Anarkía listasalur – opnun sýningar Ólafar Bjargar Björnsdóttur – Skuggar og skilningsljós.

Ólöf

 

Anarkía listasalur

Laugardaginn 2. maí 2015 opna tvær einkasýningar í Anarkíu listasal, Hamraborg 3 í Kópavogi,  en það eru listakonurnar Ragnheiður Guðmundsdóttir og Ólöf Björg Björnsdóttir sem sýna.  Sýningarnaropnunin er frá kl. 15-18.  Sýningin er opin daglega frá 15 til 18 og 14 til 18 um helgar (lokað mánudaga) og stendur til 24. maí

 

Skuggar og skilningsljós: Ólöf Björg Björnsdóttir

 

Ólöf Björg hefur haldið fjölda sýninga síðan hún útskrifaðist úr Listaháskólanum 2001 og hefur í málverkum sínum og innsetningum þróað persónulegt myndmál og sterkan, tjáningarríkan stíl. Í málverkum hennar takast oft á sterkir litir og frjálsleg og leikandi pensilskrift hennar dregur upp ágengar fígúrur og form á myndfletinum. Hún málar gjarnan fólk og viðfangsefni hennar er manneskjan og sjálfsleit hennar. Sjálf segir Ólöf Björg að hún leiti í gegnum myndlist sína að því sem danski heimspekingurinn Søren Kierkegaard kallaði trúarstökk, að finna skilning sem er handan við hversdagsleikann og getur þannig opnað nýjar leiðir í lífinu og listinni.

 

Á sýningunni verða ný málverk þar sem kveður við nokkuð nýjan tón í nálgun Ólafar Bjargar. Myndirnar eru léttari og einfaldari en oft áður þótt enn megi sjá þá sterku og tjáningarríku liti sem eru helsta höfundareinkenni hennar. Hún málar á ógrunnaðan striga og fígúrur hennar spretta fram af hrjúfu undirlaginu, dregnar öruggum og litríkum línum.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com