OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Ársskýrsla 2011-2012

Skýrsla stjórnar SÍM starfsárið 2011-2012

 Hér á eftir fer skýrsla stjórnar SÍM fyrir starfsárið 2011-2012. Verður hér aðeins stiklað á stóru af þeim málum sem komu inn á borð stjórnar. Í stjórn SÍM sátu á árinu eftirtaldir aðilar:

Hrafnhildur Sigurðardóttir formaður stjórnar fyrir kjörtímabilið 2010-2012
Hildigunnur Birgisdóttir meðstjórnandi fyrir kjörtímabilið 2010-2012, þar af varaformaður 2010-2011.
Ásmundur Ásmundsson meðstjórnandi fyrir kjörtímabilið 2011-2013
Ásta Ólafsdóttir meðstjórnandi fyrir kjörtímabilið 2010-2012, þar af varaformaður 2011-2012.
Katrín Elvarsdóttir meðstjórnendi fyrir kjörtímabilið 2011-2013
Björk Guðnadóttir varamaður fyrir kjörtímabilið 2010-2012, en hún sagði af sér vegna flutninga á starfsárinu.
Hjördís Bergsdóttir varamaður fyrir kjörtímabilið 2011-2013.

Stjórn þakkar Hildigunni Birgisdóttur, Ástu Ólafsdóttur og Hrafnhildi Sigurðardóttur fyrir setu þeirra í stjórn SÍM á kjörtímabilinu 2010-2012.
Að þessu sinni hafa tveir aðilar boðið sig fram til fomennsku í SÍM fyrir kjörtímabilið 2011-2013. Það eru þau Daði Guðbjörnsson og Hrafnhildur Sigurðardóttir, sem sækist eftir endurkjöri. Fimm aðilar buðu sig að þessu sinni fram til stjórnarsetu fyrir árið 2011-2013. Það eru þau Ásta Ólafsdóttir, sem sækist eftir endurkjöri til meðstjórnanda og Kristín Gunnlaugsdóttir, Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, Sigrún Jenný Barðadóttir og Unnar Örn Jónasson sem sækjast eftir kjöri til meðstjórnanda.

Fjöldi félagsmanna
Félagsmönnum í SÍM hefur fjölgað um 17 frá síðasta aðalfundi og eru félagmenn nú 704 talsins.

Stjórnarfundir og stefnumótun stjórnar
Haldnir hafa verið 17 fundir á starfsárinu, sem er senn að ljúka. Þar af voru tveir sambandsráðsfundir. Þau málefni sem stjórn setti efst á bauginn hafa verið sett í starfsáætlun. Sú starfsáætlun verður síðan endanlega afgreidd og endurskoðuð á fyrsta fundi nýrrar stjórnar á hverju starfsári.

Hagsmunamál SÍM og samvinna við BÍL
a. Kortlagning skapandi greina
BÍL tók virkan þátt í undirbúningi verkefnis Menntamálaráðuneytis um kortlagningu skapandi greina. Þann 1. desember 2010 voru svo fyrstu niðurstöður kortlagningarinnar kynntar í Bíó-Paradís. Menntamálaráðherra skipaði í framhaldinu starfshóp sem BÍL átti aðild að til að ljúka vinnunni við korlagninguna. Lokaskýrslan leit svo dagsins ljós á vormánuðum 2011.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þær að heildarvelta skapandi greina á Íslandi hafi verið 191 milljarður árið 2009. Skýrsluna má finna á vef Menntamálaráðuneytis. Gert er ráð fyrir að skapandi greinar verði framvegi hluti af skráningu Hagstofunnar og stjórnvalda.

 1. Skattamál
  Á árinu 2011 unnu SÍM og BÍL saman að skattalegum málefnum listamanna. Það ferli hófst í raun árið 2010 en þá skipaði fjármálaráðherra starfshóp til að fara yfir og gera tillögur um umbætur og breytingar á skattakerfinu. BÍL gerði þá kröfu að við ættum fulltrúa í þeirrri vinnu. Í maí s.l. var svo skipuð ráðgjafanefnd sem forseti BÍL á sæti í. SÍM gat þannig komið málefnum félagsmanna varðandi skattamál beint inná borð nefndarinnar og var það gert eftir fund með sambandsráði SÍM.

