Thora Sigurdard Ll 1

Sýning Þóru Sigurðardóttur, TEIKNING / RÝMI

Sýning Þóru Sigurðardóttur, TEIKNING / RÝMI    12.- 28. febrúar

Sýningin TEIKNING / RÝMI  opnar föstudaginn 12. febrúar nk. kl. 18:00 í sýningarsal Félagsins íslensk grafík, Hafnarhúsinu Tryggvagötu 17  (inngangur hafnarmegin).

Á sýningunni eru verk Þóru Sigurðardóttur, teikningar og prent ásamt þrívíðum verkum unnin á tímabilinu 2014-16. Verkin fjalla um tíma, rými og afbökun þess, rýmið í teikningunni og teikninguna í rýminu.

Sýningarstjóri er Helga Þórsdóttir. Í texta Helgu um verkin segir: „Líta má á arkitektúr sem markandi línu, landamæri þess sem þróast að innan og utan við það sem markað er. Þannig er hin afmarkandi lína einhverskonar útvörður eða jaðar rýmisins, blábrúnin, sem snertir bæði orku þess sem er fyrir innan sem og utan við. Listsköpun Þóru tekst á við þennan ramma með mjög svo efnislegum hætti; marglaga teikning afbakar form fyrirmyndarinnar og vísar þannig bæði inn í sjálfa sig, á sama tíma og hún tekst á við rýmið sjálft.“.

Helga mun fjalla um sýninguna TEIKNING / RÝMI og um verk Þóru á Hugarflugi, árlegri ráðstefnu Listaháskóla Íslands þann 19. febrúar nk.  Markmið ráðstefnunnar er að skapa vettvang fyrir faglega og gagnrýna umræðu um þekkingarsköpun á fræðasviði lista, með áherslu á listrannsóknir.  Þóra Sigurðardóttir er fædd árið 1954. Hún útskrifaðist úr kennaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1979 og úr grafíkdeild skólans árið 1981. Þóra sótti framhaldsnám í Danmörku með áherslu á rými, skúlptúr og málverk og lauk þaðan námi árið 1991. Þóra á að baki fjölda einkasýninga og samsýninga bæði innanlands og utan. Þóra á verk í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur og fleiri söfnum auk verka í einkasöfnum hér heima og erlendis. Meðfram vinnu við myndlist hefur hún fengist við sýningarstjórn og kennslu og skólastjórn við Myndlistaskólann í Reykjavík og Hönnunar- og handverksskóla Tækniskólans.

Velkomin á opnun föstudaginn 12. febrúar kl. 18:00. Sýningin er opin miðvikudag til sunnudags kl 14-18  (eða eftir samkomulagi) og stendur til 28. febrúar.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com