Mynd Así

Yfirlýsing frá Samband íslenskra myndlistarmanna.

Einkennir virðingarleysið ennþá Ísland?

Yfirlýsing frá Samband íslenskra myndlistarmanna.

Þann 29. apríl sl. tilkynnti Rekstrarfélag listasafns ASÍ um fyrirhugaða sölu á Ásmundarsal, húseign safnsins að Freyjugötu og væntanlegan flutning safnsins í nýtt húsnæði.

Stjórn SÍM harmar að þessi staða sé komin upp, að hafið sé söluferli á einu sögufrægasta húsnæði íslenskrar listasögu, án þess að til samráðs við hagsmunaaðila hafi komið. Tíðindin hafa komið listasamfélaginu í opna skjöldu. Ríkjandi er tvenns konar óvissa, annars vegar um framtíð Listasafns ASÍ og sýningarmöguleika á safneigninni og hins vegar varðandi framtíðareignarhald á Ásmundarsal.

Stjórn SÍM telur brýnt að listasafn ASÍ skýri hvernig framtíðin verði á sýningum á sögufrægri safneign safnsins. Safneignin telur mörg verk eftir fremstu listamenn þjóðarinnar, svo sem Ásgrím Jónsson, Gunnlaug Scheving, Jóhannes Kjarval, Jón Stefánsson, Júlíönu Sveinsdóttur, Nínu Tryggvadóttur, Svavar Guðnason og Þorvaldi Skúlason. Safneignina hefur listasafn ASÍ eignast eftir virka söfnun, eftir stofngjöf frá Ragnari í Smára og eftir gjafir frá ýmsum myndlistarmönnum.

Stjórn SÍM telur einnig mikilvægt að framtíð Ásmundarsals verði skýrð. SÍM telur að hætta ætti við fyrirhugaða sölu á Ásmundarsal, eða að öðrum kosti tryggja að salurinn verði í eigu aðila sem munu sinna myndlist. Ásmundur Sveinsson myndhöggvari, einn af fremstu myndhöggvurum þjóðarinnar, lét reisa húsið. Húsið er sérhæft til að vinna að höggmyndalist og eitt af fáum sérhæfðum rýmum sem nýtast til að vinna að myndlist sérstaklega. Ósk Ásmundar var sú að húsið yrði nýtt eftir hans dag í þágu myndlistar. Stjórn SÍM telur að með fyrirhugaðri sölu hússins sé ósk Ásmundar Sveinsson forsómuð og minningu hans sýnt virðingarleysi.

Stjórn SÍM telur heppilegast að safnið starfi í óbreyttri mynd í húsinu við Freyjugötu, enda fara þá áfram saman hagsmunir safneignar Listasafns ASÍ og framtíð Ásmundarsals. Að öðrum kosti telur stjórn SÍM að vinna ætti að því að tryggja að sérstaða Ásmundarsals verði áfram undirstrikið og tryggð, með því að   salurinn nýtist áfram til að sinna myndlist eða myndlistartengdu starfi.

Stjórn SÍM lýsir sig reiðubúna til samstarfs við Listasafn ASÍ og viðeigandi hagsmunaaðila, svo sem mennta- og menningarmálaráðuneytið og Reykjavíkurborg, svo tryggja megi framtíðarhlutverk hússins Það er mat stjórnar SÍM að tímasetning tilkynningarinnar um sölu hússins sé afar óheppileg og hún yfirskyggi yfirstandandi hátíðarhöld ASÍ, sem nú fagnar því að  100 ár eru liðin frá stofnun þessara merku launþegasamtaka.Því vill stjórn SÍM hvetja  forsvarsmenn ASÍ til að taka undir með listamönnum um nauðsyn þess að horfið verði frá fyrirhugaðri sölu á Ásmundarsal og skoðaðir möguleikar á framtýðarnýtingu rýmisins í þágu myndlistarinnar.

Í ljósi þessa sendir Samband íslenskra myndlistarmanna frá sér meðfylgjandi áskorun:

 

  • Samband íslenskra myndlistarmanna skorar á rekstarfélag Listasafns ASÍ og Alþýðusamband Íslands að endurskoða afstöðu sína í máli Ásmundarsalar.

 

  • Samband íslenskra myndlistarmanna skorar á mennta- og menningarmálaráðuneytið og Reykjavíkurborg að koma að málum Listasafns ASÍ og fara yfir tillögur varðandi áframhaldandi rekstur sérhæfðs sýningarrýmis í Ásmundarsal.

 

Fyrir hönd stjórnar SÍM

Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com