18491737 628707907326530 9137137574023512946 O

Aðalheiður Valgeirsdóttir – Bleikur sandur

Á göngum sínum um árbakka Hvítár í Biskupstungum í nágrenni vinnustofu Aðalheiðar Valgeirsdóttur, lítur hún niður í svörðinn og gaumgæfir síbreytileg spor náttúrunnar í landslaginu. Hún kemur aftur og aftur á sama stað en á ólíkum árstíma og nemur breytingarnar. Náttúran tekur stundum á sig órætt  form sem rambar á mörkum hins raunverulega og hins huglæga. Skynjun, kortlagning og úrvinnsla listamannsins verður frásögn í tíma af hrynjandi náttúrunnar og persónuleg upplifun af stað sem smýgur inn í verkin.

Þessi orð ritar listfræðingurinn Aldís Arnardóttir m.a. í sýningarskrá sem fylgir sýningu Aðalaheiðar  Valgeirsdóttur (1958), Bleikur sandur, sem opnuð verður í Gallerí Gróttu á Seltjarnarnesi miðvikudaginn 24. maí kl. 17 en þar er hringrás náttúrunnar í forgrunni.

Á sýningunni getur að líta málverk sem Aðalheiður hefur málað með olíu á striga á síðastliðnum 2 árum. Sýningin stendur til 16. júní.

Aðalheiður Valgeirsdóttir (1958) er myndlistarmaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist frá grafíkdeild Myndlista-og handíðaskóla Íslands árið 1982. Hún lauk MA-gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands árið 2014 og BA-gráðu í listfræði með menningarfræði sem aukagrein árið 2011. Hún hefur verið mikilvirk í félagsstörfum myndlistarmanna um árabil.

Í upphafi myndlistarferils síns vann Aðalheiður aðallega grafíkverk en sneri sér síðar að málverki í listsköpun sinni, auk þess sem hún vinnur einnig með teikningar og vatnsliti. Hún hefur haldið á þriðja tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Undanfarið hefur Aðalheiður einnig tekið að sér sýningarstjórnun og var ásamt Aldísi Arnardóttur sýningarstjóri sýningarinnar Tímalög – Karl Kvaran og Erla Þórarinsdóttir sem sett var upp í Listasafni Árnesinga á síðasta ári og sýningarstýrði sýningunni Heimkynni – Sigrid Valtingojer sem nú stendur yfir í Listasafni Árnesinga. Aðalheiður á nú sæti í innkaupanefnd Listasafns Íslands.

Hér má finna viðburðinn á Facebook

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com