SIM

ÁRSSKÝRSLA STJÓRNAR SÍM 2018-2019

Stjórn SÍM frá síðasta aðalfundi 28. maí 2018:

Anna Eyjólfsdóttir, formaður, Starkaður Sigurðarson, varaformaður, Ragnhildur Lára Weisshappel, Páll Haukur Björnsson og Hildur Ása Henrýsdóttir, meðstjórnendur. Varamaður var Erla Þórarinsdóttir.

Á þessum aðalfundi hætta Erla Þórarinsdóttir og Hildur Ása Henrýsdóttir í stjórn SÍM og Ragnhildur Lára Weisshappel tekur sæti varamanns næsta kjörtímabil.

Stjórn SÍM þakkar þeim vel unnin störf í þágu myndlistarmanna.

Þrír aðilar gefa kost á sér til stjórnarsetu næsta kjörtímabil 2019–2021 og einn sem varamaður:

Það eru Starkaður Sigurðarson, Rúrí og Hlynur Helgason, sem meðstjórnendur og Freyja Eilíf, sem varamaður.

Þar sem ekki fleiri framboð bárust, teljast þau sjálfkjörin og bjóðum við þau velkomin til starfa í stjórn SÍM.

Eftirtaldir aðilar munu skipa stjórn SÍM næsta kjörtímabil:

Anna Eyjólfsdóttir, formaður, Starkaður Sigurðarson, Rúrí, Páll Haukur Björnsson og Hlynur Helgason, sem meðstjórnendur, Ragnhildur Lára Weisshappel og Freyja Eilíf, sem varamenn.

Stjórnarfundir 2018 – apríl 2019

Stjórnarfundir voru 11 talsins, þar með taldir fjórir sambandsráðsfundir.

TILNEFNINGAR Í NEFNDIR og ráð.

SÍM tilnefndi fulltrúa sína í ýmsar nefndir og ráð, eins og kveðið er á um í lögum SÍM:

Stjórn Kynningarmiðstöðvar íslenskra myndlistar KÍM

Aðalmenn:  Ásdís Spanó og Starkadur Sigurdarson

Varamenn: Hlynur Helgason og Ragnhildur Lára Weisshappel.

Úthlutunarnefnd launasjóðs myndlistarmanna fyrir árið 2019.

Aðalmenn:  Gunndís Ýr Finnbogadóttir, Jóna Hlíf Halldórsdóttir og Ingólfur Arnarson

Varamenn: Jón Proppé, Helga Óskarsdóttir og Haraldur Jónsson

Stjórn Myndstefs

Aðalmaður:  Páll Haukur Björnsson. Varamaður: Logi Bjarnason

Fulltrúaráð Myndstefs: 

Anna Eyjólfsdóttir, formaður SÍM.

Myndlistarráð:

Aðalmenn: Guðrún Erla Geirsdóttir og Hlynur Helgason

Varamenn: Sindri Leifsson og Ingibjörg Gunnlaugsdóttir

Skemmtinefnd SÍM:

Elísabet Stefánsdóttir, Ragna Fróða og Spessi

Ritstjórn STARA,

Ritstjóri: Starkaður Sigurðarson,

Ritnefnd: Katrin Helena Jónsdóttir og Sunna Ástþórsdóttir

Trúnaðarmenn vegna samkeppna um gerð listaverka:

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir

Guðný Magnúsdóttir

Áheyrnarfulltrúi í  Menningar -, íþrótta-  og tómstundaráði Reykjavíkurborgar

BÍL missti annan áheyrnarfulltrúa sinn í Menningar -, íþrótta-  og tómstundaráði Reykjavíkurborgar þegar sætum BÍL var fækkað úr tveimur í eitt, við niðurskurð borgarinnar í sparnaðarskyni. Fulltrúum var fækkað í öllum ráðum og nefndum borgarinnar. BÍL skipar áheyrnarfulltrúa sinn hverju sinni.

