Untitled 5

Á eintali við tilveruna – Eiríkur Smith

Sunnudaginn 17. janúar kl. 14 mun Ágústa Kristófersdóttir forstöðumaður Hafnarborgar leiða gesti um sýninguna Á eintali við tilveruna sem nú stendur yfir í sölum safnsins. En þar eru sýnd verk sem hafnfirski listamaðurinn Eiríkur Smith vann á árunum 1982 – 2008. Þetta er jafnframt síðasti sýningardagur sýningarinnar.

Á sýningunni er leitast við að kynna þetta síðasta tímabil á ferli listamannsins. Þar má sjá bæði hlutbundin og óhlutbundin verk þar sem hann gerir tilraunir með form og liti. Verkin bera það með sér að hér er þroskaður listamaður á ferð þó jafnframt megi sjá að Eiríkur heldur áfram þeirri listrænu leit sem ætíð hefur einkennt hann.

Ferill Eiríks Smith (f. 1925) er í senn langur og margbreytilegur. Hann hefur tekist á við málverkið sem tjáningarform og eftir hann liggja verk sem bera vitni um einstök tök á jafn ólíkum viðfangsefnum og strangflatarlist, tjáningarríku abstraktmálverki og raunsæisverkum. Þar er maðurinn oft í forgrunni en landið og mannanna verk mynda magnþrungna umgjörð. Nálgun hans hefur þannig tekið miklum breytingum í takt við tíðarandann en einnig vegna þess að listamaðurinn hefur meðvitað leitað á nýjar slóðir.

Á eintali við tilveruna er fimmta og síðasta sýningin í sýningarröð sem Hafnarborg hefur staðið fyrir síðan árið 2010 þar sem kynnt hafa verið ólík tímabil á löngum og fjölþættum ferli Eiríks og er sýningunni fylgt úr hlaði með útgáfu veglegrar sýningarskrár sem gerir skil öllum fimm sýningunum og ferli listamannsins Eiríks Smith.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com