Stara Mynd

Ársskýrsla 2014-2015

Ársskýrsla SÍM 2014

Stjórnar-, sambandsráðs- og félagsfundir SÍM

Nýja stjórn SÍM skipa frá 3. apríl 2014 Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður, Erla Þórarinsdóttir varaformaður, Gunnhildur Þórðardóttir ritari, Steingrímur Eyfjörð og Kristjana Rós Guðjohnsen meðstjórnendur. Stjórnarfundir voru 13 talsins, þar með talið tveir sambandsráðsfundir. Jafnframt voru haldnir þrír félagsfundir.

Stjórn SÍM vinnur að hagsmunamálum listamanna. Á starfsárinu 2014-2015 hefur stjórn SÍM lagt áherslu á að halda uppi virku samtali milli stjórnar og félagsmanna og styrkja með því ímynd SÍM innan frá. Stjórn SÍM telur leiðina að betra starfsumhverfi stjórnar og félagsmanna felist í virku samtali sem mun leiða til vitundarvakningar og þátttöku félagsmanna í starfsemi SÍM.

Stjórn SÍM hefur unnið að eftirfarandi verkefnum á árinu 2014: 

LAUNA- OG SKOÐANAKÖNNUN HJA FÉLAGSMÖNNUM SÍM

Helsta verkefni SÍM tengjast sem fyrr starfsumhverfi og hagsmunum myndlistarmanna. SÍM framkvæmdi launa- og skoðanakönnun hjá félagsmönnum samtakanna, líkt og gert var árið 1995. Niðurstaða könnuninnar verður kynnt á aðalfundi SÍM þann 16. apríl 2015. Með gögnum úr slíkri könnun telur stjórn SÍM að félagið fái öflugt tæki, sem nota má í hagsmunabaráttu félagsins og til grundvallar við gerð samninga vegna sýningarhalds.
STARFSHÓPUR UM SAMNINGA VEGNA SÝNINGARHALDS Í SAMSTARFI VIÐ LISTASÖFN ÍSLANDS

Formaður SÍM fundaði á árinu með safnstjórum frá Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Árnesinga, Listasafni Akureyrar, Listasafni ASÍ, Hafnarborg og Gerðarsafni til að undirbúa jarðveginn fyrir samninga um að listamenn fái laun vegna vinnu við eigin sýningar í listasöfnum og sýningarsölum hérlendis. Ákveðið var að setja saman starfshóp sem hefur það hlutverk að móta tillögu að launasamningum fyrir listamenn sem sýna í söfnum á Íslandi sem rekin eru eða styrkt af ríki eða sveitarfélögum. Í slíkri tillögu eiga að koma fram launaviðmið fyrir sýningar í opinberum söfnum sem taka mið af því að samningar geti verið ólíkir, m.a. eftir því hvort um er að ræða einkasýningar eða samsýningar. Í slíkri tillögu ætti m.a. að skilgreina lágmarks tímaviðmið sem liggja til grundvallar launasamningum og gera ráð fyrir að sýningum geti fylgt efniskostnaður.

Starfshópnum er ætlað að skila inn fyrstu drögum að tillögu þann 24. apríl 2015 og lokatillögu þann 9. júní 2015. Starfshópurinn ætti að hafa til hliðsjónar launaviðmið í samningum opinberra listamanna og safna í norrænum ríkjum, svo sem MU samningnum, svo og öðrum löndum sem starfshópurinn telur ástæðu til að bera saman við kjör listamanna hér á landi.

Samband íslenskra myndlistamanna tilnefndi Ilmi Stefánsdóttur og Úlf Grönvold myndlistarmenn í starfshópinn, listasöfnin tilnefndu Þorgerði Ólafsdóttur safnstjóra Nýlistasafnsins og Kristínu Scheving deildarstjóra Vasulka stofu. Birta Guðjónsdóttir deildarstjóri sýningardeildar hjá Listasafni Íslands er varamaður. Verkefnastjóri starfshópsins er Ásdís Spanó. Fulltrúar starfshópsins, þ.m.t verkefnisstjóri, fá greitt fyrir störf sín á meðan verkefninu stendur. Þóknun verkefnisstjóra verður greidd af þeim sem koma að þessu samstarfi.

Þess var óskað að Mennta- og menningarmálaráðherra og Samband íslenskra sveitafélaga tilnefndu einn fulltrúa í starfshópinn en þau afþökkuðu bæði þátttöku í verkefninu.

