com og audurloa.com

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com