LISTVINIR. Fyrirlestraröð Listfræðafélags Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu

LISTVINIR. Fyrirlestraröð Listfræðafélags Íslands í Safnahúsinu við  Hverfisgötu

Miðvikudaginn 3. febrúar 2016 eru liðin 100 ár frá því að Listvinafélag Íslands var stofnað í Reykjavík. Af því tilefni efnir Listfræðafélag Íslands til hádegisfyrirlestra um Listvinafélagið og efni tengd því í lestrarsal Safnahússins við Hverfisgötu, fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði vorið 2016.  Fyrirlesarar eru félagsmenn Listfræðafélags Íslands og eru allir velkomnir.

Fyrsti fyrirlesturinn verður haldinn miðvikudaginn 3. febrúar kl. 12 í Safnahúsinu við Hverfisgötu en þá mun Júlíana Gottskálksdóttir, listfræðingur greina frá stofnun Listvinafélags Íslands og starfi þess og hlutverki sem vettvangur fyrir myndlist á Íslandi á starfstíma sínum 1916-1932. Myndir frá fyrstu sýningu Listvinafélagsins árið 1919 verða birtar með fyrirlestrinum.

Safnahúsið tengist beint sögu Lisvinafélagsins, en bókasafn félagsins var um árabil í Safnahúsinu í umsjón Matthíasar Þórðarsonar, þjóðminjavarðar og ritara félagsins. Listvinafélagið lognaðis út af árið 1932 en á starfstíma sínum var það öflugur félagsskapur sem átti mikilvægan þátt í að auka þekkingi og áhuga á myndlist hér á landi og gera myndlist aðgengilega fyrir almenningi. Það er því vel við hæfi að minnast 100 ára afmælis félagsins með fyrirlestraröð þar sem fjallað er um íslenska myndlist í húsi sem hýsir sýninguna Sjónarhorn, sem veitir innsýn í íslenskan myndheim fyrr og nú.

Listfræðafélag Íslands, sem stendur á bak við fyrirlestrana, var formlega stofnað í maí árið 2009 af hópi listfræðinga, sýningarstjóra og annarra fagaðila á sviði listfræða á Íslandi. Félagsmenn eru um 60. Félagið leysti af hólmi eldra félag, Félag listfræðinga, sem var stofnað árið 1984 en hætti starfsemi upp úr aldamótum. Frá upphafi hefur markmið Listfræðafélags Íslands verið að efla samvinnu þeirra sem starfa á sviði listfræða, að stuðla að listfræðirannsóknum og miðlun þeirra til almennings og að efla kennslu á sviði listfræði. Félagið skipar fulltrúa í opinberar nefndir og ráð eins og Myndlistarráð og á  einnig fulltrúa í stjórn Sambands norrænna listfræðinga. Frá upphafi hefur félagið staðið fyrir reglulegum fundum félagsmanna en það hefur einnig skipulagt opinber málþing, í samstarfi við listastofnanir á höfuðborgarsvæðinu, þar sem rannsóknir á sviði listfræða hafa verið kynntar almenningi. Vorið 2015 stóð félagið að viðamikilli ráðstefnu listfræðinga á Norðurlöndum, NORDIK 2015, sem þá var haldin í fyrsta sinn í Reykjavík.

LISTVINIR. Fyrirlestraröð Listfræðafélags Íslands í Safnahúsinu við  Hverfisgötu

  1. febrúar 2016 kl. 12-13.

Júlíana Gottskálksdóttir, listfræðingur. Um starf Listvinafélags Íslands 1916-1932.

  1. mars 2016 kl. 12.-13.
  1. apríl 2016 kl. 12-13

Jón Proppé, listheimspekingur, Orðræða og umræða um myndlist á Íslandi í upphafi 20. aldar.

  1. maí 2016, kl. 12.-13
  1. febrúar 2016. Júlíana Gottskálksdóttir: Um starf Listvinafélags Íslands 1916-1932

Á fyrstu tveim áratugum síðustu aldar var lagður grunnur að opinberu sýningarhaldi á myndlist hér á landi. Árið 1900 hélt listmálarinn Þórarinn B.Þorláksson sýningu í Reykjavík á málverkum sínum og þremur árum síðar var Ásgrímur Jónsson listmálari mættur til leiks með sýningu. Í Kaupmannahöfn starfaði myndhöggvarinn Einar Jónsson sem sýnt hafði verk sitt Útlagar Vorsýningunni í Kaupmannahöfn árið 1901 og sjö árum síðar hélt Jóhannes S. Kjarval sýningu á verkum sínum í Reykjavík. Þegar líða tók á annan áratug aldarinnar bættust yngri listamenn í hópinn ýmist að loknu námi erlendis, aðallega í Kaupmannahöfn, eða meðan á því stóð. Kynni af sýningahaldi erlendis þar sem listamenn sýndu verk sín á samsýningum urðu hvati að þeirri hugmynd að stofna félagsskap um sýningarhald og fræðslu um myndlist. Frumkvæðið að stofnun slíks félagsskapar hér á landi átti Ríkarður Jónsson myndhöggvari sem ráðgaðist um málið við Þórarinn B. Þorláksson listmálara og Matthías Þórðarson þjóðminjavörð.

Í fyrirlestri sínum mun Júlíana Gottskálksdóttir greina frá stofnun Listvinafélags Íslands og starfi þess og hlutverki sem vettvangur fyrir myndlist á Íslandi á starfstíma sínum. Þess skal getið að myndir frá fyrstu sýningu Listvinafélagsins árið 1919 verða birtar með fyrirlestrinum.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com