Jaðarber: Jesper Pedersen, Hafnarhús, miðvikudag 6. maí kl. 20

       
Jasper Pedersen

Portrett tónleikar Jespers Pedersen í samvinnu við Jaðarber.

Jesper Pedersen, tónskáld og hljóðlistamaður, verður í aðalhlutverki á konsertseríunni Jaðarberi á tónleikum í maí. Áheyrendur munu kynnast nýjustu verkum Jespers í hljóði og mynd, en verk hans falla oft undir “visual music” geirann, þar sem sjónræna hliðin er jafn mikilvæg þeirri hljóðrænu. Verkin mynda þannig persónulegan nálgun með heimagerðri tækni, rauntímanótnaskrift og retro-fútúrisma.

Jesper kennir raftónsmíðar og nýmiðla við Listaháskóla Íslands og í tónveri Tónlistarskóla Kópavogs.

Á tónleikunum kemur fram fjöldi hljóðfæraleikara og slagverkshljóðfæra. Duo Harpverk leikur m.a. eitt verk og áheyrendur fá tækifæri til að taka þátt í tónsköpuninni. Einnig verður boðið upp á annan þátt í röðinni S.L.Á.T.U.R. TV (Samtaka listrænt ágengra tónsmiða umhverfis Reykjavík). Brot úr 4-rása umhverfishljóðlistaverkinu ,,Turninn sem fór í göngutúr” verður flutt, en það er fimmtíu mínútna langt hljóðverk sem pantað var af Ny Musik og styrkt af danska listasjóðnum til flutnings í Krudttårnet í Frederikshavn í Danmörku árið 2014.

Verk Jespers hafa verið flutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands, Duo Harpverk, Ensemble Adapter, Íslenska flautukórnum á hátíðum eins og Tectonics, Nordlichter Biennale, Spor, Open Days, Summartónar, Raflost, Geiger, Sláturtíð, Myrkum músíkdögum og Norrænum músíkdögum.

Jaðarber er tónleikaröð sem unnin er í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og leggur áherslu á frumlega og tilraunakennda en jafnframt spennandi tónlist.

Tónleikarnir hefjast kl. 20 og aðgangur er ókeypis.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com