Aðalfundur Sambands Íslenskra myndlistarmanna haldinn 20.03 2013

Aðalfundur Sambands Íslenskra myndlistarmanna

haldinn 20.03 2013 í SÍM-húsinu Hafnarstræti 16,

Fundarstjóri: Hlynur Helgason

Ritari: Hjördís Bergsdóttir – Dósla

Dagskrá aðalfundar er eftirfaandi:

 1. Skýrsla stjórnar
 2. Reikningar
 3. Stjórnarkosning
 4. Kosning eins fulltrúa í sambandsráð, sbr. 9. gr.
 5. Kosning félagslegs skoðunarmanns og löggilts endurskoðanda til eins árs
 6. Lagabreytingar
 7. Ákvörðun félagsgjalda
 8. Önnur mál

 

 

 1. Skýrsla stjórnar

Hrafnhildur Sigurðardóttir formaður SÍM flytur skýrslu stjórnar.

Í stjórn SÍM sátu á árinu eftirtaldir aðilar:

Hrafnhildur Sigurðardóttir formaður stjórnar fyrir kjörtímabilið 2012-2014
Ásmundur Ásmundsson meðstjórnandi fyrir kjörtímabilið 2011-2013, varaformaður 2012-2013.
Katrín Elvarsdóttir meðstjórnendi fyrir kjörtímabilið 2011-2013.
Kristín Gunnlaugsdóttir meðstjórnendi fyrir kjörtímabilið 2012-2014.

Unnar Örn Jónasson meðstjórnendi fyrir kjörtímabilið 2012-2014.
Hjördís Bergsdóttir varamaður fyrir kjörtímabilið 2011-2013.

Ásta Ólafsdóttir varamaður fyrir kjörtímabilið 2012-2014.

Þeim Ásmundi Ásmundssyni, Katrínu Elvarsdóttur og Hjördísi Bergsdóttur – Dóslu er þakkað fyrir fyrir setu í stjórn SÍM á kjörtímabilinu 2011-2013.

Sex aðilar hafa boðið sig fram til stjórnarsetu fyrir árið 2013-2015: Þau Ásmundur Ásmundsson, sem sækist eftir endurkjöri til meðstjórnanda og Erla Þórarinsdóttir, Hjördís Bergsdóttir, Kristjana Rós Guðjohnsen, Rósa Sigrún Jónsdóttir og Steingrímur Eyfjörð sem sækjast eftir kjöri til meðstjórnanda.

Fjöldi félagsmanna
Heildarfjöldi félagsmanna í SÍM er nú 714 talsins og hefur fjölgað um 7 frá síðasta aðalfundi.

Stjórnar-, sambandsráðs- og félagsfundir SÍM

Stjórnarfundir SÍM á starfsárinu 2012-2013 voru tuttugu og einn talsins, þar með talið þrír sambandsráðsfundir og tveir félagsfundir. Rætt var um á síðsta sambandsráðsfundinum að fækka þeim í tvo til þrjá þar sem lögin um þá voru sett fyrir tíma net- og tölvupóstsamskipta.

 

 

Helstu málefni SÍM á árinu 2012:

Starfsumhverfi
Á starfsáætlun fyrir stjórnarárið 2012-2013 setti stjórn SÍM starfsumhverfi myndlistarmanna sem helsta baráttumál og hvernig auka megi almennar tekjur innan greinarinnar.
Á síðastliðnum árum hefur SÍM, í samstarfi við BÍL, unnið að því að bæta skattalegt umhverfi listamanna. Í byrjun þessa árs var reiknað endurgjald leiðrétt úr 414 þúsund á mánuði í 320 þúsund að tilstuðlan BÍL. Næstu skref í samstarfinu eru að fara á fund forstöðumanna fjármálaráðuneytis, vinnumálastofnunar og fæðingarorlofssjóðs og fá leiðréttingu á tengingu þessara stofnana á greiðslum við reiknað endurgjald í stað raunverulegra tekna.
Einnig var óskað eftir að frítekjumark vegna virðisaukaskatts yrði hækkað í 3-6 milljónir og var markið hækkað á árinu 2011 úr hálfri í eina milljón, en betur má ef duga skal. Formaður SÍM sendi á síðsta ári skýrslu til fjármálaráðuneytis vegna virðisaukaskatts, sem ákveðinn hluti listamanna ber samkvæmt núgildandi lögum að skila inn. Eintak af þeirri skýrslu má nálgast á skrifstofu SÍM.
Launa og skoðanakönnun

Á þessu starfsári lagði stjórn SÍM grunn að því að gerð yrði launa- og skoðanakönnun hjá félagsmönnum samtakanna, líkt og gert var árið 1995. Með slíkri könnun telur stjórn SÍM að félagið öðlist kröftugt tæki, sem nota megi í hagsmunabaráttunni sem og til grundvallar samningum við Mennta- og menningarráðherra um greiðslur til handa myndlistarmönnum vegna sýningarhalds í opinberum söfnum og sýningarstöðum.

