Lhi 2018 Hopur 840×320

‘Allar leiðir slæmar’ opnar í Skaftfelli 03.02.

Allar leiðir slæmar

Opnun laugardaginn 3. febrúar í Skaftfell

Sýningin Allar leiðir slæmar opnar í Skaftfelli á Seyðisfirði laugardaginn 3. febrúar næstkomandi. Sýningin er afrakstur námskeiðs sem útskriftarnemar við Listaháskóla Íslands, myndlistardeild, sækja um þessar mundir. Námskeiðið, sem stendur í tvær vikur, er í samstarfi við Dieter Roth Akademíuna og stýrt af Birni Roth og Kristjáni Steingrími Jónssyni. Nemendum var flogið inn frá Reykjavík, tilbúnir í sveitasæluna, en ekki fór allt eins og við var búist. „ Við komum í mjög fallegu veðri, en við vorum rétt sloppin inn í fjörðinn þegar svakalegt veður skall á. Næstu þrjá sólarhringa var varla hægt að fara út úr húsi án þess að blotna inn að beini og allar leiðir út úr firðinum voru lokaðar. Sum okkar neyddust til að leita á náðir bæjarbúa sem af góðmennsku sinni lánuðu okkur vitleysingunum að sunnan betri föt ” segir Katrín Helga Andrésdóttir, ein af nemandahópnum úr Listaháskólanum. „ Snjórinn sækir að manni úr öllum áttum, af himninum, af hlíðunum og af jörðinni. Mér líður eins og ég sé í hvítri skál og ég upplifi mig ofboðslega litla ” tekur Anna Andrea Winther undir með henni. „ Einangrunin hefur þó hjálpað til við að þjappa hópnum saman og tengt okkur bæði við staðinn og bæjarbúa ” bætir Agnes Ársælsdóttir við. Það verður áhugavert að sjá hvort þessar óvenjulegu aðstæður munu hafa áhrif á viðfangsefni sýningarinnar Allar leiðir slæmar í Skaftfelli – myndlistarmiðstöð Austurlands, og stendur til 8. apríl. Sjá nánar á skaftfell.is.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com