Untitled 4

Í mínu ástandi – Anna Hansson

Í mínu ástandi – Anna Hansson

Í mínu ástandi nefnist sýning Önnu Hansson á málverkum og teikningum sem verður opnuð í Anarkíu listasal laugardaginn 16. janúar kl. 15-18.

Verkin á sýningunni eru sjálfsmyndir og skiptast í stór þróttmikil olíumálverk og teikningar þar sem bleki og kolum er blandað saman. Þetta eru tjáningarrík og formsterk málverk, efnis- og litameðferð er djörf og ákveðin og sterkt formskyn Önnu og markviss pensilskrift skila sér vel í þessum kröftugu myndum.

Verkin eru afar persónuleg og sprottin af erfiðri reynslu á undanförnum misserum. Eins og Anna orðar það sjálf:

Ég lenti í áfalli – veikindum sem tóku mig á staði sem ég hafði aldrei komið til áður og hafa haft djúpstæð áhrif á mig sem persónu.

Að mála er mín leið til að skapa mér pláss þar sem ég er alveg ein með sjálfri mér, ég valdi að vinna með sjálfsmyndir vegna þess að ég fann þörf fyrir að horfa á sjálfa mig, horfast í augu við sjálfa mig.

Í þessum verkum horfir Anna djúpt og ákveðið á sjálfa sig, auðmjúk gagnvart tilverunni, og kryfur tilvist sína og reynslu af sjaldgæfri einurð og heiðarleika.

Sýningin stendur til 7. febrúar 2016.

Anarkía listasalur er til húsa í Hamraborg 3 í Kópavogi (aðkoma frá Skeljabrekku/Hamrabrekku). Þar er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 15-18.

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com