 

Laun vegna sýningarhalds.

Stjórn SÍM setti efst á starfsáætlun sína að félagið beiti sér fyrir því að listamenn fái laun vegna vinnu við eigin sýningar í opinberum söfnum og sýningarsölum hérlendis. Stjórnin horfir þar til sænska samningsins ,,MU- Medverkans- och utställningsersättning,, sem samtök listamanna í Svíþjóð (KRO) og þarlend stjórnvöld gerðu með sér.

Stjórn SÍM hefur óskað eftir að Mennta- og menningarmálaráðuneytið og SÍM geri með sér viðlíka samning vegna vinnuframlags myndlistarmanna við sýningarhald. Með tilkomu slíks samnings yrði listamönnum greitt fyrir leigu á verkum vegna sýningarhalds, þeir myndu fá eingreiðslu vegna sýningarþáttöku og verktakalaun yrðu greidd vegna uppsetningu eigin verka sem og annars starfs sem óskað er eftir af viðkomandi stofnun.

Siða- og verklagsreglur ásamt starfslýsingum

Stjórnin samdi siða- og verklagsreglur fyrir félagsmenn sem gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið vegna setu þeirra í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum samtakanna. Jafnframt voru samdar verklagsreglur fyrir stjórn SÍM. Þær má nú nálgast á heimasíðu SÍM.

Starfsmenn skrifstofu ásamt formanni stjórnar sömdu einnig starfslýsingar fyrir formann, framkvæmdastjóra, skrifstofustjóra og verkefnisstjóra gestavinnustofa, sem kynnt voru stjórn SÍM á stjórnarfundi.

 

Fumvarp til myndlistarlaga

Árið 2009 voru fyrstu drög að Myndlistarlögum lögð fram af Menntamálaráðuneyti á alþingi og var SÍM og Listskreytingarsjóður beðin um umsagnir og gerður bæði samtökin athugasemdir við frumvarpið. Vinnu við frumvarpið var svo lokið 2012 og var frumvarp til myndlistarlaga samþykkt á vormánuðum 2012.

Með þessu nýja frumvarpi var meðal annars gert ráð fyrir stofnun myndlistarsjóðs, en slíkur sjóður hefur ekki verið starfsræktur áður. Þetta eru góð tíðindi fyrir myndlistarmenn en með þessu nýja ráði hafa þeir loks fengið verkefnasjóð á við aðrar listgreinar í landinu. Stjórn SÍM tilnefndi fjóra fulltrúa í Myndlistarráðið, tvo aðalmenn og tvo varamenn, í byrjun þessa árs. Þeir eru Ásmundur Ásmundsson og Ósk Vilhjálmsdóttir aðalmenn og Hrafnhildur Sigurðardóttir og Ingibjörg Gunnlaugsdóttir varamenn. Skipunarbréf frá Mennta- og menningarráðherra voru send út í febrúarbyrjun.

 

Samningar um birtingu myndverka í eigu listasafna á netinu.

Eftir áralanga baráttu um að fá listasöfn landsins, ásamt safnaráði, að samnningarborðinu um birtingu myndefnis á netinu virðist nú vera að rofa til í þeim efnum. Það er enda einlægur vilji bæði listamanna og safna að safneign þeirra verði sýnileg á heimsaíðum safnanna.

Myndstef – myndhöfunarsjóður Íslands hefur umsjón með málefnum félagsmanna SÍM og semur fyrir þeirra hönd. Vonast stjórn SÍM til þess að samningar náist milli Myndstefs, Mennta- og menningarráðuneytis og safnaráðs á þessu ári.

 

Lottópotturinn

Í byrjun ársins 2011 funduðu Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL og Hrafnhildi Sigurðardóttir formaður SÍM með innanríkisráðherra Ögmundi Jónassyni til að ræða það að listamenn fái í framtíðinni hlut af Lottó pottinum líkt og tíðkast á hinum Norðurlöndunum.