SKRIFSTOFA SÍM

Á skrifstofu SÍM starfa nú 6 starfsmenn í fjórum stöðugildum. Anna Eyjólfsdóttir, formaður, Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri, Valgerður Einarsdóttir, skrifstofustjóri, Elma Óladóttir, bókari,  Martynas Petreikis, verkefnastjóri SIM Residency og Friðrik Weisshappel, umsjónarmaður fasteigna.

Viðtalstímar formanns SÍM

Til að auðvelda aðgengi félagsmanna að formanni SÍM hefur hann viðveru annarsvegar í SÍM-húsinu á þriðjudögum og hinsvegar á Korpúlfsstöðum á mánudögum og geta félagsmenn pantað viðtalstíma við formann þessa daga á skrifstofu SÍM.

UPPLÝSINGA- og  kynningaFUNDIR SÍM

Fjölmargir fundir hafa verið haldnir með formönnum fagfélaga innan SÍM, til að styrkja innbyrðis tengsl sambandsaðila og stytta boðleiðir. Þetta hefur verulega aukið upplýsingaflæði milli stjórnar SÍM og aðildarfélagana.

Jafnframt hefur verið bryddað upp á samtalsfundum í nokkrum vinnustofu-kjörnum SÍM milli formanns og listamanna sem þar starfa.  Þessir fundir hafa leitt af sér ýmsar betrumbætur og hafa eflt innbyrðis tengsl milli listamanna í hverjum kjarna. Það er gaman að geta þess að listamenn í nokkrum vinnustofuhúsum SÍM ætla að standa fyrir samsýningum á næstunni. Áframhald verður á þessum fundum með listamönnum í vinnustofuhúsum SÍM.

Vegna fjölda áskorana frá félagsmönnum var boðað til félagsfundar nú í vetur, þar sem endurskoðandi mundi fara yfir skattamál og leiðbeina félagsmönnum við framtöl þeirra. Þótt fundurinn væri vel kynntur var hins vegar engin mæting á fundinn.

Félagsmenn SÍM eru nú 859 og hefur þeim fjölgað um 64 frá síðasta aðalfundi.

Verkefni stjórnar SÍM

Meginverkefni stjórnar SÍM er að vera málsvari myndlistarmanna, vinna að bættum kjörum listamanna og efla þannig myndlist sem faggrein á Íslandi, auk þess að sinna öðrum hagsmunamálum.

Á starfsárinu 2018-2019 hefur stjórn SÍM unnið að eftirfarandi verkefnum:

Samskipti við RÁÐAMENN Í OPINBERA GEIRANUM, og  UPPLÝSINGar til þeirra

Stjórn SÍM hefur lagt áherslu á að efla og bæta samskipti við ráðamenn og kynna fyrir þeim núverandi starfsemi og framtíðaráform sambandsins.

Í því samhengi hefur mörgum fulltrúum borgar og ríkis verið boðið á fundi sem ýmist hafa verið haldnir í höfuðstöðvum samtakanna í Hafnarstræti (SÍM húsinu), á Korpúlfsstöðum eða á Seljavegi, allt eftir því hvaða málefni hafa verið til umræðu.

Við teljum okkur sjá þessa fundi hafa haft jákvæð áhrif á viðhorf viðmælenda okkar hjá stofnunum hins opinbera, og aukið skilning þeirra á þörfum myndlistar.

SÍM hefur átt í viðræðum við fulltrúa Menntamálaráðuneytisins um hækkun rekstrarstyrks til SÍM og hækkun á framlagi ráðuneytisins til Mánaðar myndlistar.  Fundirnir hafa verið gagnlegir, en ljóst er að ekki verður um hækkun að ræða á þessu fjárlagaári.

VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM

Haldið var áfram með verkefnið borgum listamönnum og náðist merkur áfangi þegar samþykktar voru verklagsreglur milli Listasafns Íslands og SÍM um greiðslur til myndlistarmanna. Listasafn Íslands er höfuðsafn myndlistar á Íslandi og því hefur þetta samkomulag stefnumótandi áhrif fyrir önnur söfn myndlistar.

