Reykjavíkurnætur

STRÆTI

Næstkomandi laugardag opnar sýningin STRÆTI eftir Þránd Þórarinsson í Port verkefnarými, Laugavegi 23b.

Allir eru velkomnir á opnunina sem hefst klukkan 16:00 og stendur fram á kvöld. Léttar veigar í boði.
— — —
Texti eftir Skarphéðinn Bergþóruson um sýninguna.
Verkin á STRÆTI eru fágætlega kvikar og lifandi myndir frá horfinni/ókominni veröld. Hnitmiðaðar frásagnir og skörp athyglisgáfa bregða birtu yfir óvenjulegt mannlíf á mörkum þessa: að ‘hafa’ verið og ‘gæti’ verið. Og ‘ætti að hafa’ verið. Þetta eru fallegar myndir sem bera vitni um næma og djúpa skynjun og tilfinningu.
Þrándur Þórarinsson hefur farið meistarahöndum um efnivið sinn. Hann hefur þjappað miklu efni saman í kjarnyrt myndmál. Yfirbragðið er nokkuð sem við þykjumst nauðaþekkja en Þrándur hefur um leið gætt myndirnar þeim eiginleikum góðra listaverka sem gera þær markvissar og eftirminnilegar. Viðfangsefnin eru kannski að upplagi sérkennileg en líka blæbrigðarík og hann fetar örugglega einstigið milli skáldlegrar upphafningar og skáldlegs niðurrifs.
Og hvaðan kemur skáldskapurinn?
Það er eitthvað sem enginn veit.
En ekki skortir umhverfið hann.
— — —
Þrándur Þórarinsson er fæddur á Akureyri árið 1978 og lærði málaralist hjá norska málaranum Odd Nerdrum. Hann er með meistaragráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands og hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum hérlendis sem erlendis, en STRÆTI er áttunda einkasýning hans hér á landi.
Síðustu ár hefur Þrándur búið og starfað í Kaupmannahöfn og er hann að undirbúa sýningu í Nordatlantens Brygge um þessar mundir.
— — —
Um Verkefnarýmið Port:
Port er listamannarekið verkefnarými og studio sem opnaði í aprílbyrjun árið 2016. Það eru myndlistarmennirnir Árni Már Erlingsson og Þorvaldur Jónsson sem reka þetta ásamt Skarphéðni Bergþórusyni rithöfundi. Rýmið er tímabundin lausn og því er ekki hugað að stefnu að öðru leyti en að sýna samtímamyndlist og halda viðburði framreidda af ungu listafólki.
Í byrjun sumars hlaut verkefnið styrk frá Reykjavíkurborg(Torg í Biðstöðu) og eftir það hefur verið preppað útisvæði þar sem hinir ýmsu viðburðir hafa átt sér stað, svo sem sýning á myndbandsverkum, listamarkaðir og tónleikar. Undir lok sumars á Menningarnótt verður lok verkefnisins Torg í Biðstöðu og sett verður upp sýningin Mucho Miðbær. Mikið af listamönnum, tónlistarfólki og öðrum koma að því að glæða miðbæinn lífi.
WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com