Ögmundur tók málefni listamanna mjög vel og setti á laggirnar starfshóp til að gera tillögu að breyttum úthlutunarreglum úr sjóðnum. Formaður var skipaður Katrín Fjeldsted. Nú er ljóst að nefndin hefur aldrei verið kölluð saman, en núverandi samningur um Lottó rennur út eftir fáein ár. Nýtt frumvarp um happadrætti leit svo dagsins ljós nú á vormánuðum og þar var hvergi getið um hlut menningarinnar í lottópottinum. Kolbrún Halldórsdóttir og formaður SÍM fengu fund með Alsherjarnefnd vegna þessa máls, en sá fundur var síðan afboðaður. Þær hafa óskað eftir nýjum furndi til að fylgja þessu máli eftir og munu halda þessu málefni á lofti svo að samningurinn verði ekki endurnýjaður án aðkomu listamanna að þessum sjóði.

 

Dagur myndlistar 5. nóvember 2012.

Dagur myndlistar var að þessu sinni haldinn hátíðlegur þann 5. nóvember og höfðu Gunnhildur Þórðardóttir og Gunndís Ýr Finnbogadóttir veg og vanda að skiðulagningunni. Skólum og myndlistasrmönnum var boðið að skrá sig til þáttöku í gegnum heimasíðu Dags myndlistar á www.dagurmyndlistar.is. Gerður var samningur við Contemporary.is um gerð fimm myndbanda til að setja á síðuna fyrir utan þau sem þar voru fyrir.

Að þessu sinni fóru kynningar fram í 18 grunn- og framhaldsskólum, 8 skólum á höfuðborgarsvæðinu og 10 skólum á landsbyggðinni og voru það tólf listamenn sem sáu um kynningarnar á starfi sínu og heppnuðust þær mjög vel.

Um 100 myndlistarmenn skráðu sig til leiks og opnuðu vinnustofur sínar fyrir almenningi, en það er rúm 10% fjölgun frá því í fyrra og voru vinnustofur opnar um land allt. Nú hefur verið sótt um styrki til Dags myndlistar 2013 til Reykjavíkurborgar og Mennta- og menningarráðuneytis og vonast SÍM þannig til að gera daginn enn veglegri á næsta ári.

 

Vinnustofur

SÍM hefur leigt út vinnustofur til listamanna um árabil. Þannig eru rúmlega 50 félagsmenn með vinnuaðtöðu á Seljavegi, á Korpúlfsstöðum eru um 60 starfandi listamenn og hönnuðir ásamt því að þar eru staðsett verkstæði Leirlistarfélags og Textílfélags. Á Lyngási í Garðabæ eru um tuttugu listamenn starfandi þar í sextán vinnustofum. Á Nýlendugötu eru um 25 félagsmenn með vinnustofur ásamt veitingahúsinu Forréttarbarnum og hönnunarverluninni Netagerðinni á fyrstu hæð.

Á þessu starfsári voru svo teknar í notkun nýjar vinnustofur í Súðavogi í gömlu timbursölu Húsasmiðjunnar, en þar eru nú 20 félagsmenn SÍM með vinnuaðstöðu. SÍM sér því um 175 félagsmönnum fyrir vinnustofum á viðráðanlegu verði.

 

Gestavinnustofur SÍM og styrkur KKNord – Kulturkontakt Nord

Framkvæmdastjóri SÍM sótti um styrk til KulturKontakt Nord vegna gestavinnustofa SÍM á Seljavegi og að Korpúlfsstöðum. Fékk umsóknin jákvæðan stuðning KKNord að þessu sinni. Felst hann í því að SÍM býður fjórum norrænum og baltneskum listamönnum á ári til tveggja mánaða dvalar í senn sér að kostnaðarlausu auk ferða- og dvalarstyrks.

Á árinu sem er að líða hafa um 250 listamenn komið til landsins til dvalar í gestavinnustofum okkar á Seljavegi, Korpúlfsstöðum og hér í Hafnarstrætinu. Það eru listamenn frá um 30 löndum víðs vegar úr heiminum. Í hverjum mánuði setja þau upp sýningu hér í SÍM húsinu í lok dvalarinnar og eru allir listamenn á landinu hvattir til að mæta á þær opnanir.