Nú í vikunni bárust SÍM eftirfarandi upplýsingar frá forstöðumanni menningarmála Kópavogs:

Bæjarráð samþykkir með fimm atkvæðum fyrir sitt leyti samkomulag við SÍM um verklagsreglur um þóknun til listamanna.

SÍM hefur því náð þeim áfanga að öll Listasöfn á stór Reykjavíkur svæðinu ásamt Listasafni Akureyrar nýta sér verklagsreglur SÍM varðandi verkefnið Borgum myndlistarmönnum.

Áfram er unnið að því að ná samningum við þau söfn sem eftir standa. Allar verklagsreglurnar sem samþykktar hafa verið eru sambærilegar og er því stórum áfanga náð í áralangri baráttu myndlistarmanna við að fá laun fyrir vinnu sína í söfnum. 

Höfundaréttur

Höfundaréttur er mikilvægur réttur myndlistarmanna, rétt eins og allra annarra skapandi stétta. Um þennan rétt gilda sérstök höfundalög, bæði á Íslandi og erlendis. Höfundalög um allan heim eru í sífeldri þróun og setur m.a. Evrópusambandið sérstakar tilskipanir er varða höfundarétt.

Helstu breytingar á höfundarétti í heiminum í dag varða þróun og breytingar á miðlum og tækni, m.a. notkun höfundaréttarvarinna verka á internetinu. Einnig má sjá breytingar á ábyrgð vegna notkunar á höfundaréttarvörðu efni og viðleitni til að auðvelda höfundum að leita réttar síns.

Það er mikilvægt að myndlistarmenn þekki rétt sinn og fylgist með þróun laga, því það er á ábyrgð hvers og eins myndlistarmanns að fylgjast með notkun á verkum sínum, benda á ef brotið er á þeim og láta ekki kyrrt liggja. 

Einnig er mikilvægt að myndlistarmenn sýni virka samstöðu bæði í hagsmunabaráttu og réttindavörslu.

Tónlistarfólk þurfti að standa saman á sínum tíma í réttindabaráttu sinni gegn ólöglegri notkun og dreifingu á verkum þeirra ásamt baráttunni fyrir því að fá greitt fyrir endurnotkun. Í dag þykir eðlilegt að greiða stefgjöld og að nota tónlist löglega.

Nú er komið að myndlistarmönnum.

HAGSTOFA ÍSLANDS KÖNNUN

Formaður og Ingibjörg fóru á fund með með Erlu Rún Guðmundsdóttir hjá Hagstofunni þar sem er að gera könnun á högum myndlistarmanna í tengslum við “lífskjör og atvinnu myndlistarmanna”.

Stjórnin mun fylgjast áfram með þessari könnun og vonandi koma niðurstöður hennar í ljós á þessu ári.

BÍL

Á vettvangi BÍL er unnið að heildarhagsmunum allra listgreina á Íslandi. Stjórn BÍL hefur lagt mikla áherslu á fjölgun starfslauna listamanna og hefur mikill gangur verið í þeirri vinnu undanfarið ár. Fulltrúi SÍM í stjórn BÍL er Anna Eyjólfsdóttir, formaður.

Haldinn var sérstakur fundur í SÍM salnum með foseta BÍL 22 febrúar 2019, þar sem mættu átta félagsmenn úr ýmsum greinum myndlistar.

Punktar frá fundinum í SÍM húsinu, umræðuefni og ályktanir:

Framlög hins opinbera til listgreina árið 2018 gagnrýnd.

Starfslaun þurfa að vera sambærileg launum hjá hinu opinbera með sambærilega menntun (master próf)

+ starfsreynsla,  en eru nú 67%  laun ( þar að auki verktakalaun)

Starfslaun þurfa að hækka í 620.000 / 540.000 kr  ( 100 % laun)

Fjölga þarf heiðurslaunum Alþingis til listamanna

Þjóðargersema hugsuninni þarf að viðhalda, allt of margir listamenn hafa ekki efni á að vinna að sinni listsköpun.

Horfa má til Noregs en þar eru sérstök starfslaun til :

  • ungra listamana upp til 35 ára aldurs
  • til eldri listamanna + 57 ár
  • starfandi listamenn þar  fá lengri starfslaun 2 – 10 ár.

