Image006

Tvær sýningaropnanir í Hafnarborg

Laugardaginn 21. janúar kl. 15 verða opnaðar tvær sýningar í Hafnarborg. Í aðalsal safnsins er það sýningin Kvenhetjan með úrvali verka eftir Steingrím Eyfjörð sem hafa konur eða kvenpersónur að viðfangi. Sýningin Rósa, innsetning eftir Siggu Björg Sigurðardóttir verður opnuð í Sverrissal. Þar kynnast sýningargestir Rósu, uppruna hennar og sögu í gegnum teikningar, skúlptúra, myndbandsverk og hljóð.

Sunnudaginn 22. janúar kl. 14 verður Steingrímur með listamannsspjall og málþing í tengslum við sýningu hans verður haldið laugardaginn 25. febrúar kl. 14. Listamannsspjall Siggu Bjargar Sigurðardóttur fer fram sunnudaginn 5. febrúar kl. 14.

Konur hafa fylgt Steingrími sem viðfangsefni frá því snemma á ferlinum. Hann skoðar orðræðuna um konur sem tákn jafnt sem hina eilífu togstreitu milli marglaga veruleikans og ímyndarinnar. Það getur verið  viðkvæmt í samfélagi dagsins í dag að karlmaður tjái sig um konur eða eigin sýn á tilfinningar þeirra og stöðu en mikilvægt engu að síður að endurspegla samfélagið með margradda og ósamhljóma kór allra kynja.

Teikningar Siggu Bjargar eru bæði unnar fyrirfram en einnig skapaðar á staðnum og leggur listakonan áherslu á að tengja saman heim myndbandsins,  teikninganna og rýmisins og skapa úr því heild. Rósa og hinar persónurnar sem mæta okkur eru samansafn óhaminna tilfinninga, sem þær tjá með oft og tíðum grófum hætti. Liturinn, frumefni þeirra, lekur og slettist um salinn við mótun þeirra. Persónurnar sem eru hvorki menn né dýr sýna dýrslegt eðli mannsins og mannlegt eðli dýrsins.

Steingrímur Eyfjörð (f. 1954) er í framvarðasveit listamanna sem komu fram á sjónarsvið íslenskrar myndlistar á 8. áratug síðustu aldar. Verk hans spanna breiða notkun miðla, þar með talið ljósmyndun, myndasöguform, myndbandsverk, málverk, skúlptúrar, gjörningar, skriftir og innsetningar. Hann á að baki um 50 einkasýningar og fjölmargar samsýningar hér á landi og erlendis. Steingrímur var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2007.

Sigga Björg Sigurðardóttir er fædd í Reykjavík 1977, hún útskrifaðist frá LHÍ 2001 og lauk síðan MFA gráðu í myndlist frá Glasgow School of Art 2004. Sigga Björg hefur sýnt ein og í samstarfi við aðra víða um heim og verk hennar eru í eigu safna hér á landi og erlendis.

 

Nánari upplýsingar veitir Áslaug Friðjónsdóttir, upplýsingafulltrúi Hafnarborgar, s. 585 5790.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com