„Allsherjarkenningin: Leitin hefst” eftir Ólöfu Rún Benediktsdóttur opnar föstudaginn 15. maí kl. 20:00 í Ekkisens

Toe1   ólöf
„Allsherjarkenningin: Leitin hefst” eftir Ólöfu Rún Benediktsdóttur opnar föstudaginn 15. maí kl. 20:00. 

Á sýningunni eru málverk, prentverk í formi púsluspils og lítið zine sem er ætlað til að örva hugarflug gesta. Listamaðurinn býður öllum þeim sem koma að setja sitt mark á sýninguna, hripa niður sínar eigin hugleiðingar, skoða það sem hefur safnast saman og púsla.

Verkin sem Ólöf setur fram tengjast hugleiðingum hennar um eðli raunveruleikans. Hún mun jafnframt bjóða áhorfendum að taka þátt í samtali um þeirra eigin upplifun á raunveruleikanum. 

Sýningin er fyrsta skrefið í heimspekilegri rannsókn á því hvort að raunveruleikinn sé raunverulegur eða lygi, hvað sé lygi og hvað sé sannleikur, hvort að raunveruleikinn sé yfir höfuð til og svo framvegis. 

Orðið raun-veruleiki felur í sér að ekki sé einungis átt við einn veruleika, heldur þann veruleika sem er mótaður af okkar “raunum”, þ.e.a.s. okkar upplifunum. Raun-veruleikinn hlýtur, eðli málsins samkvæmt að verða til í raun-tíma. Það mætti því hugsa um raunveruleikann sem eitt örstutt augnablik sem verður til í huga manns þegar skynjun á ytri og innri veruleika blandast. 

Sýningin er unnin í gegnum langt ferli af upplýsingasöfnun, samræðum og vangaveltum. Listamaðurinn nálgast viðfangsefnið á sama hátt og fornleifafræðingur myndi nálgast uppgröft, fer hægt yfir, skrásetur ferlið og gengur ekki að neinu sem vísu. Hugmyndirnar fá að veltast og krauma í huganum lengi áður en verkin verða til.

____________________________________________________

Heilaga Herbergið

Á sama tíma mun Fritz Hendrik IV sýna myndbandsverkið „Kompósisjón“ í Heilaga Herberginu í Ekkisens.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com