Annað módel:

1/3 starfslauna, engin tengin við verkefni

1/3 starfslauna skilgreind verkefni erlendis

1/3 starfslauna skilgreind verkefni hérlendis.

Listamenn ættu að vera á samfelldum launum, en tekjutengja ef listamaður selur fyrir meira en 30 milljónir á ári.

Þrískipt umsóknarferli:

  1. starfslaun
  2. starfslaun og verkefnasjóður
  3. Verkefnasjóður

100 % laun þurfa að vera að lágmarki í 12 mánuði, sérstök verkefni í 6 mánuði

Fjölga þarf starfslaunum myndlistarmanna úr 435 mánuðum í 1.087 mánuði á ári.

Eins og staðan er í dag samsvara þau 1,25 mánuði á hvern félagsmann (67% dagvinnulaun).

Að starfslaun séu það há að listamenn geti lifað af þeim. ( eftir skatt, e efniskostnað, og vinnustofuleigu)

Sé listamaður með 2x listamannalaun á mánuði í tekjur af sölu listaverka, skal hann greiða 5% af sölunni í ákveðinn sjóð sem verði undir stjórn  fagaðila

AÐALFUNDUR IAA

Anna Eyjólfsdóttir, formaður SÍM, og Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri SÍM, fóru á aðalfund IAA (Alþjóðasamtaka myndlistarmanna) sem var haldinn í Brussel dagana 22. -24. Nóvember 2018. Á fundinum bar hæst umræða um réttindi listamanna í Evrópu til að fá greitt fyrir sýningar í listasöfnum og galleríum.

Framtíðarmarkmið IAA varðandi greiðslur til listamanna vegna sýninga í opinberum söfnum í Evrópu eru m.a.:

  • Að koma á fót varanlegu kerfi er varðar greiðslur til listamanna fyrir sýningu og þóknun fyrir þátttöku.
  • Að við veitingu styrkja frá hinu opinbera verði skilyrt að sýningar- og þátttökugjald sé greitt til listamanna.
  • Að það verði veruleg aukning á fjármagni frá hinu opinbera til listastofnanna (söfn, gallerí og svo frv.)
  • Að samtök listamanna komi að samningum um sanngjarnar greiðslur til listamanna 

LIST Í OPINBERU RÝMI OG SAMKEPPNIR.

Stjórn SÍM fagnar því að Reykjavíkurborg hafi mótað sér stefnu um listaverk í opinberu rými í borgarlandinu. Talsverð lægð hefur verið í þessari tegund myndlistar undanfarna áratugi, og er því fagnaðarefni að borgin hefur sett á stefnuskrá sína að auka við myndlist í opinberu rými og er skemmst að minnast glæsilegrar samkeppni sem kennd er við Vogabyggð. Samkeppnin var haldin samkvæmt samkeppnisreglum SÍM, og trúnaðarmaður var Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir. Vonandi sjáum við bráðlega fleiri slíkar samkeppnir.

Listskreytingasjóður ríkisins

SÍM hefur einnig átt í viðræðum við ráðuneytið um að efla Listskreytingasjóð og standa vonir til þess að af því geti orðið með nýrri stjórn sjóðsins, sem er verið að skipa þessa dagana.

ARKIV.IS

SÍM setti af stað endurhönnun upplýsinga vefsíðu um íslenska myndlistarmenn/félgasmenn

SÍM árið 2017, en eldri síða UMM.is var orðin úr sér gengin. Hönnun ARKIV.is er ólokið, en vonandi styttist í að lokið verði við endanlega hönnun síðunnar þannig að hún geti þjónað sínu hlutverki.

STARA / VEFRIT & ÚTGÁFA SÍM

SÍM Samband íslenskra myndlistarmanna gefur út myndlistarritið STARA. Ritið hefur að undanförnu komið út tvisvar á ári, í vefútgáfu á íslensku og ensku, en prentað á pappír á íslensku. Vonir standi til að STARA 12 verði einnig prentað á ensku á komandi starfsári.

