
Fjölskylduleiðsögn
Verið velkomin í fjölskylduleiðsögn í Gerðarsafni á laugardaginn, 9. apríl kl. 13. Við förum saman í rannsóknarleiðangur í gegnum safneignarsýninguna Blint stefnumót. Á leiðangrinum munum við prufa óvæntar leiðir til að horfa á list og sjá hvernig hægt er að lesa listaverk á mismunandi hátt. Við munum teikna í anda listaverkanna og gera tilraunir með ólík form sem við finnum í verkunum.
Leiðsögnin er hluti af fjölskyldustundum í menningarhúsunum í Hamraborginni. Alla laugardaga í vor er boðið upp á viðburði fyrir fjölskylduna ýmist í Gerðarsafni, Bókasafni Kópavogs, Náttúrufræðistofu Kópavogs eða í Salnum. Um er að ræða listsmiðjur, upplestur, tónleika og fleira fyrir börn og unglinga og hefjast viðburðirnir alltaf kl. 13.
Samhliða leiðsögninni er opið í fræðslurýminu Stúdíó Gerðar þar sem má gera eigin veggmynd í anda mósaík og klippimynda Gerðar Helgadóttur. Garðskálinn er opinn á neðri hæð safnsins og á matseðlinum eru brunch eggjabaka, súpa, smurbrauð og kökur.
Hlökkum til að sjá ykkur!