Í skýrlsu BÍL til nefndarinnar var farið fram á að upphæð listamannalauna, sem nú er kr. 274.000.-, verði hækkuð til samræmis við flokkun skattyfirvalda, en þar eru sjálfstætt starfandi listamenn í starfsflokki C þar sem viðmiðunarfjárhæð reiknaðs endurgjalds er kr. 414.000.- , upphæð sem vinnumálstofnun notar síðan við útreikning á atvinnuleysisbótum. Áfangasigur hefur náðst í þessu máli þar sem listamenn hafa nú fengið eigin flokk þar sem reiknað endurgjald hefur verið lækkað í 350.000 kr. Næstu skref er að BÍL kalli til sín á fund fulltrúa frá Vinnumálastofnun og fæðingarorlofssjóði til að fá leiðréttingu á tengingu milli reiknaðs endugjalds og raunverulegra tekna ásamt því að vinna áfram að hækkun á listamannalaunum til móts við reiknaða endurgjaldið.

Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL og Hrafnhildur Sigurðardóttir formaður SÍM sátu tvo fundi með Efnahags- og skattanefnd á árinu 2011, þar sem fulltrúar frá skattayfirvöldum og öðrum hagsmunaaðilum sátu einnig. Eftir þann fund var frumvarp til laga um breytingar á virðisaukaskattslögum nr. 50 frá 1988 lagt fram af Efnahags- og skattanefnd. Margt af því sem BÍL og SÍM lögðu áherslu á rataði inn í frumvarpið. Vegna áeggjan félaganna var málinu þó frestað fram á þetta ár þar sem við vorum ekki fyllilega ánægðar með útkomuna og vildum freista þess að fá tvö atriði bætt. Er það annars vegar að virðisaukinn af handverki verði lækkaður í 7% úr 25,5%, þar sem ekki tókst að fá það sett í sama flokk og myndlistina, eða núllflokk. Eins verður unnið að því að fara skosku leiðina, þ.e. að myndlistarmenn megi sjálfir ráða því hvort þeir velji að greiða virðisaukaskatt. Þannig verði komið til móts við þá myndlistarmenn sem sjá sér hag í því að vera í vask-kerfinu.

 1. Lottópotturinn
  Snemma á árinu 2011 funduðu Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL og Hrafnhildi Sigurðardóttir formaður SÍM með innanríkisráðherra Ögmundi Jónassyni til að ræða það að listamenn fái í framtíðinni hlut af Lottó pottinum líkt og tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Ögmundur hefur nú sett á laggirnar starfshóp til að gera tillögu að breyttum úthlutunarreglum úr sjóðnum. Formaður starfshópsins er Katrín Fjeldsted og hófst vinna starfshópsins nú í byrjun þessa árs. Er von til þess að eitthvað hreyfist í þeim málum, en núverandi samningur um Lottó rennur út eftir fáein ár. Listamenn munu halda þessu málefni á lofti svo að samningurinn verði ekki endurnýjaður án aðkomu okkar að þessum sjóði.
 2. Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur
  Sem kunnugt er situr formaður SÍM sem áheyrnarfulltrúi í stjórn Menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur ásamt forseta BÍL. Þangað inná borð koma oft málefni sem varða félagsmenn SÍM.

BÍL tilnefnir árlega einstaklinga innan úr listageiranum til starfa í úthlutunarnefnd fyrir styrki til menningarstarfs. Í úthlutunarnefninni fyrir árið 2011 átti SÍM fulltrúa, en Þóra Þórisdóttir sat í nefndinni fyrir hönd BÍL. Umsóknarfrestur rann út 1. október 2011 fyrir styrkjapottinn en til viðbótar hefur MOFr til ráðstöfunar fjármagn í svokallaða „skyndistyrki“ , sem eru úthlutaðir ársfjórðungslega. Umsókarfrestur fyrir 2012 er 1. maí, 1. september eða 1. desember.

 1. Launasjóður myndlistarmanna
  Af launasjóðsmálum er það að frétta að samkvæmt samningi við Menntamálaráðuneytið þá var ákveðið að auka við sjóðinn í þrepum á þremur árum. Þannig bættust 40 mánuðir við starfslaunasjóðinn árin 2010 og 2011 og 35 fyrir árið 2012. Þá hafa launin farið úr 320 mánaðarlaunum í 435 mánaðarlaun. Nú þegar þeim áfanga er náð er tími til kominn að endurskoða mánaðarlega upphæð starfslaunanna og mun það verða á dagskrá BÍL og SÍM á árinu.

