9

Afhjúpun á vegglistaverkinu Frumskógardrottningin eftir Erró í Breiðholti 4. september kl. 15.15

              
Afhjúpun á vegglistaverki eftir Erró

Frumskógardrottningin, úr verkinu Jungle Fever.

Frumskógardrottningin eftir Erró í Breiðholti
Afhjúpun á vegglistaverki föstudaginn 4. september kl. 15.15
Listasafn Reykjavíkur býður til formlegrar afhjúpunar á vegglistaverkinu Frumskógardrottningin eftir Erró við Íþróttamiðstöðina Austurberg föstudaginn 4. sept. kl. 15.15. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhjúpar veggmyndina. Boðið verður upp á tónlist og veitingar við afhjúpun verksins. Leikskólabörnin frá leikskólanum Ösp mæta og syngja við undirspil Tónskóla Sigursveins.  Allir velkomnir.Erró gaf Reykvíkingum verkið og útfærði það í samráði við Listasafn Reykjavíkur á tvær byggingar í Breiðholti, annars vegar á fjölbýlishús við Álftahóla og hins vegar á íþróttamiðstöðina Austurberg. Verkið á Álftahólum sem nefnist Réttlætisgyðjan var afhjúpað á síðasta ári. Hluti þeirra myndar var svo yfirfærður á vegg íþróttamiðstöðvarinnar við Austurberg en að þessu sinni er það Frumskógardrottningin sem er í aðalhlutverki. Veggmyndirnar á Álftahólum og Austurbergi mynda þannig eina heild.Erró er heiðursborgari Reykjavíkur og hefur í gegnum tíðina sýnt Reykvíkingum og Listasafni Reykjavíkur mikinn rausnarskap með því að gefa safninu verk sín.

Verk eftir Erró hafa verið sýnd á mörgum helstu söfnum Evrópu víða um heim og veggmyndir hans prýða merkar byggingar í mörgum borgum. Þekkt vegglistaverk eftir hann eru t.d. á fjölbýlishúsi í borginni Angoulême í Frakklandi og á vegg í neðanjarðarlestarstöð í borginni Lissabon í Portúgal.

Borgarráð ákvað fyrir tveimur árum að fjölga listaverkum í opinberu rými í Breiðholti og er verkið hluti af því átaki. Verkefninu er ætlað að breiða út list í opinberu rými utan miðborgarinnar, fegra hverfið og skapa umræðu. Síðustu tvö ár hafa fimm stór vegglistaverk verið sett upp í hverfinu eftir listamennina Erró, Theresu Himmer, Söru Riel og Ragnar Kjartansson auk minni veggmynda eftir unga listamenn úr frístundamiðstöðinni Miðbergi.

Listasafn Reykjavíkur hefur haft umsjón með verkefninu sem hefur verið unnið í samráði við íbúa í Breiðholti og hverfisráð.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com