 

Gestavinnustofur SÍM í Berlín

SÍM hefur á leigu fjórar íbúðir með vinnuaðstöðu í Neue Bahnhofstrasse í Friedrichshein í Berlín. Þar gefst félagsmönnum SÍM tækifæri á að leigja sér vinnuaðstöðu í mánuð í senn eða styttri tímabil yfir sumarið. Félagsmönnum BÍL gefst kostur á að sækja um dvöl í gestavinnu-stofunum þegar plássrúm leyfir. Tekið er á móti umsóknum í vinnustofurnar allt árið.

 

Skrifstofa SÍM

Á skrifstofu SÍM starfa nú fjórir starfskraftar í rúmum þremur stöðugildum. Ingibjörg Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri SÍM stýrir skrifstofunni að sinni alkunnu snilld og Þórólfur Árnason sem sér um bókhaldið. Hrafnhildur Sigurðardóttir er starfandi formaður og Friðrik Weishappel sér um viðhald vinnustofuhúsa. Á árinu hófu tveir félagsmenn störf á skrifstofunni og bjóðum við þær velkomnar til starfa. Það eru þær Hildur Ýr Jónsdóttir sér um gestavinnustofur SÍM og tekur við af Gunnhildi Þórðardóttur sem fer í barnseignaleyfi, en Arna Óttarsdóttir tekur við af Gunndísi Ýr Finnbogadóttur sem tók við starfi framkvæmdastjóra Nýlistasafnsins. Kristjana Rós Guðjohnsen, sem einnig lét af störfum á árinu tók við verkefnastjórnun hjá Íslandsstofu. Við þökkum þeim fyrir samstarfið og óskum velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.

.

Alþjóðlegt samstarf:

Fundur hjá IAA – International Artist Association

Samband íslenskra myndlistarmanna hefur frá upphafi tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi ýmiskonar og er SÍM aðili að alþjóðasamtökunum myndlistarmanna IAA – International Artist Association sem stofnuð voru í skjóli Unesco árið 1954. Evrópudeild IAA var stofnuð 2002 og sátu formaður SÍM Hrafnhildur Sigurðardóttir og framkvæmdastjóri Ingibjörg Gunnlaugsdóttir aðalfund samtakanna í Istanbul í Tyrklandi í enda október s.l..

Á fundinum var enn rætt um nýju IAA skírteinin. Félög í IAA hafa undanfarið ár staðið fyrir átaki, hvert í sínu landi, til að kynna skírteinin svo að fleiri listasöfn í heiminum taki þau gild.

Fram kom í máli formanns listamanna í Istanbul, Bedri Baykam að hann og aðrir listamenn hafa orðið fyrir árásum öfgamanna vegna starfa sinna á síðustu árum og sérstaklega s.l.ár. Óskað var eftir stuðningi IAA með ályktunum fyrir listamenn í Tyrklandi og voru þær samþykktar á fundinum.

Fulltrúi Svía, Pontus Raud, kynnti sænska MU- samninginn og voru fundarmenn sammála um að svipaðan samning þyrfti að innleiða í öllum löndum Evrópu, en stjórn SÍM hefur þegar hafið innleiðingarferlið hér á landi til handa íslenskum listamönnum.

 • Fyrirspurn kom frá Ástu Ólafsdóttur úr sal hvort búið sé að framkvæma skoðanakönnunina og hvernig Lottópotturinn hafi komið til.
 • Hrafnhildur segir að verið sé að vinna í skoðunarkönnuninni og útskýrir hvernig gangi með Lottópottinn.
 • Gerla bendir á mikilvægi þess að að halda til haga öllum fundargerðum af fundum með ráðuneytinu.

 

 1. Reikningar

Ingibjörg J. Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri SÍM kynnir ársreikninga félagsins:

 

Rekstrartekjur:

 • Félagsmenn SÍM eru 714 og 616 hafa greitt félagsgjöld sem er aukning milli ára úr 8.114.907 kr 2011 í 8.631.000 árið 2012 sem teljast góðar heimtur.
 • Styrkir og framlög: styrkir frá Reykjavíkurborg hafa lækkað milli ára 2011-´12 úr 560.000 kr í 240.000 kr. Fjárlög ríkissjóðs hafa aukist úr 4.500.000 kr í 5.000.000 kr. milli ára.
 • Vinnustofur: Tekjur af hafa aukist úr 29.253.665 kr árið 2011 í 39.245.409 kr árið 2012.
 • Aðrar tekjur, Listskreytingasjóður, Kím og Myndstef, gestaíbúð í Hafnarstræti og rekstrarfélag Korpúlfsstaða hafa aukist milli ára úr 6.777.756 kr 2011 í 8.854.956 kr 2012.