Stara hefur verið aðgengilegt á netinu á gegnum síðu SÍM en unnið er að því að setja upp eigin síðu Störu. 

Stara er ókeypis fyrir félagsmenn SÍM en er til sölu í búðum og söfnum víða um land, þar á meðal í bókaverslun Eymundsson. 

Ritstjóri Störu er Starkaður Sigurðarson og í ritnefnd 12. útgáfu eru einnig: Katrin Helena Jónsdóttir og Sunna Ástþórsdóttir.

ARTÓTEK

Artótekið, sem er samstarfsverkefni SÍM og Borgarbókasafnsins, var stofnað 2004. SÍM tók yfir reksturinn fyrir ári síðan og sér um allt fjárhagslegt utanumhald Artóteksins en Borgarbókasafnið sér um, eftir sem áður, hýsingu, kynningu og sýningarhald.

Í Artótekinu er til leigu og sölu myndlist eftir félagsmenn SÍM. Markmiðið með Artótekinu er að kynna notendum Borgarbókasafns og öðrum íslenska samtímalist og gefa þeim kost á að leigja eða eignast listaverk á einfaldan hátt. 

Félagsmenn eru hvattir til tryggja gott úrval og eðlilega endurnýjun verka og að vera virkir á facebook-síðu Artóteksins og nota myllumerkin #artotekid og #borgarbokasafnid.

VINNUSTOFUR SÍM

SÍM hefur á undanförnum árum, fyrir utan almenna hagsmunabaráttu, einbeitt sér að uppbyggingu á grunnþjónustu við félagsmenn. Liður í því að efla grunnþjónustuna er að bjóða félagsmönnum vinnustofur á kostnaðarverði . SÍM leigir nú sjö vinnustofuhúsnæði fyrir félagsmenn víðasvegar um höfuðborgarsvæðið. Í vinnustofuhúsum SÍM eru ýmis verkstæði, sýningarsalur, auk þess sem Gallerí er rekið á Korpúlfsstöðum. Vinnustofuhús SÍM eru á Seljavegi, Hólmaslóð, Bríetartúni, Korpúlfsstöðum, Auðbrekku 1 og 14 í Kópavogi og í Lyngási í Garðabæ, þar hafa hátt í 200 myndlistarmenn starfsaðstöðu sína.

SÍM RESIDENCY REYKJAVIK

SÍM hefur undanfarin 16 ár byggt upp alþjóðlegt gestavinnustofuprógramm í Reykjavík fyrir erlenda listamenn.  Frá stofnun SÍM Residency hefur SIM tekið á móti hátt í 3.000 listamönnum, víðsvegar að úr heiminum til dvalar í Reykjavík.

Með starfsemi SIM residency hefur SÍM unnið mikilvægt grasrótarstarf,  þar sem ekki verður framhjá því litið að Ísland er hluti af samfélagi þjóðanna og mikilvægt er að færa heimslistina í meira mæli heim til Íslands. Íslenskir listamenn hafa um langt skeið sótt í gestavinnustofur fyrir listamenn víða um heim í þeim tilgangi að víkka út sjóndeildarhring sinn og kynnast kollegum sínum utan heimalandsins. Með tilkomu SIM residency er Ísland fullgildur þátttakandi í þessum mikilvægu alþjóðasamskiptum myndlistarmanna en SIM residency miðstöðin er ein sú stærsta sem starfrækt er á Norðurlöndunum. Markmiðið er að Ísland verði jafn sjálfsagður vettvangur fyrir heimslistina og hver annar staður í heiminum.

Í hverjum mánuði koma um 15 erlendir myndlistarmenn til dvalar í SIM residency og í hverjum mánuði myndast nýtt alþjóðlegt listamannasamfélag í Reykjavík.  Listamennirnir geta dvalið að lágmarki í einn mánuð og upp í þrjá mánuði í listamiðstöðinni.

SÍM er núna með vinnustofuskipti við Finnland, Noreg og Þýskaland. Árið 2018 vorum við einnig í vinnustofuskiptum við Litháen. Vinnustofunar eru alltaf auglýstar á heimasíðu SÍM.

