Corda Solitaria Spiritual M 72dpi

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir sýnir í Gallerí Gróttu

(english below)
Álengd 
12.01 – 04.02 2017
Gallerí Grótta
Verið velkomin á sýningu mína Álengd í Gallerí Gróttu sem opnar

á fullu tungli fimmtudaginn 12. janúar kl. 17-19. Sýningin stendur til 4. febrúar.

Verkin á sýningunni eru unnin úr fundnum bókum og einkamáladálkum breskra dagblaða. Þau velta upp spurningum um sammannlega þætti, vonir og þrár á ólíkum tímum.

Í fornöld trúðu menn að tunglið hefði áhrif á geðheilsuna. Hugmyndin var að næturbirta rændi menn nauðsynlegum svefni. Í kringum fullt tungl ráfaði fólk um vansvefta og ört og Luna fékk á sig slæmt orð. Samtíminn fer mýkri höndum um þennan himinhnött sem sífellt vakir yfir okkur og er raunar grundvöllur tímatals. Tunglið hefur með sérkennilegum skuggamyndum sínum átt í nætursamtali við okkur á öllum tímum og í samtímanum hefur fólk gert sér grein fyrir að það er annað sem orsakar þetta ástand sem við kennum við andvöku. Sem er skrítið hugtak. Hljómar eins og öfugmæli. Hvernig getur nokkur talað líkt og um andstæðu vöku sé að ræða þegar engan svefn er að fá? Er hugur manns einhvern tíma eins vakandi og við stöðug andvörp á sífellt krumpaðri lökum sem orðin eru vafin og þvæld? Lökin minna á úfna ísbreiðu, fulla af skuggum sem verða til við ljóstíruna sem berst að utan þegar tunglið er fullt.

Kannski er þetta ástæðan fyrir því að teygjulök hafa rutt sér leið inn í rúm fólks? Haldast þau ekki einmitt slétt þrátt fyrir þúsund andvörp, þúsund snúninga, þúsund hugsanir sem koma og fara? En það er flóknara að brjóta þau saman. Í þau vantar samhverfuna – þessa hornréttu fleti sem hægt er að leggja saman með því einu að finna miðjuna. Hlutar sem eru fullkomin spegilmynd hvors annars.

Í fjölmörg rúm um allan heim vantar þá samhverfu sem svo margir sækjast eftir. Helmingurinn á móti er galtómur. Lakið þar er enn slétt og óbælt undir ónotaðri yfirbreiðunni. Náttborðið autt. Engin hægri hönd sem teygir sig í átt að þeirri vinstri. Engir fingur sem gætu fléttast saman í nóttinni þegar tunglið hefur aftur lækkað á himni. Enginn andardráttur sem fylgir öðrum. Enginn léttur blástur sem hægt er að finna fyrir við hnakkann undir morgun.

Samt er alltaf einhver þarna úti á slétta helmingi ísbreiðunnar. Einhver möguleiki, einhver sem hægt er vonast eftir, einhver sem hlýtur að fara að birtast. Manneskjur eru stöðugt mátaðar inn í eyðuna, meitlaðar í huganum eftir fyrirmyndum sem eru auðvitað óendanlega fjarverandi í tíma og rúmi. Einungis orð til staðar í hugum fólksins sem taldi að í einkamáladálkum fælust tækifæri. Sum orðin rötuðu á blöð. Vafalaust krumpuðust flest blöðin að lokum líkt og þvæld lök. Féllu í ruslakörfuna. En sum rötuðu út, brotin saman eins og pappírsskutla á flugi til himins og voru að lokum prentuð á sléttan og hornréttan flöt. Og andvakan hófst á ný.

 

Texti: Henry Alexander Henrysson

Viðburður á Facebook:
Opið: má-fim 10-19 / föst 10-17 / laug 11-14

Elongation
12.01 – 04.02 2017
The works are made from found books and texts from the personal columns of British newspapers. They examine notions of common human aspirations, hopes and desires through time and space.
Facebook event:
 
Open: mon-thu 10-19 / fri 10-17 / sat 11-14
WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com