 

Rekstrargjöld:

 • Laun og launatengd gjöld hafa aukist úr 20.987.511 kr 2011 í 22.182.306 kr 2012.
 • Gjöld vegna vinnustofa hafa hækkað úr 22.481.588 kr árið 2011 í 30.933.397 kr 2012.
 • Annar rekstrarkostnaður hefur aukist úr 7.303.216 kr 2011 í 9.384.353 kr 2012
 • Afskriftir eru 609.536 kr fyrir 2012 en voru árið 2011 253.973 kr.
 • Fjáreignatekjur og fjármagnsgjöld fyrir árið 2012 eru 356.712 kr en voru 463.394 kr 2011.

 

Efnahagsreikningur:

 • Fastafjármunir (innréttingar og tæki) eru 2012 samtals 2.184.172 kr en 2.793.708 kr árið 2011.
 • ( skammtímakröfur og handbært fé) eru samtals 5.355.917 kr en voru 8.387.735 kr 2011.
 • Eigið fé (Minningarsjóður Jóns Gunnars Árnasonar og óráðstafað eigið fé) er 2012 samtals 4.312.912 kr en var árið 2011 alls 5.091.132 kr. Ingibjörg telur að þörf sé á að breyta reglum um sjóðinn í samstarfi við ættingja Jóns Gunnars.
 • Skammtímaskuldir eru alls árið 2012 3.227.177 kr en voru 6.090.311 kr árið 2011.

 

Sjóðsstreymi 2012:

 • Handbært fé í árslok 2012 er 4.391.786 kr en var í árslok 2011 6.551.142 kr.

(Nákvæmari sundurliðun einstakra liða er að finna í Ársreikningum 2012 frá Ernst og Young)

 

Laun og launatengd gjöld:

 • Greidd voru laun ti 10 starfsmanna og stjórnarmanna fyrir stjórnarsetu. Alls voru launagreiðslur fyrir árið 2012 22.182.306 kr en voru árið 2011 alls 20.987.511 kr.
 • Ingibjörg segir tryggingajöld hafa hækkað, sömuleiðis styrki frá ríkinu, erlent samstarf, uppfærsla á heimasíðu, styrkur frá Reykjavíkurborg til – Dags listarinnar -, tekjur gestavinnustofu hafa hækkað. Allar vinnustofur standa undir sér, við erum að taka til baka fjárfestingar sem við lögðum í og tekjur vegna gestavinnustofu hefur hækkað vegna þess að við bætist herbergi fyrir gesti. Smiðjustíg hefur verið lokað og vanskil á vinnustofum í árslok hafa verið greidd. Árshátíð SÍM og afmælisár SÍM hafa verið gerð upp.

 

Umræður um reikninga:

Ásta Ólafsdóttir spyr um reksturinn á vinnustofunum í Berlín. Ingibjörg segir hann ekki góðan og vill leggja til að við hættum við vinnustofurnar en höldum íbúðunum.

Hrafnhildur segir umsýslukostnað vera af Korpúlfsstöðum.

Birta Guðjónsdóttir spyr hvað listamenn hafi fengið mikið greitt fyrir vinnu við gerð listaverks á vegg (gamalt mál fyrir tíð Hrafnhildar). Hrafnhildur segir þá hafa fengið alla peningana sem voru boðnir.

Birta Guðjónsdóttir spyr hvers vegna við veljum þennan endurskoðanda þar sem hann sé mjög dýr. Ingibjörg segir hann vera dýran en góðan og hann lofaði að taka minna fyrir í ár annars látum við hann fara.

Reikningar bornir upp til samþykktar: samþykktir

 

 1. Stjórnarkosningar

183 félagsmenn hafa kosið í rafrænum kosningum og úrsltin liggja fyrir:

Erla Þórarinsdóttir hefur fengið                         116 atkvæði

Kristjana Rós Guðjohnsen hefur fengið            96 atkvæði

Rósa Sigrún Jónsdóttir hefur fengið                        94 atkvæði

Ásmundur Ásmundsson hefur fengið              68 atkvæði

Hjördís Bergsdóttir hefur fengið                          60 atkvæði

Steingrímur Eyfjörð hefur fengið                          50 atkvæði

 

Sigurvegarar kosningarinnar eru: Erla Þórarinsdóttir, Kristjana Rós Guðjohnsen og Rósa Sigrún Jónsdóttir sem taka sæti í nýrri stjórn.