UMSÓKN UM AÐILD AÐ BHM

Stjórn SÍM sendi síðastliðið haust inn umsókn um að verða aðildarfélag að Bandalagi Háskólamanna (BHM) og mun umsóknin verða tekin fyrir á aðalfundi BHM í apríl 2015. BHM er bandalag hagsmunatengdra félaga eða stéttarfélaga sem starfa að fag- og vinnumarkaðslegum málefnum félagsmanna sinna. BHM styður við starf aðildarfélaga, eflir þekkingu félagsmanna á kjara- og réttindamálum og gætir hagsmuna félagsmanna gagnvart stjórnvöldum. Núverandi stjórn SÍM telur að það sé orðið tímabært að félagsmenn SÍM hafi aðgang að sjúkrasjóði, styrktarsjóði og orlofssjóði og telur það vera lið í að styrkja kjarabaráttu listamanna að SÍM gerist aðili að BHM. Haldinn var félagsfundur 1. desember þar sem starfsmaður frá BHM kom og kynnti hvaða skyldur og kjör felast í því fyrir félagsmenn SÍM að vera innan vébanda BHM.

STARA / VEFRIT SÍM

Stjórn SÍM hefur unnið hörðum höndum að því að bæta ímynd SÍM og tók því þá ákvörðun að breyta fréttariti SÍM í vefrit. Haldin var samkeppni meðal félagsmanna um nafn á vefritinu og varð nafngiftin STARA hlutskarpasta tillagan, en Steingrím Eyfjörð lagð hana fram. Hlutverk STÖRU er að vera vettvangur fyrir myndlistarmenn, listfræðinga og aðra fræðimenn til að skrifa greinar um hagsmunamál myndlistarmanna og málefnum þeim tegndum ásamt því að miðla upplýsingum um innra starf SÍM. STARA kemur út þrisvar á ári og er bæði á íslensku og ensku. STARA er öflugur vettvangur fyrir samtal, aukna þekkingu og skilning á mikilvægi myndlistar í samfélaginu. Stjórn SÍM vinnur að því að setja saman ritnefnd og verður reynt að fjármagna hluta af kostnaði með auglýsingum. Þegar hafa verið gefin út tvö tölublöð sem eru aðgengileg hér:

1.tölublað 2014

http://issuu.com/stara-sim/docs/stara1tbl/1?e=0/9324008

  1. tölublað 2014

HEILDARMYNDIN

Stjórn SÍM hefur tekið að sér kortlagningu á heildarmynd íslenskrar myndlistar. Kortið sýnir hvert atriði myndlistarheimsins og um leið hvað tilheyrir sama mengi og hvernig einstaka atriði skarast, og auðveldar þannig allar áætlanir um breytingar og lagfæringar.

Kortið af heildarmyndinni er framlag SÍM til þess að sameina framtíðarsýn þeirra sem koma að myndlist á Íslandi. Það er sett fram sem tilraun að grunni til samstarfs, en til að byrja með mun hver og einn félagi í SÍM taka þátt í að bæta við atriðum sem vantar og koma með tillögur að aðgerðum til að heildarmynd myndlistar nái að dafna og þróast. Aðrir aðilar sem tengjast myndlist verða fengnir til að bæta við kortið eftir þessa vinnu félaga SÍM, til þess að auka á skilning og samvinnu.

SAMSTÖÐUFUNDUR VEGNA BIRTINGU MYNDA SAFNEIGNA Á INTERNETINU

Myndstef bauð til samstöðufundar vegna birtingu mynda safneigna á internetinu þann 17. nóvember 2014. Formaður SÍM hélt erindi um stefnu stjórnar SÍM á höfundarrétti á internetinu og mikilvægi þess að standa saman. Stjórn SÍM telur það vera hagsmunamál myndlistarmanna að verkin séu aðgengileg almenningi og öllum þeim sem hafa áhuga á að kynna sér myndlist og myndlistarsögu landsins. Enda er það lögbundin skylda safna að veita almenningi aðgang að safnkosti. Hins vegar má velta upp þeirri spurningu hvort það sé lögbundin lögbundin skylda safna að veita almenningi aðgang að þeim án endurgjalds.

Í lok fundar var gerð ályktun um að Myndstef, SÍM og söfnin myndu senda til Mennta- og menningarmálaráðuneytis erindi þar sem við óskuðum eftir að leyst yrði úr málum sem snúa að opinberri birtingu myndverka á internetinu.

