GalleryPort

Almar Atlason – Þorsti & Loforð Gallery Port laugardaginn 21. september kl. 16:00

Laugardaginn 21. september, kl. 16:00, opnar Almar Steinn Atlason sýninguna Þorsti & Loforð í Gallery Port, Laugavegi 23b. 

Almar Atlason – Þorsti & Loforð

Þorsti & Loforð er fyrsta málverkasýning Almars eftir að hann útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2018 en hann hefur síðan að mestu einbeitt sér að innsetningum og gjörningum. Almar hefur setið í glerkassa og þjóðin fylgdist með. Hann hefur legið í baði dögum saman í þágu listarinnar. Siglt yfir Atlantshafið í skútu og gert úr því verk. Síðast í vor sagaði hann í sundur Kitchen Aid hrærivél, brúðkaupsgjöf, í verkinu Búskipti.  

Um sýninguna drógum við þetta upp úr listamanninum: 

Hestar í landslagi var uppistaðan í íslensku málverki í um það bil 80 ár. Á sýningunni skoðar listamaðurinn þorstann og þrána sem keyrir fólk á fætur dag eftir dag í von án vonar. Vonina sem knýr málarann til þess að mála áttunda málverkið í röð af ónefndu hrossi eða hryssu í ljósaskiptunum við hraunfoss. Hungrið sem rekur menn á sjó að hætta lífi sínu til að geta haldið því áfram á morgun. Loforðið sem Móðirin gefur sjálfri sér sveltandi með ekkert í maganum annað en barn númer þrettán. Drekkur og drekkur með óslökkvandi þorsta. Málverkin eru í senn ofhugsuð og vanhugsuð. Spekingslegt ungabarn með pensil. Blindur, hroðvirknislegur hugsuður.  Nú í septemberlok býður Almar ykkur að stíga inn í sjónrænan heim óöryggis og litagleði. Að sakna þess sem maður var vanur að hata. “Gamla” Reykjavík.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com