 

 1. Kosning eins fulltrúa í sambandsráð, sbr. 9. gr.

Það var kosið í fyrra, Hjördís Bergsdóttir er enn fulltrúi fram að Aðalfundi 2014.

 

 1. Kosning félagslegs skoðunarmanns og löggilts endurskoðanda til eins árs

Ásmundur Björnsson er löggiltur endurskoðandi SÍM og Gerla býður sig fram í embætti skoðunarmannsins.

 

 1. Lagabreytingar

 

Stjórn SÍM leggur fram breytingartillögur á 7., 8., 9. og 13. grein laga félagsins: sjá tölvupóst sendann á alla félagsmenn.

Breytingar koma til vegna rafrænna kosninga og samkvæmt lögfræðilegu áliti þarf að laga orðalag í greininni til að gera hana skilvirkari. Athuga verður með kosningu varamanna sem yrðu kosnir sér en ekki eins og gert er núna þannig að þá geti félagsmenn valið að láta kjósa sig til varamanns.

 

 • Breyting á 7. grein varðar orðalag um varamenn sem verða 2 og kosningu þeirra. Hrafnhildur gerir grein fyrir breytingunum og les upp 7. grein með breytingum:
 1. grein
  Stjórn Sambands íslenskra myndlistarmanna skipa fimm fulltrúar, formaður, varaformaður, ritari, vararitari og gjaldkeri. Varamenn eru tveir.

Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn. Meðstjórnendur eru einnig kosnir til tveggja ára og skipta þeir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Ennfremur skal kjósa tvo varamenn til tveggja ára. Þeir frambjóðendur sem flest atkvæði hljóta í kjöri meðstjórnenda og varamanna taka sæti í stjórn. Hljóti tveir menn jafna atkvæðatölu skal varpað hlutkesti á milli þeirra.

Aldrei skulu fleiri en tveir meðstjórnendur og einn varamaður ganga úr stjórninni hverju sinni. Ef stjórnarmaður hættir stjórnarsetu áður en kjörtímabili hans líkur skal varamaður skipa sæti hans. Ef aðalmaður boðar forföll skal boða varamann í hans stað.

 

 • Breytingar á 8. grein varða rafrænar kosningar í 4. Málsgrein. Hrafnhildur gerir grein fyrir breytingunum og les upp 8. grein með breytingu:
 1. grein
  Aðalfundur skal haldinn að vori ár hvert og ekki seinna en í maílok.  Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.  Rétt til setu á aðalfundi hafa allir sem eru fullgildir félagar samkvæmt skrám félagsins.

Aðalfundur skal auglýstur með átta vikna fyrirvara hið minnsta. Skrifleg tilkynning um framboð til stjórnarstarfa skal hafa borist skrifstofu SÍM fyrir auglýstan umsóknarfrest, sem skal vera eigi síðar en fjórum vikum fyrir aðalfund svo að unnt verði að birta í fundarboði endanlegan lista yfir þá sem gefa kost á sér.

Endanlegt fundarboð skal sent út minnst þremur vikum fyrir aðalfund.

Stjórn skal kosin rafrænt og eru allir fullgildir félagsmenn sambandsins kjörgengir. Eftir að kjörfundi lýkur á aðalfundi skulu niðurstöður rafrænnar kosningar tilkynntar.

Dagskrá aðalfundar skal vera svohljóðandi:
1.  Skýrsla stjórnar.
2.  Reikningar.
3.  Stjórnarkosning.
4.  Kosning eins fulltrúa í sambandsráð sbr. 9. gr.
5.  Kosning félagslegs skoðunarmanns og löggilts endurskoðanda til eins árs.
6.  Lagabreytingar.
7.  Ákvörðun félagsgjalda.
8.  Önnur mál.

Allar samþykktir á aðalfundi verða að hljóta einfaldan meirihluta greiddra atkvæða.

