Á skýjum leiks og listar – ókeypis fyrirlestur Margrétar E. Ólafsdóttur um Cory Arcangel, Hafnarhús, fimmtudag 26. febrúar kl. 20

ff8dd85f-ce45-4c6a-9f3c-92f2e8b1e6a8

 

Á skýjum leiks og listar – fyrirlestur Margrétar E. Ólafsdóttur um myndlist Corys Arcangel, 

Hafnarhús, fimmtudag 26. febrúar kl. 20

Margrét Elísabet Ólafsdóttir, doktor í  list- og fagurfræði heldur fyrirlestur á fimmtudaginn kl. 20 um myndlist Corys Arcangel í tengslum við sýningu listamannsins Margt Smálegt sem nú stendur yfir í Hafnarhúsi. Ókeypis aðgangur.

Cory Arcangel kom fram á sjónarsviðið sem listamaður um það leyti sem umræðan um nýmiðlalistir náði hámarki upp úr síðustu aldamótum. Arcangel hafði notað forritun í listsköpun sinni í nokkurn tíma þegar hann vakti fyrst athygli í heimi myndlistarinnar fyrir verkið Super Mario Clouds sem er byggt á Nintendo tölvuleiknum Super Mario Bros. Það má líkja verkinu við Campell súpudósir Andy Warhol í þeim skilningi að listamaðurinn notar skýr tákn úr heimi neyslu- og dægurmenningar og gefur þeim listrænt gildi í nýju samhengi. Í fyrirlestrinum verður skyggnst inn í hugmyndaheim listamannsins og fjallað um nokkur verka hans.

Margrét Elísabet Ólafsdóttir er doktor í list- og fagurfræði frá Université de Paris 1, Frakklandi. Rannsóknir hennar beinast að áhrifum stafrænnar tækni og miðla á list samtímans í sögulegu samhengi og frá sjónarhóli fagurfræði og heimspeki. Í þessum rannsóknum hefur Margrét lagt sérstaka áherslu á að skoða listsköpun íslenskra listamanna sem hafa unnið með vídeó og stafræna tækni. Hún var sýningarstjóri sýningarinnar Íslensk vídeólist frá 1975-1990 sem sett var upp í Hafnarhúsi árið 2013 og byggði á rannsóknum hennar á sögu vídeólistar á Íslandi. Margrét starfar sjálfstætt sem fræðimaður við Reykjavíkurakademíuna.

Fyrirlesturinn hefst kl. 20 og aðgangur er ókeypis.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com