Ályktun Sambands íslenskra myndlistarmanna vegna liða í fjárlagafrumvarpi 2016, sem varða listir og skapandi greinar

facebook-borði

Ályktun Sambands íslenskra myndlistarmanna vegna liða í fjárlagafrumvarpi 2016, sem varða listir og skapandi greinar

Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) óskar eftir breytingum á liðum í fjárlagafrumvarpi 2016 sem varða listir.

SÍM leggur eftirfarandi til:

 

  • Myndlistarsjóður hækki úr 35 milljónum króna í 52 milljónir króna
  • Listskreytingarsjóður hækki úr 1,5 milljónum króna í 10 milljónir króna

 

SÍM leggur til að Myndlistarsjóður verði endurreistur í þeirri mynd sem honum var ætlað. Myndlistarsjóður var stofnaður árið 2013, með sameiningu nokkurra sjóða sem vörðuðu myndlist, og var upphæð sjóðsins þá hin sama og samanlögð fjárhæð sjóðanna hafði verið, eða 45 milljónir króna. Árið 2014 var hins vegar skorið verulega niður í sjóðnum og var hann það ár 25 milljónir króna. Til stóð að ráðast í frekari niðurskurð á síðasta ári, og lagt var til að hann yrði 15 milljónir króna í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015. Eftir mótmæli myndlistarmanna og SÍM var framlag til sjóðsins aftur hækkað í 25 milljónir króna á síðasta ári.

Hlutverk Myndlistarsjóðs er að efla íslenska myndlist með því að kosta verkefni og veita fjárhagslegan stuðning m.a. til listamanna, fræðimanna, sýningarstjóra og safna og stuðla með því að framgangi listsköpunar og aukinnar þekkingar á íslenskri myndlist. Niðurskurður síðustu ára bitnar á möguleikum lista- og fræðimanna á sviði myndlistar til að sækja um styrki til einstakra verkefna. Hann bitnar á þeim listamönnum sem vilja vinna að útgáfumálum og sjálfstætt starfandi myndlistarmönnum. Hann bitnar á myndlistartengdum verkefnum: þeim sem koma að ritun, greiningu og miðlun vegna núlifandi listamanna og/eða menningararfsins á sviði myndlistar. Hann bitnar á grasrót og yngri myndlistarmönnum sem enn eru að vinna í að koma sér og sinni sköpun á framfæri.

Til að Myndlistarsjóður geti staðið fyllilega undir lögboðnu hlutverki sínu telur SÍM að halda verði áfram að endurreisa sjóðinn, þannig að framlagið til hans árið 2016 nemi uppreiknaðri stofnfjárhæð. SÍM telur að Myndlistarsjóður geti staðið undir lögboðnu hlutverki sínu á árinu 2016, með 52 milljóna króna framlagi. Með slíkri breytingu hefur niðurskurður sjóðsins frá árinu 2014 gengið til baka, og sjóðurinn getur stutt við grasrótina, útgáfu, fræðimennsku og fólk með hugmyndir að sjálfstæðum verkefnum.

SÍM óskar eftir að breytingar verði gerðar á fjármögnun Listskreytingasjóðs á komandi fjárlagaári. Listskreytingasjóður er einn mikilvægasti sjóður hins opinbera á vegum myndlistar. Markmið hans er að fegra opinberar byggingar og umhverfi þeirra með listaverkum. Sjóðurinn starfar á grundvelli myndlistarlaga, nr. 64/2012, en samkvæmt lögunum skal sjóðurinn fjármagna listaverk í opinberar byggingar sem voru fullbyggðar fyrir 1. janúar 1999. Jafnframt skal samkvæmt ákvæðum laganna verja 1% af heildarkostnaði við nýbyggingar til listskreytinga í opinberum byggingunum. Listskreytingasjóður á með þessum hætti að stuðla að því að list sé sýnileg í opinberu rými og efla þannig listsköpun í landinu.

Frá og með árinu 2008 hefur árlegt framlag til Listskreytingasjóðs aðeins numið 1,5 milljónum króna. Sú fjárhæð dugar einungis fyrir lágmarks rekstrarkostnaði sjóðsins. Stofnanir geta ekki lengur sótt um styrki til sjóðsins og hefur hann verið að mestu óstarfhæfur frá árinu 2008. Afar brýnt er að hefja viðspyrnu vegna þessarar þróunar til að sjóðurinn geti unnið að lögmæltum markmiðum sínum. Með því að efla sjóðinn verður unnt að vinna með faglegum hætti að listskreytingum í opinberum byggingum og fegra með því opinber rými. Auknu framlagi til Listskreytingasjóðs verður fylgt eftir af hálfu SÍM, einnig mun SÍM kanna hvernig tekist hefur að uppfylla ákvæði Myndlistarlaga, um að 1% af heildarkostnaði við opinberar nýbyggingar skuli varið til listskreytinga. Með þessum aðgerðum – efldum Listskreytingasjóði og agaðri vinnubrögðum vegna listskreytinga í nýbyggingum – verður tryggt að markmið myndlistarlaga vegna listskreytinga í opinberu rými náist.

SÍM skorar á Alþingi að endurreisa Myndlistarsjóð í upphaflegri mynd, með 52 milljóna króna framlagi og hefja viðreisn Listskreytingasjóðs með því að hækka framlag til sjóðsins upp í 10 milljónir króna. Slíkar breytingar á fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 myndu undirstrika virðingu Alþingis fyrir listum og skapandi greinum og festa í sessi mikilvægi lista og skapandi greina meðal þjóðarinnar.

Fyrir hönd stjórnar Sambands íslenskra myndlistamanna,

 

Jóna Hlíf Halldórsdóttir

Formaður

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com