Stjórn SÍM sendi bréf til Mennta- og menningarmálaráðuneytið þann 1. desember 2014 og fór fram á að ráðuneytið skýri opinberlega viðeigandi ákveði höfundalaga nr. 73/1972 og þar með hvað felst í höfundarétti myndhöfunda og takmörkunum vegna birtingar myndverka á internetinu. Við þá vinnu teljum við að ráðuneytið þurfi að hafa til hliðsjónar mikilvægi miðlunar menningararfsins, og þá sérstaklega mikilvægi þess að hafa nánast alla safneign Íslands aðgengilega á einum gagnagrunni- sarpur.is. Jafnfram teljum við eðlilegt að ráðuneytið viðurkenni rétt myndhöfunda að fá sanngjarna þóknun fyrir ofangreind not samkævmt 3. gr. höfundalaga, sbr. 2. gr. sömu laga. Við fórum einnig fram á við ráðuneytið að það auki fjárveitingar til safna og réttindin verði þar með tæmd, þannig að menningararfur Íslands geti verið aðgengilegur almenningi – nemendum, kennurum, listunnendum og fleirum.

STÖNDUM VÖRÐ UM MYNDLISTARSJÓÐ

Stjórn SÍM setti af stað undirskriftasöfnun september 2014 þar sem mótmælt var niðurskurði á Myndlistarsjóði. Yfir 1000 manns skrifuðu undir og skoruðu á þingmenn að snúa þessari þróun við og standa vörð um Myndlistarsjóð. Stjórn SÍM ákvað að vera með opinn fund þann 31. október 2014 í Iðnó til þess að afhenda undirskriftalistann til Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganendar. Boðið var upp á stefnumót við alþingismenn til þess að ræða um framtíð Myndlistarsjóðs og myndlistarinnar í landinu. Ragnar Kjartansson myndlistarmður og Ólöf K. Sigurðardóttir safnstjóri Hafnarborgar héldu erindi, Ghostigital flutti hljóðgjörning, Elísabet Brynhildardóttir, verkefnastjóri opnaði formlega Dag Myndlistar og fundarstjóri var Markús Þór Andrésson, sýningarstjóri. Fundurinn var vel sóttur af félagsmönnum og fékk talsverða umfjöllun í fjölmiðlum.

Stjórn SÍM bauð listamönnum, safnstjórum og hagsmunaraðilum á nokkra hádegsifundi til þess að ræða um framtíð Myndlistarsjóðs. Fundirnir voru gagnlegir og árangursríkir. Það var ákveðið á einum fundinum að biðja 12 alþjóðlega íslenska myndlistarmenn að skrifa undir áskorun til þingmanna að hækka framlag í Myndlistarsjóð í 50 milljónir fyrir árið 2015. Áskorunina var skrifuðu af Rúrí Fannberg, myndlistarmaður og Hlynur Helgasson, listfræðingur. Einnig voru listamenn beðnir um að gera áróðursmyndir sem var dreift á samfélagsmiðlum.

Stjórn SÍM sendi beiðni á systrafélögin á Norðurlöndum um stuðningsyfirlýsingu vegna niðurskurðar á Myndlistarsjóði. Stuðningsyfirlýsing barst frá KRO/KIF í Svíþjóð og NBK í Noregi.

Það voru vonbrigði þegar tilkynnt var að einungis 25 milljónir voru sett í Myndlistarsjóð í lokagerð fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2015. Með þessu hafði einungis áunnist að stöðva þann boðaða niðurskurð að minnka framlag til sjóðsins úr 25 milljónir króna í 15 milljónir fyrir fjárlagaárið 2015. Þessi niðurstaða felur hins vegar ekki í sér að búið sé að endurreisa Myndlistarsjóð í þeirri mynd sem hann var stofnaður árið 2012, en þá var sjóðurinn 45 milljónir króna. Stjórn SÍM telur þó að öll vinnan sem var unnin hafi sáð fræjum sem nýtist í áframhaldandi baráttu fyrir fjárlagaárið 2016.

DAGUR MYNDLISTAR

Dagur Myndlistar var formlega settur 31. október 2014 á stefnumóti myndlistarmanna við stjórnmálamenn í Iðnó. Verkefnastjóri Elísabet Brynhildardóttir ákvað að leggja áherslu þessa árs á að teygja anga verkefnisins útávið og leitast við efla umræðu um myndlist á opinberum vettvangi með greinaskrifum sem birtust í aðdraganda dagsins, uppfærðu útliti á heimasíðu verkefnisins og jafnframt var bætt í þann góða vídeósarp vinnustofuheimsókna sem finna má á heimasíðu verkefnisins. 25 skólakynningar fóru fram í nóvember og eins voru opnar vinnustofur myndlistarmanna á deginum sjálfum.