 

Höfundarréttarmál
Listasafn Reykjavíkur og Menningar- og ferðamálaráð

Á þessu ári hafa höfundarréttarmál verið ofarlega á baugi. Ber þar hæst umræða um hvort myndlistarmenn eigi almennt að afsala sér höfundarréttargreiðslum svo birta megi myndverk þeirra á netinu án tafar.

Skiptar skoðanir eru á því máli, en formaður SÍM og fulltrúar Myndstefs funduðu með Menningar- og ferðamálaráði og forstöðumanni Listasafns Reykjavíkur í byrjun febrúar út af þeim málefnum. Niðurstaða þess fundar var að Myndstef skildi senda LR og Reykjavíkurborg ný drög að samningi með þeim breytingartillögum sem fram komu á fundinum. Það var gert og hafa lögfræðingar borgarinnar þann samning nú undir höndum til yfirferðar. Er það von SÍM að nú með vorinu hylli loks undir heildarsamninga milli Myndstefs og Reykjavíkurborgar þ.m.t. vegna birtingu á netinu.

Innra starf
a. Skrifstofa SÍM

Á skrifstofu SÍM hafa orðið mannaskipti á árinu. Kristín Kristjánsdóttir, sem unnið hafði hjá okkur um þriggja ára skeið flutti til kóngsins Kaupmannahöfn þar sem hún ætlar að kynna dönum fyrir íslenskri hönnun. Við þökkum henni vel unnin störf. Við erum svo heppin að það vantar aldrei fólk sem vill starfa með okkur hér í húsinu og hefur Gunndís Ýr Finnbogadóttir myndlistarkona verið ráðin í stað Kristínar. Velkomin til starfa Gunndís. Formaður SÍM vinnur svo fyrir stjórnina í nánu samstarfi við Ingibjörg Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri sem stýrir skrifstofunni að sinni alkunnu snilld.

Hér á skrifstofu SÍM höfum við staðið í stórræðum nýverið. Mikil tiltekt hefur verið í gangi í húsinu og öllum blöðum flett til að rýma í kringum okkur. Eftir tiltektardag, þar sem skrifstofa SÍM var lokuð, var farið með gömul skjöl þangað sem þau eiga heima þ.e. í Borgarskjalasafn. Skrifstofa Ingibjargar framkvæmdastjóra, Þórólfs bókara og Hrafnhildar formanns voru fluttar upp á 2. hæð, en skrifstofa KÍM flutti niður. Þannig er nú töluvert rýmra um alla á skrifstofum SÍM og var aftur tekið í notkun gamla fundargerðarhergergið á 2. hæð hússins. Það er því einnig rýmra um alla þá er sækja fundi í húsinu. Framkvæmdum er ekki lokið en við vonumst til að með þessu aukist enn frekar starfsgleði allra á skrifstofunni.

 1. Rafrænar kosningar
  Með nýju rafrænu kosningarfyrirkomulagi sem tekið var í notkun í fyrsta sinn, er brotið blað í sögu samtakanna. Það var von stjórnar SÍM að þessar rafrænar kosningar yrðu til að auka fjölda þeirra sem nýttu kosningarréttinn sinn.

Þetta nýja fyrirkomulag opnar fyrir að hægt verði að gera kannanir innan raða félagsmanna, sem síðan gætu nýst í hagsmunabaráttu myndlistarmanna. Vonumst við til að stjórn SÍM nýti þennan möguleika og láti gera viðlíka könnun og gerð var um miðjan níunda áratuginn á lífskjörum myndlistamanna í landinu.

 1. Muggur ferða- og dvalarsjóður
  Til þess að styrkja ferða- og dvalarsjóð Muggs ákvað stjórn SÍM að halda framlagi félagsins í sjóðinn í kr. 600.000 fyrir árið 2011. Auk þess styrkir Myndstef sjóðinn um kr. 400.000 á árinu. Það er von stjórnar SÍM að sú hækkun ásamt þeirri prósentu sem mun koma frá bókunarsjóði Iceland Express verði til þess að styrkja sjóðinn enn frekar. Minnum við í því sambandi á bókunarhnapp Iceland Express á heimasíðu SÍM.
 2. Dagur myndlistar.
  Dagur myndlistar var að þessu sinni haldinn hátíðlegur þann 5. nóvember 2011 og var Kristjana Rós Gudjohnsen fengin til að skipuleggja hann. Á heimasíðu dags myndlistar var hægt að sækja beint um að taka þátt í deginum, bæði fyrir myndlistamenn og skóla.

