29497746 1834105383275373 2729894972861129930 N

Ný námskeið hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík

Myndlistaskólanum í Reykjavík er að fara af stað með tvö ný námskeið í maí, annað kennir Sigtryggur Bjarni og hitt verður Kristín Gunnlaugsdóttir með.

Vatnslitanámskeið

Dagana 25.-28. maí verður Sigtryggur Bjarni Baldvinsson með spennandi vatnslitanámskeið í Myndlistaskólanum í Reykjavík.

Á námskeiðinu er ætlunin að vinna með vatnslitinn á skapandi og ögrandi hátt, vinna bæði smátt og fínlega, stórt og gróft.

Þema námskeiðsins er fjallið Skjaldbreiður. Velt verður fyrir sér fjarskafallegum fjallablámanum sem er Íslendingum svo kær að uppistaða þjóðfánans er einmitt sá sami blái litur eða fyrirbrigði.

Velt verður fyrir sér hvað það er að mála fjall. Er það náttúruskoðun, jarfræðileg rannsókn, heiðið ritual, trúarleg athöfn, dund og dúllerí, sjálfsskoðun (hver er ég starandi á þetta fjall?) eða sitt lítið af hverju?

Farið verður í vettvangsferð þar sem Skjaldbreiður verður skoðaður úr fjarska og í nánd, frá ýmsum sjónarhornum. Teknar verða myndir, skissað, snert og jafnvel örlítið af fjallinu tekið með heim til að vinna með.

Um er að ræða fjögra daga námsskeið sem nær yfir helgi. Kennt verður á föstudegi frá kl. 16:30-20:30 og frá kl. 10:00-18:00 á laugardegi, sunnudegi og mánudegi.

Frekari upplýsingar ásamt skráningu má finna á www.mir.is

Upplýsingar á Facebook.

 

Módelteikning

Kristín Gunnlaugsdóttir, myndlistarkona, verður með 4 skipta módelteikningarnámskeið 22. – 25. maí.

Á námskeiðinu verður lögð aðaláhersla á mismunandi efni, aðferðir og tækni við að teikna módel. Notast er við blýant og kol til að nefna.

Sýnd verða dæmi úr listasögunni og úr myndskreyttum bókum.

Módeli verður stillt upp í mislangan tíma sem ræðst aðallega af efnisnotkuninni hverju sinni. Bæði verða teiknaðar langar stöður og hraðskissur. Einnig glímt við hreyfingu og stundum verður skuggi og birta viðfangsefni í teikningunni.

Námskeiðið hentar bæði byrjendum og þeim sem eru lengra komnir.

Námskeiðið er kennt frá þriðjudegi til föstudags frá klukkan 17:45-20:30.

Nánari upplýsingar ásamt skráningu má finna á www.mir.is

Upplýsingar á Facebook.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com