SÍM þurfti að endurnýja algjörlega SIM residency, gestaíbúðina á Seljavegi, að kröfu Eldvarnareftirlitsins, en flytja þurfi gestaíbúðina af 4. hæðinni niður á 2. hæð.  Nýja gestaíbúðin er rúmlega 300 m2 að stærð og geta 11 listamenn dvalið þar saman í hverjum mánuði.

Framkvæmdir við gestaíbúðina stóðu yfir í rúman mánuð og er heildarkostnaður vegna framkvæmdana rúmar 20 milljónir króna. Gestaíbúðinni er alltaf úthlutað með margra mánaða fyrirvara og var þess vegna bara hægt að lokað henni í einn mánuð, í janúar 2019. 

SÍM sótti sérstakelga um styrki fyrir framkvæmdinni til Reykjavíkurborgar, í Samfélagssjóð VALITORS, til Menntamálaráðuneytisns og í Samfélagssjóð Landsbanka Íslands.

Því miður fengum við allsstaðar höfnun nema hjá Myndstefi sem veitti SÍM 2 milljón króna styrk.

GESTAVINNUSTOFUR SÍM Í BERLÍN

SÍM hefur rekið gestaíbúð í Berlín fyrir félagsmenn sína frá árinu 2010. Gestaherbergin eru tvö, Askja og Hekla, og þeim fylgir sameiginlegt eldhús og bað. Félagsmenn geta sótt um að dvelja í íbúðinni í einn mánuð í senn. Gestaíbúðin er staðsett í Friedrichshain sem tilheyrði áður gömlu Austur-Berlín. Í hverfinu býr fjöldi listamanna og hönnuða og það er iðandi af mannlífi, skemmtilegum hönnunarbúðum, kaffihúsum og veitingastöðum.

Stjórn SÍM ákvað árið 2016 að setja af stað tilraunaverkefni til tveggja ára og bjóða tveimur ungum félagsmönnum að dvelja frítt í gestavinnustofu SÍM í Berlín á hverju ári. Þeir sem dvöldu í Berlín árið 2018 voru Anton Logi Ólafsson og Dagrún Aðalsteinsdóttir.  Þessu tilraunaverkefni lauk árið 2018 og hefur ekki verið ákveðið hvort framhald verði á.

SÍM SALURINN

SÍM salurinn, í höfuðstöðvum SÍM í Hafnarstræti 16, stendur félagsmönnum til boða til sýningarhalds og annarra viðburða. Auglýst er eftir umsóknum um sýningar félagsmanna í Salnum einu sinni á ári og standa sýningarnar yfir í um þrjár vikur, en í lok hvers mánaðar eru samsýningar gestalistamanna SÍM.

Sýningarnar hafa verið vel sóttar og hægt er að fylgjast með því hvað er á dagskrá bæði á heimasíðu SÍM og Facebook-síðu félagsins.

Árið 2018 voru eftirtaldir félagsmenn með sýningu í SÍM – salnum:

Jón Þór Gíslason, Nermine El Ansari, Brynhildur Kristinsdóttir og Jónborg Sigurðardóttir,

Steingrímur Gauti Ingólfsson, Þuríður Sigurðardóttir, Hildur Henrýsdóttir, Guðrún Vera Hjartardóttir, Ragnhildur Jóhanns, Guðrún Nielsen, Gréta Mjöll Bjarnadóttir og Anna Gunnlaugsdóttir

KORPÚLFSSTAÐIR HLÖÐULOFTIÐ

Stefnt er að því að halda Hlöðuball „árshátíð“ SÍM á Hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum. Kosin var skemmtinefnd til að halda utan um viðburðinni.  Í nefndinni eru Elísabet Stefánsdóttir, Ragna Fróða og Spessi og munu þau skipuleggja kántríball á Hlöðuloftinu á árinu.

Unnið er að því að gera Hlöðuloftið að faglegu sýningarrými á vegum SÍM.