Til að auka þunga og sýnileika dagsins var leitað til 5 greinahöfunda sem allir voru beðnir um að skrifa um mikilvægi myndlistar í íslensku samfélagi. Greinahöfundar voru Kári Finnsson, Edda Kristín Sigurjónsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Ragnar Kjartansson og Tinna Guðmundsdóttir. Greinarnar voru allar birtar á www.visi.is sem og á heimasíðu dags myndlistar. Grein Ragnars Kjartanssonar var einnig birt í Fréttablaðinu á degi myndlistar. Allar greinarnar má nálgast á www.dagurmyndlistar.is

Skrifin vöktu mikla athygli myndlistarmanna sem og annarra og segja tölurnar okkur að grein Eddu var deilt 153 sinnum, grein Tinnu 84 sinnum, Ragnars 345 sinnum, Katrínar 320 sinnum og Kára 152 sinnum. Samtals 1045 sinnum sem hlýtur að teljast góður árangur þó áhrifin séu ill-mælanleg.

Dagur myndlistar fékk mikla umfjöllun þetta árið og hjálpaði samstöðufundur í Iðnó og eins öflug sýningarhelgi 1. nóvember mikið til. Dagurinn fékk umfjöllun í kvöldfréttum beggja sjónvarpsstöðva ásamt því að farið var í útvarpsviðtöl á útvarpi Sögu, Rás 1 í Víðsjá og Rás 2 í Virkum morgnum.

Ein mikilvægasta hlið verkefnisins eru kynningar myndlistarmanna í grunn- og framhaldsskólum landsins enda eitt af fáum tækifærum til að ná til jafn mikilvægs hóps. Myndlistarmenn kynntu í 25 skólum og héldu eftirfarandi listamenn kynningar:

Ásmundur Ásmundsson, Finnbogi Pétursson, Freyja Eilíf Logadóttir, Guðjón Ketilsson, Halla Birgisdóttir, Inga Þórey Jóhannsdóttir, Jóhanna Helga Þorkellsdóttir, Loji Höskuldsson, Pétur Thomsen, Sigga Björg, Sigríður Ágústsdóttir, Una Björg Sigurðardóttir og Unndór Egill Jónsson.

Kynningarnar fóru vel fram og í amk tveimur skólum héldu kynningarnar áfram langt yfir áætlaða kennslustund vegna einbeitingar og áhuga nemenda. Stjórn SÍM þakkar Elísabetu Brynhildardóttur fyrir vel unnin störf og býður Berglindi Helgdóttur velkomna til starfa en hún hefur verið ráðin verkefnastjóri Dag Myndlistar 2016.

SAMSTARFSSAMNINGUR – UMM

Stjórn SÍM sótti um samstarfssamningi hjá Mennta- og menningarmálaráðaneytið, þar sem þriggja ára samningur við ráðuneytið rann út í lok árs 2014. Samhliða endurnýjuninni var óskað eftir hærra fjárframlagi til að fjármagna breytingar á UMM. Samningurinn var endurnýjaður á árinu en hærra fjárframlag fékkst ekki. Stjórn SÍM vinnur nú að því að fá samninginn hjá Mennta- og menningarmálaráðaneytinu endurskoðaðan þannig að gert verði ráð fyrir hærra fjárframlagi. Þannig verður hægt að gera breytingar UMM síðunni. Það er von okkar að síðan verði komin með nýtt útlit árið 2015 með skilvirkari uppsetningu sem mun auðvelda félagsmönnum að uppfæra síðuna sína og halda við.

LAUNAKRAFA FYRRVERANDI FORMANNS

Þann 24. júlí sl. fékk SÍM sent bréf frá VR þar sem þess er krafist að SÍM borgi fráfarandi formanni félagsins, Hrafnhildi Sigurðardóttur, full laun fyrir aprílmánuð 2014 að frádregnum launum sem hún hefur þegar fengið greidd vegna sama mánaðar, auk fullra launa vegna maí-, júní- og júlímánaða vegna uppsagnarfrests, auk orlofs og desemberuppbóta skv. kjarasamningi VR. Til frádráttar komi greiðslur sem þegar hafa verið greiddar vegna orlofs og uppbóta. VR gerði þá kröfu að SÍM greiði Hrafnhildi kr. 1.674.481. vegna málsins. Stjórn SÍM hélt félagsfund þann 22. ágúst 2014 vegna kröfu fyrrverandi formanns. Á fundinum var stjórn falið að ráða lögmann til þess að svara kröfu VR. Stjórn SÍM réð Ástráð Haraldsson hæstaréttarlögmann hjá Mandat lögmannsstofu. Ástráður sendi bréf til VR þar sem hann tilkynnti þeim að SÍM hafni kröfunni alfarið og telur hana ekki réttmæta. Svör hafa ekki borist frá VR.