Á þessu ári var ákveðið að halda dag myndlistar hátíðlegan áður en kynningar í grunn- og framhaldsskólum færu fram til að dreifa álaginu og til þess að hafa aðaláhersluna á daginn sjálfan. Um 90 myndlistarmenn skráðu sig til leiks og opnuðu vinnustofur sínar fyrir almenningi, en það er tvöföldun frá því í fyrra. Að þessu sinni sóttu 10 skólar um þáttöku og heppnuðust kynningar myndlistarmanna á starfi sínu mjög vel. Eftir daginn skilaði Kristjana skýrslu um framkvæmdina til stjórnar.

Ljóst er að Dagur myndlistar á þessu ári verður enn veglegri þar sem nú hefur bæst við styrkur uppá 500.000 kr. frá Mennta- og menningarráðuneytinu í viðbót við 200.000 kr. styrk frá Menningar- og ferðamálaráði. Verður því hægt að halda kynningar í skólum um allt land.

Vinnustofur SÍM
SÍM rekur nú vinnustofur í fimm húsum með samtals um 155 vinnustofur. Vinnustofurnar eru um 60 að Korpúlfsstöðum, 55 á seljavegi, um 20 að Lyngási í Garðabæ og ein að Smiðjustíg 10. Á vormánuðum 2011 bauðst SÍM til leigu húsnæði að Nýlendugötu 14. Fannst SÍM það spennandi kostur enda staðsett í miðbænum. Þann 1. júní fluttu fyrstu listamennirnir inn og eru nú um tuttugu listamenn starfandi þar ásamt hönnunarverlsun og Forréttarbarnum, veitingarstað á fyrstu hæð. Nýlendugatan var svo formlega opnuð á degi myndlistar þann 5. nóvember. Með þessari viðbót hafa biðlistar vegna vinnustofa styst verulega, en sem stendur eru leigusamningar lausir á Seljavegi og á Korpúlfsstöðum.

b. Sjónlistamiðstöðin á Korpúlfsstöðum
Rekstrarfélag Sjónlistarmiðstöðvar Korpúlfsstaða hefur verið rekið undanfarin ár í samstarfi milli SÍM og Hönnunarmiðstöðvar, en skrifstofa SÍM haldið utan um reksturinn.
Í rekstrarfélaginu hafa setið tveir fulltrúar Hönnunarmiðstöðvar ásamt þremur fulltrúum frá SÍM.

Samningur um Rekstrarfélagið milli SÍM og Hönnunarmiðstöðvar rann út í enda árs 2011. Samþykkt var á stjórnarfundi að samningurinn yrði ekki endurnýjaður heldur skyldi SÍM taka yfir reksturinn. Nýr leigusamningur um Korpúlfsstaði er því í smíðum milli Menningar- og ferðamálaráðs og SÍM og verður hann undirritaður á næstu vikum. Sá samningur á ekki að hafa nein áhrif á rekstur vinnustofa á Korpúlfsstöðum. Enn er unnið að því að koma á fót fullbúinni kaffistofu á fyrstu hæð Korpúlfsstaða. Slíkt kaffihús myndi án efa styðja við rekstur Gallerí Korpúlfsstaða.

 1. Gestavinnustofur SÍM í Berlín
  SÍM rekur eins og kunnugt er fjórar íbúðir með vinnuaðstöðu í Neue Bahnhofstrasse í Friedrichshein. Þar gefst félagsmönnum SÍM tækifæri á að leigja sér vinnuaðstöðu í mánuð í senn eða styttri tímabil yfir sumarið. Vinnustofurnar voru vígðar formlega með opnun og myndlistarsýningu þann 24. september. Sendiherra Íslands í Berlín, Gunnar Snorri Gunnarsson, hélt ræðu og óskaði samtökunum til hamingju með árangurinn. Formaður SÍM hélt einnig ræðu og lýsti gestavinnustofurnar formlega opnaðar. Félagsmenn í SÍM ganga fyrir í vinnustofurnar og tekið er á móti umsóknum í vinnustofurnar allt árið. Engar takmarkanir eru á því hve oft hver félagsmaður geti nýtt sér aðstöðuna.
 2. BIN – Billedkunstnere i Norden og NKF – Nordisk Kunst Forbund
  Formaður SÍM sat fund NKF Nordisk Kunst Forbund í maímánuði og var hann bæði gagnlegar og fræðandi, enda eigum við meira sameiginlegt með hinum Norðurlöndunum en öðrum þjóðum þegar kemur að hagsmunagæslu fyrir myndlistarmenn. Á fundinum var formaður SÍM kjörinn nýr formaður NKF og mun því næsti aðalfundur samtakanna verða haldinn hér í Reykjavík.