 • Breytingar á 9. grein varða fjölda funda sambandsráðs með stjórn SÍM og möguleika á að óska eftir aukafundi. Hrafnhildur gerir grein fyrir breytingunum og les upp 9. grein með breytingunum sem verður eftirfarandi:

9.grein
Sambandsráð er stjórn til ráðgjafar. Sambandsráð skipa fulltrúar Félags íslenskra myndlistarmanna, Félag íslenskra samtímaljósmyndara,  Íslenskrar grafíkur, Leirlistarfélagsins, Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík, Myndlistarfélagsins, Textílfélagsins og fulltrúi félagsmanna sem ekki eru meðlimir í neinu af ofangreindum félögum, kosinn á aðalfundi sambandsins. Fulltrúar aðildarfélaga SÍM í Sambandsráði séu jafnframt fullgildir félagar í SÍM. Sambandsráð skal funda með stjórn og varamönnum stjórnar minnst tvisvar sinnum á ári. Sambandsráð getur óskað eftir aukafundi.

 • Breytingar á 13. grein: Við fyrstu málsgrein bætist hverjir teljast fullgildir félagar SÍM. Í 2. málsgein er sett inn ákvæði um kjörgengi. Hrafnhildur gerir grein fyrir breytingunum og les upp 13. grein með breytingunum sem verður eftirfarandi:

13.grein
Aðalfundur ákveður árgjald sambandsins.  Gjalddagi árgjalds í SÍM er 1. janúar ár hvert og eindagi 1. febrúar. Eftir eindaga reiknast almennir dráttarvextir. Fullgildir félagar SÍM teljast þeir sem greitt hafa félagsgjöld yfirstandandi árs.

Þeir félagsmenn sem ekki hafa greitt félagsgjöld hafa ekki atkvæðisrétt á félagsfundum né aðalfundi og ekki heldur kjörgengi í stjórn eða önnur trúnaðarstörf fyrir sambandið, nema þeir hafi gert upp skuld sína fyrir aðalfund.

Þeir félagsmenn, sem ekki hafa greitt árgjaldið í tvö ár samkvæmt framansögðu, falla sjálfkrafa út af félagaskrá og verða ekki félagsmenn á ný fyrr en þeir hafa greitt skuld sína allt að þrjú ár aftur í tímann.

Félagsmenn sjötugir og eldri svo og stjórnarmenn SÍM skulu undanþegnir árgjaldi til sambandsins.

Skylt er að taka skriflega úrsögn félagsmanna til greina.

Fudarstjóri tekur saman hvað verður kosið um og vill taka hverja grein fyrir sig. Fyrirspurnir eru utan úr sal um 7. grein og kosningu varamanna. Ingibjörg segist hafa fengið fyrirspurnir frá félagsmönnum um hvort hægt væri að kjósa aðalmenn og varamenn. Engar fyrirspurnir eru um 8. og 9. grein en um 13. grein laganna er spurt hvort hægt sé að koma aftur inn í félagið eftir að hafa skuldað og verið skráður út úr félaginu. Hrafnhildur segir hægt að koma inn aftur eftir 3 ár.

 

Fundarstjóri leggur til að greidd verði atkvæði um lagabreytingarnar og les þær upp eins og þær eru með breytingum.

 1. grein: samþykkt með öllum atkvæðum
 2. grein: samþykkt með öllum atkvæðum
 3. grein: samþykkt með öllum atkvæðum
 4. grein: samþykkt með öllum atkvæðum

Allar greinar voru bornar upp til samþykktar: samþykktar með öllum greiddum atkvæðum

 

 1. Ákvörðun félagsgjalda

Ingibjörg leggur til fyrir hönd stjórnar SÍM að félagsgjöldin verði hækkuð vegna rekstrarhalla úr 14.000,- í 16.000,- krónur sem gæti bætt fjárhagsstöðu félagsins. Spurningar koma utan úr sal um aukningu félagsmanna og hvort einhverjir hafi gengið úr félaginu. Ingibjörg segir 5 manns hafa gengið úr félaginu og einhverjir látist. Einhverjir hafa dottið út vegna vangoldinna félagsgjalda SÍM. Þá hafa 40 listamenn sótt um að ganga í SÍM. Ábendingar um að það þurfi að kynna gögn um nýja félaga og þá sem ganga úr félaginu fyrir næsta aðalfund.

Birta Guðjónsdóttir vill vita til hvaða félaga sé litið við ákvörðun félagsgjalda BÍL eða annarra sambærilegra félaga. Hún vill hafa árgjaldið óbreytt. Ásmundur leggur til að þau hækki í 18.000,- krónur.