SKRIFSTOFA SÍM

Á skrifstofu SÍM starfa nú sex starfsmenn í rúmum fjórum stöðugildum. Ingibjörg Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri SÍM, Þórólfur Árnason bókari, Hildur Ýr Jónsdóttir umsjónarmaður gestavinnustofa, Friðrik Weisshappel umsóknarmaður fasteigna. Arna Óttarsdóttir skrifstofustjóri lauk starfi byrjun desember og var Una Baldvinsdóttir ráðin í hennar stað. Við þökkum Örnu Óttarsdóttur fyrir samstarfið og óskum henni velfarnaðar í listsköpun sinni.

Á árinu kom til okkar starfsnemi í samstarfi við Kynningarmiðstöðina. Anna Domnick, ljósmyndari frá Berlín sem dvaldi í gestavinnustofu SÍM í mánuð gegn því að vinna 50% vinnu hjá SÍM. Anna fékk það verkefni að gera nýjan bækling fyrir gestavinnustofu SÍM og taka ljósmyndir af starfsemi SÍM sem mun nýtast í kynningarefni hjá SÍM.

VINNUSTOFUR 

SÍM hefur leigt út vinnustofur til listamanna um árabil. Nú leigja um 200 félagsmenn vinnustofur hjá SÍM en vinnustofurnar er á Seljavegi, Nýlendugötu, Korpúlfsstöðum, Lyngási og Súðavogi.

SÍM SALURINN

SÍM salurinn sem staðsettur er í höfuðstöðvum okkar í Hafnarstræti 16, stendur félgsmönnum til boða til sýningarhalds. Auglýst er eftir umsóknum einu sinni á ári og eru sýningartímabil oftast miðuð við einn mánuð.

Sýningarnar hafa verið vel sóttar og hægt er að fylgjast með því hvað er á dagskrá bæði á heimasíðu og facebooksíðu félagsins.

Árið 2014 voru settar upp sýningar af ýmsum toga og má þar á meðal nefna sýningar á vegum Textílfélagsins og Félags íslenskra samtímaljósmyndara auk einkasýninga Erlu Þórararinsdóttur, Úlfs Karlssonar, Katrínar I. Jónsdóttur Hjördísardóttur, Önnu Maríu Lindar Geirsdóttur, Emmu Heiðarsdóttur, Þórdísar Erlu Zoëga, Ragnheiðar Ragnarsdóttur og  Joris Rademaker. Aðventusýning með verkum félagsmanna var svo haldin í desember við góðar undirtektir.

SÍM GESTAVINNUSTOFUR REYKJAVÍK

115 erlendir listamenn  dvöldu í gestavinnustofum SÍM 2014, flestir í einn mánuð en nokkrir í 2-3 mánuði. Í hverjum mánuði er haldið listamannaspjall í SÍM salnum, þar sem listamenn segja stuttlega frá sínum verkum og vinnu, og í enda hvers mánaðar er samsýning í salnum sem stendur yfir í 2 daga. SIM sótti um styrk frá KK Nord 2012 og fékk 2 ára styrk úthlutað. Árið 2014 voru 4 listamönnum boðið að koma og dvöldu þeir allir á Seljavegi.

Að þessu sinni var ekki auglýst eftir umsóknum,  heldur fjórum listamönnum boðið sem höfðu sótt um gestavinnudvöl og höfðu verið samþykktir. Listamennirnir voru: Anna Ihle frá Noregi sem var með sýningu í Nýlistasafninu, Idun Caroline Huse Baltzersen frá Noregi, Ieva Saulīte frá Lettland og Eeva-Liisa Puhakka frá Finlandi.

SÍM er í gestavinnustofuskiptum við Vaanta í Finnlandi og fór Halla Birgisdóttir til Vantaa í júní 2014. Þessu samstarfi verður haldið áfram á árinu 2015. 

GESTAVINNUSTOFUR SÍM Í BERLÍN

 SÍM hefur á leigu tveggja herbergja íbúð með vinnuaðstöðu í Neue Bahnhofstrasse í Friedrichshein í Berlín. Þar gefst félagsmönnum SÍM tækifæri á að leigja sér vinnuaðstöðu í mánuð í senn eða styttri tímabil yfir sumarið. Félagsmönnum BÍL gefst kostur á að sækja um dvöl í gestavinnu-stofunum þegar plássrúm leyfir. Tekið er á móti umsóknum í vinnustofurnar allt árið.

Fyrir hönd stjórnar

Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com