Fréttatilkynning Mynd Affall

Artfinger Pub

Fimmtudaginn 30. júlí verður útgáfuhóf í Nýlistasafninu í Marshallhúsinu í tilefni af útgáfu bókverksins Affall / Greywater eftir myndlistarmanninn Fritz Hendrik IV. Bókverkið er þriðja útgáfa Artfinger Pub, sjálfstætt starfandi útgáfu, sem hefur samhliða útgáfustörfum haldið utan um innflutning samtímafræðibóka sem snúa að hönnun og myndlist. Fritz Hendrik hefur m.a. sýnt í Ásmundarsal og í Kling&Bang og var fyrir þá sýningu, Draumaregluna, í forvali fyrir Hvatningarverðlaun Íslensku Myndlistarverðlaunanna 2019. Útgáfan er styrkt af Myndlistarsjóði.

Í bókverkinu birtist lesendum hugleiðandi fræðimaður sem staddur er einn í óþekktu húsi með blýeitrun og minnisglöp. Fræðimaðurinn ver þar tíma sínum í að pára niður texta og teikningar. Hann veltir fyrir sér málefnum líðandi stundar og tengir þau við eigin líðan, fræðin og söguna. Samhengið sem verður til í samhengisleysunni birtist svo áfram í teikningum, sem sýna glötuð augnablik, myndrænar samtengingar, „og“ eða „ef“. Hann sýnir lesandanum tengingarnar sem verða til þess að það sem kemur næst, fylgir því sem á undan var. Því er um að ræða eins konar myndasögu án eiginlegrar framvindu. Útgáfuhófið verður í Nýlistasafninu í Marshallhúsinu, fimmtudaginn 30. júlí milli 20-22

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com