Vogabyggd Web

Átta listamenn valdir til þátttöku í samkeppni um útilistaverk í Vogabyggð

Átta listamenn og listamannahópar hafa verið valdir til þátttöku í samkeppni um útilistaverk í Vogabyggð í Reykjavík. Það eru listamannahópurinn A Kassen, Alicja Kwade, Carl Boutard, Elín Hansdóttir, Finnbogi Pétursson, Karin Sander, Rósa Gísladóttir og Tomás Saraceno.

Dómnefnd var vandi á höndum að velja úr þeim mikla fjölda tillagna sem bárust frá framúrskarandi listamönnum frá ýmsum löndum. Alls lýstu 165 listamenn yfir áhuga á því að taka þátt í verkefninu. Listamennirnir sem urðu fyrir valinu fá greiddar 600 þúsund krónur til að þróa tillögur að listaverkum og eiga að skila þeim inn fyrir 1. nóvember næstkomandi. Fjárhæð sem verja á til kaupa á listaverki eða listaverkum nemur 140 milljónum króna og er verkefnið kostað sameiginlega af Reykjavíkurborg og lóðaeigendum í Vogabyggð.

Markmið samkeppninnar er að fá fram tillögur að listaverkum sem verði mikilvægur hluti almenningsrýmis í Vogabyggð. Í deiliskipulagi Vogabyggðar kemur fram að listaverk skuli vera hluti af heildarhönnun almenningsrýma í hverfinu. Samkeppnin er haldin samkvæmt samkeppnisreglum Sambands íslenskra myndlistarmanna.

Niðurstaða forvalsnefndar var einróma. Nefndin var skipuð þremur fulltrúum: Elsa Yeoman formaður menningar- og ferðamálaráðs sat sem fulltrúi ráðsins, Ólöf Kristín Sigurðardóttir var fulltrúi Listasafns Reykjavíkur og Elísabet Brynhildardóttir skipuð af Sambandi íslenskra myndlistarmanna.

Nánari upplýsingar um samkeppnina og Vogabyggð má finna hér.

 

Um listamennina

A Kassen er samstarfsverkefni dönsku listamannanna Christian Bretton-Meyer, Morten Steen Hebsgaard, Søren Petersen og Tommy Petersen. Hópurinn hefur starfað frá árinu 2004 og hafa verk þeirra verið sýnd víða á alþjóðlegum vettvangi. List þeirra er gáskafull, lúmsk og opnar fyrir óvæntar upplifanir af umhverfi og menningu. Listamennirnir búa og starfa til ýmist í Kaupmannahöfn eða Berlín, hafa tekið þátt í fjölmörgum alþjóðlegum verkefnum og verk þeirra verið sýnd á nokkrum sýningum hérlendis. Listaverk eftir þá hafa verið sett upp í almenningsrými víða í Evrópu, mest á Norðurlöndunum.

Alicja Kwade býr og starfar í Berlín en hún er fædd í Katowice í Póllandi árið 1979. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga á ferli sínum og verk hennar verið sýnd víða á alþjóðlegum vettvangi, m.a. hér á landi. Verk hennar byggja á hugmyndum um tíma, rými, vísindi og heimspeki og fjalla um upplifun okkar af tímanum og því að vera hluti af samfélagi og umhverfi. Verk eftir Alicju Kwade hafa verið reist víða utandyra beggja vegna Atlantshafs, s.s. á Tvíæringnum í Feneyjum, í Árósum og á Miami.

Carl Boutard er fæddur í Svíþjóð árið 1975. Hann hefur vakið athygli fyrir frumleg og áhugaverð listaverk í almenningsrými en hann hefur unnið töluverðan fjölda útilistaverka, einkum í Svíþjóð. Verk hans eru mótuð af áhuga á umhverfinu og dvöl mannsins utandyra í náttúru borgarumhverfisins. Verk hans í almenningsrými hafa sterka tengingu við umhverfi sitt og hafa áhrif á upplifun manna af því. Carl Boutard býr og starfar í Reykjavík og er prófessor við Listaháskóla Íslands.

Elín Hansdóttir er fædd árið 1980 og býr og starfar í Reykjavík auk þess sem hún hefur aðsetur í Berlín. Elín vakti snemma athygli fyrir kröftug og úthugsuð verk sem sem taka mið af því umhverfi sem þau eru hluti af. Hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar á ferli sínum og verk hennar hafa verið sýnd víða á alþjóðlegum vettvangi, til að mynda í Kunst-Werke í Berlín og á alþjóðlega tvíæringnum í Marrakech þar sem hún vann listaverk í almenningsrými.

Finnbogi Pétursson er fæddur árið 1959 og býr og starfar í Reykjavík. Finnbogi á að baki langan og farsælan feril og var meðal annars fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2001. Hann hefur vakið athygli fyrir frumleg verk sem byggja á flóknum, tæknilegum útfærslum sem tengja hljóð, rými og efni. Hann hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar og verk eftir hann verið sýnd á virtum sýningarstöðum víða um heim. Verk hans prýða almenningsrými víða hér á landi og erlendis, t.a.m. í Háskólanum í Reykjavík, Orkuveituhúsinu og í Pittsburgh í Bandaríkjunum.

Karin Sander er fædd í Þýskalandi árið 1957. Hún er á meðal þeirra listamanna sem sett hafa svip sinn á alþjóðlega samtímalist með hugtakslegumverkum sem bæði hafa verið sýnd á viðurkenndum sýningarstöðum og sett upp í almenningsrými. Verk hennar einkennast af samtali við umhverfið, sögu staða og samfélagslega tengingu. Á ferli sínum hefur Karin Sander hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna og eru verk hennar í eigu fjölda alþjóðlegra safna. Hún hefur unnið fjölda stórra verka, bæði tímabundin og varanleg verk í almenningsrými. Karin Sander hefur átt verk á sýningum hérlendis en er búsett í Berlín og Zurich.

Rósa Gísladóttir er fædd í Reykjavík árið 1957. Hún hefur haft búsetu erlendis hluta starfsferils síns, m.a. í Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem hún lagði stund á nám í umhverfislist. Rósa hefur unnið áhugaverð verk þar sem umhverfismál skipa veglegan sess en verk hennar einkennast af sterkri rýmis- og formkennd. Hún hefur unnið stór verk þar sem samspil forma og umhverfis skapa áhugaverð upplifun. Rósa hefur hlotið ýmsar viðurkenningar á ferli sínum og verk hennar verið sýnd víða um heim, til að mynda í Mercati di Traiano í Róm og Saatchi-galleríinu í London.

Tomás Saraceno er alþjóðlega starfandi listamaður, fæddur árið 1973 í Argentínu. Hann hefur unnið að mörgum stórum og flóknum verkefnum víða um heim, bæði innan safnaheimsins og í almenningsrými. Tomás Saraceno hefur hlotið ýmsar viðurkenningar á ferli sínum, meðal annars hin virtu Calder verðlaun sem hann hlaut árið 2009. Hann hefur unnið listaverk þar sem byggingarlist, myndlist, verkfræði og raunvísindi mynda samofna heild sem hvetur til þátttöku og virkjar umhverfi manna.

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com