Hvatt er til þess að fagfélögin nýti sér Hlöðuloftið fyrir sýningar sinna félagsmanna

Og má að því tilefni nefna að FÍSL verður með sýningu á verkum félagsmanna sinna þar í sumar.

MÁNUÐUR MYNDLISTAR

Undanfarin ár hefur kynningarátakið Dagur Myndlistar orðið sífellt viðameiri og var því ákveðið haustið 2018 að viðburðurinn næði framvegis yfir október mánuð og nafni var breytt í Mánuður Myndlistar. Verkefnið tókst vel undir stjórn Katrínar Helenu Jónsdóttur.

Hins vegar er útfærsla verkefnisins árið 2019 enn í mótun. Undanfarin ár hafa ekki fengist nægjanlegir styrkir frá hinu opinbera til að greiða listamönnum fyrir vinnu sína við kynningar í skólum.  Þess vegna hefur SÍM þurft að greiða með þessari kynningu. Það stefnir því í að tímabundnar breytingar verði gerðar á þessu verkefni.  Á þessu ári verður ekki hægt að bjóða kynningar í skólum á landsbyggðinni.

TORG 2018 LISTAMESSA

TORG 2018 Listamessa í Reykjavík var haldin í tengslum við Mánuð Myndlistar á Korpúlfsstöðum í októberbyrjun með góðum árangri, og er gaman að geta þess að heildarsala á messunni nam ríflega sex milljónum króna.

TORGI 2019 Listamessa í Reykjavík verður haldin í annað sinn á Hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum í haust í tengslum við Mánuð Myndlistar og hefst með opnum 3. október og mun standa til sunnudagsins 6.október 2019

BÓKHALD – ENDURSKOÐUN – ÁRSREIKNINGUR 2018

Undanfarin ár hefur bókari starfað á skrifstofu SÍM og fært bókhald samtakanna.

Til hægræðingar ákvað stjórnin að fá utanaðkomandi bókhaldsskrifstofu til að annast þennan verkþátt.  Samningur um verkþáttinn var gerður um síðastliðin áramót.  Einnig var ákveðið að skipta um endurskoðanda, en því miður var ekki unnt að ljúka við ársreikningi 2018 fyrir aðalfund, sem skírist af þessum stutta undirbúningstíma. Því verður boðað til sérstaks framhaldsaðalfundar til að fara yfir og samþykkja reikninga SÍM þegar þeir eru tilbúnir.

Starfsárið 2018–2019 var bæði viðburðaríkt og krefjandi. Stjórn SÍM þakkar öllum nefndarmönnum sem hafa unnið gott starf fyrir SÍM á árinu og öllum þeim sem hafa komið að þeim mikilvægu verkefnum sem SÍM hefur unnið að.

Fyrir hönd stjórnar SÍM

Anna Eyjólfsdóttir, formaður

Félagsfundir 2019-2020

Áætlað er að halda þrjá félagsfundi á næsta starfsári um málefni sem varða myndlistarmenn:

Hlutverk listasafna og listamanna, samskipti þeirra og samstarf.

Feneyjatvíæringurinn sem vettvangur og áhrifavaldur

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar – kynning á starfsemi KÍM

Heimsóknir ERLENDra SÝNINGARSTJÓRA

Við erum að leytast við að fá erlenda sýningarstjóra og eða fagfólk til að koma til Íslands til að kynna sér list félagsmanna SÍM. Hugmyndin er að  bjóða upp á viðtöl við t.d. erlenda sýningarstjóra, greinaskrifendur, listfræðinga og aðra sem hafa tengingar við erlendan listheim, hugmyndin byggir á því að viðkomandi veiti 5-10 listamönnum tækifæri á að kynna sig og verk sín  í viðtali. Það sem við getum boðið í staðinn er gisting í Hafnarstræti í 5-10 daga eftir því sem við á.

Þetta verkefni er ekki bundið ákveðum árstíma heldur munum við reyna að miða við þann tíma sem hentar viðkomandi. Komur þessara aðila verða kynntar félagsmönnum gegnum miðla SÍM með góðum fyrirvara.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com