Untitled 1dfg

Sýning Steingríms Eyfjarðar í Gallery Gamma

Það er Gallery Gamma sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin á opnun sýningar Steingríms Eyfjarðar, Guli eyrnalokkurinn, fimmtudaginn 18. febrúar kl. 17:00.
Gallery Gamma er opið mánudaga – föstudaga milli kl. 13:00 – 17:00 og eftir samkomulagi.
Sýningin stendur til 1. maí.

Sýningatjórar eru Ari Alexander Ergis Magnússon og Jón Proppé.

Verkin á þessari sýningu voru flest unnin fyrir sýningu Steingríms Eyfjörð á Momentum, norræna myndlistartvíæringnum sem árið 2015 var haldinn í áttunda sinn. Sýningarstjórarnir völdu þemað „Tunnel Vision“ og vildu með því kanna eins konar mótsögn sem virðist einkenna samtíma okkar: Við lifum ótrúlegar tækni- og vísindaframfarir, nýja og klára rökhugsun, en virðumst samt mörg leita í eitthvað annað, einhverja kima þar sem við getum ræktað sérvisku okkar með öðrum eins þenkjandi. Þetta er nokkuð sem Steingrímur Eyfjörð hefur lengi skoðað í verkum sínum.
Viðfangsefnið Steingríms er það sem hann kallar nútíma þjóðsögur, alls konar hugmyndir, sögur og samsæriskenningar sem eru sterkur þráður í heimsmynd nútímafólks þótt þær samræmist illa eða ekki hugmyndum vísindamanna. Þetta er vítt svið og þar ægir öllu saman, draugum og geimverum, fornegypskri speki, samsæriskenningum um ríkisstjórnir, leynifélög og stórfyrirtæki, hvers konar hjávísindum, skottulækningum og almennum húsráðum. Hugmyndir af þessu tagi gegnsýra mannlegt samfélag og eru í senn dularfullar og fullkomlega augljósar. Þær eru boðaðar í útvarpsþáttum og bókum og úti um allt á Internetinu. Steingrímur nálgast þessi viðfangsefni af opnum hug og með vissri vinsemd og samhyggju. Sköpunarferli hans endurspeglar líka á ýmsan hátt viðfangsefnið. Hann eltir hugmyndirnar, táknin og sögurnar án þess að fordæma þær og verkin tengja saman ólík brot líkt og í tilraun til að rekja saman sögu sem aldrei verður sögð til enda.
Verk Steingríms sýna að þrátt fyrir allt bera slíkar hugmyndir vitni um þekkingarleit og tilraunir til að skilja og skilgreina veruleikann eins og hann birtist okkur og þar er vissulega margt undarlegt að finna, margt sem vísindin einfaldlega hafna en er þó erfitt að vísa alveg frá sér. Þetta undarlega svið teygir sig aftur á forsögulega tíma en endurnýjar sig í sífellu og lifir jafngóðu lífi undir rafljósum nútímans og í rökkri fyrri alda.

Steingrímur Eyfjörð á að baki fjögurra áratuga feril í myndlist og hefur sýnt víða um heim. Hann var einn af listamönnunum sem störfuðu í Gallerí Suðurgötu 7 á áttunda áratugnum og hefur verið virkur þátttakandi í íslensku listalífi æ síðan. Árið 2006 hélt Listasafn Íslands yfirlitssýningu á verkum hans og árið 2007 var hann fulltrúi Íslands á tvíæringnum í Feneyjum.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com