Heyrst hafur af því að listamannasamtökin í Noregi ætli sér að halda BIN fund á árinu, en tímasetning er ekki komin á þann fund.

Alþjóðlegt samstarf
IAA World

Samband íslenskra myndlistarmanna hefur frá upphafi tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi ýmiskonar. SÍM er aðili að alþjóðlegu samtökunum IAA sem stofnuð voru í skjóli Unesco. Aðalfundur samtakanna IAA að þessu sinni var haldinn í Mexíkó í mars, en SÍM sendi ekki fulltrúa á fundinn. Þótti það bagalegt hjá þeim Norðulandaþjóðum sem voru á fundinum, þar sem þau töldu að sárlega vantaði atkvæði Íslands í mikilvægum málum. Eitt af þeim málefnum sem samþykkt voru á þinginu var ný gjaldskrá, en þjóðirnar borga nú eftir henni miðað við fjárhagsstöðu þjóðarinnar samkvæmt mælikvarða UNESCO og fjölda meðlima. Ekki voru allir á eitt sáttir við þetta fyrirkomulag, en var það samþykkt engu að síður. Kosinn var nýr gjaldkeri IAA Wold, Ann Pourny frá Frakklandi. Hefur hún í hyggju að koma fjármálum IAA í ásættanlegt og gegnsætt form, en þau hafa verið í ólestri.
IAA Europe
Evrópudeild IAA fundar reglulega og sátu formaður SÍM Hrafnhildur Sigurðardóttir og framkvæmdastjóri Ingibjörg Gunnlaugsdóttir fund samtakanna í Berlín í enda október, ásamt fyrrverandi formanni Áslaugu Thorlacius, þar sem hún var að ljúka störfum sem gjaldkeri samtakanna. Þær Ingibjörg hafa lyft grettistaki í að koma fjármálum deildarinnar í rétt horf og skilaði frá sér frábæru bókhaldi sex ár aftur í tímann, en reikningar félagsins höfðu verið í algerri óreiðu. Hlaut hún lófaklapp fyrir.
Gengið var til kosninga og má segja að Norðurlöndin og Norður Evrópa hafi tekið völdin. Holland tók við gjaldkerasætinu, fulltrúar Noregs og Svíþjóðar voru kosnir inn í nýja stjórn. Formaðuinn, Christos Symeonides frá Kýpur, náði ekki endurkjöri en við honum tók Pavol Kral frá Bratislava í Slóvakíu.
Á fundinum var rætt um nýu IAA skýrteininu, en nýtt skírteini samtakanna hefur nú verið tekið í notkun um alla Evrópu og var skírteini SÍM þar fyrirmynd, enda til fyrirmyndar. Félög í IAA mun svo standa fyrir átaki hvert í sínu landi til að kynna skírteinin svo að fleiri listasöfn í heiminum muni taka þau gild.
Að lokum var rætt um að halda aðalfund Evrópudeildar IAA að ári í Istanbul, en formaður listamanna í Tyrklandi, Bedri, sótti það fast til að fá stuðning samtakanna með fundi. Hann og aðrir listamenn hafa orðið fyrir árásum öfgamanna vegna listaverka sinna á síðustu árum, sem keyrði um þverbak á þessu ári en þá varð hann fyrir hnífstungum öfgamanna og var vart hugað líf. Fundurinn samþykkti einróma að halda aðalfundinn þar að ári.

Fulltrúar Kúrda sátu fundinn en þeir sækjast efir að fá aðild að IAA á grundvelli þess að vera þjóð án lands.

Reykjavík mars 2012

f.h. stjórnar SÍM
Hrafnhildur Sigurðardóttir

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com