Fundarstjóri ber fyrst upp þá tillögu sem gengur lengst eða tillögu Ásmundar síðan tillögu Birtu og að lokum tillögu Stjórnar.

Tillaga stjórnar um hækkun félagsgjalda úr 14.000,- kr í 16.000,- kr. fær flest atkvæði (7 á móti 1) og er samþykkt.

Ágúst leggur til að félagsmenn greiði atkvæði um félagsgjöldin í framtíðinni á netinu.

 

 1. Önnur mál

Birta Guðjónsdóttir vill vita hverjar horfurnar séu með Mugg og styrki við sjóðinn?

Ingibjörg segir SÍM hafa sótt um styrk, upphæðin sé of lág, SÍM hefur hækkað framlag sitt en Reykjavíkurborg hefur lækkað sitt frá 2008. Hrafnhildur upplýsir að þetta sé ferðastyrkur og hægt að fá afslátt á farmiðum gegnum VOWAIR. Icelandair hafa ekki styrkt okkur eins og tónlistarmenn.

Birta Guðjónsdóttir vill vita hvað varð um samninginn. Hrafnhildur segir öllum samningum hafa verið hent út af borðinu eftir hrun. 1. árs samningur er í gangi hjá okkur. Sumir hafa fengið 3ja ára samning sem verið er að taka upp aftur. Hún segir lítinn velvilja vera í garð SÍM og misskilning ríkja um að við séum að fá styrk gegnum Hafnarstræti og Korpúlfsstaði. Af þeim sökum sé það álitið óþarfi að láta SÍM fá meira.

Fundarstjóri bendir á tillögu Ágústar þess efnis að hægt verði að kjósa um félagsgjöld SÍM á internetinu.

Birta bendir á lélega virkni félagsmanna þegar kemur að félagsstörfum og spyr hvernig stjórn SÍM ætli að fara í mat á lélegri virkni félagsmanna.

Ásta Ólafsdóttir bendir á könnun Félagsvísindadeildar HÍ þar sem fram kom að félagsmenn sýndu félagsstarfi lítinn áhuga. Listamenn skera sig þar úr.

Birta vill nýta upplýsingarnar til að komast að því hvers vegna það er skortur á virkni.

Hlynur Helgason fundarstjóri bendir á að meiri mæting sé þegar átakafundur er í gangi. Ingibjörg tekur undir það og að þetta eigi sérstaklega við þegar um formannskjör er að ræða.

Póstkosning var tekin upp um 2000. Þetta hefur þau áhrif að fólk mætir ekki.

Kristjana Rós Guðjohnsen spyr um kostnað við rafrænar kosningar.

Hrafnhildur segir kannanir sem áætlað sé að fara af stað með væru byggðar á könnun frá 1995, henni verði skipt í tvennt: könnun á tekjum / vinnu félagsmanns og hvaða væntingar félagsmenn hafi til SÍM (lestu fréttabréfið, kemur þú á skrifstofu SÍM?).

Ásta Ólafsdóttir leggur til að fleiri fréttabréf verði sen út og að fundargerðir verð aðgengilegri á netinu.

Hrafnhildur upplýsir að þær séu þegar aðgengilegar á netinu.

Ásta og Birta eru sammála um að SÍM fái utanaðkomandi aðila til að gera könnunina og Ásta segir skoðanakönnun frá nemum ekki taka á sérstöðu listamanna.

Unnar Örn Jónasson segir könnun nemenda vera vel gerða. Ákveðið hafi verið að fresta könnuninni vegna kostnaðar. Það sé mikilvægt að gera þessa könnun. Hún verði að vera samburðarhæf við könnunina frá 1995 og fagleg.

Ásta segir félagði ekki hafa greitt fyrir síðustu könnun þar sem hún hafi verið samvinna milli SÍM og þeirra sem unnu könnunina.

Fundarstjóri segir menn sammála um að gera þurfi faglega könnun án þess að greiða mikið fyrir hana. Að greiða 1,6 milljónir króna fyrir könnun sé hár kostnaður. Það þurfi að halda kostnaðinum niðri.

Ekki eru fleiri mál til umræðu þannig að fundastjóri leggur til að fundi verði slitið.

Fundi slitið.

 

Hjördís Bergsdóttir – Dósla

 

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com