Föstudaginn 1.maí opnar sýningin FJALL með verkum Auðar Ómarsdóttur í Ekkisens

freyja  

Föstudaginn 1.maí opnar sýningin FJALL með verkum Auðar Ómarsdóttur. Sýningin stendur yfir í viku og opnun verður kl. 20:00. Í sýningunni rannsakar Auður leitina að heilaga fjallinu, form fjallsins og hið ytra og innra ferðalag. Hún hefur unnið þar til gerðar heilunarteikningar yfir nokkurra mánaða skeið sem umbreytast á sýningunni. FJALL er þriðja einkasýning Auðar.


Gengur í hvítum snjóbyl þung skref kalt hægt klífur upp hægt og rólega birsti svart fjall í fjarska þetta er varða. Stöðvar andar og hvílir ferðalagið er rétt hafið heldur áfram næsta varða næsta fjall bylurinn eykur kraftinn stingur í húðina missir alla tilfinningu bylurinn og manneskjan er eitt. Sjálfdauð dofinn horfin Fallin í hvíta fönn hvít hljóð einlit veröld einhljóða veruleiki Augu vakna svört vilja meira halda áfram finna stærra fjall, gylltu vörðuna leiðina réttu, þá. Áfram klífa leggir Óræð orka drífur vélrænann líkamann. Lítur upp og sér hringlaga veröld fjalla efst upp á fjalli umkringd fjöllum. Fjarlægar minningar drauma sem eitt sinn voru eru orðnir, geta orðið. Lungu fyllt af vindi þurfa ekki að eiga, né þurfa. Ég verð að klífa upp fjallið. Óendanlegur hringlaga vegur


Auður Ómarsdóttir (1988) myndlistarmaður, útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands 2013. Auður vinnur mikið út frá teikningu og skoðar teikningu sem innsetningu í formi skúlptúra, málverka, gjörninga eða vídjóverka. Í verkum Auðar leitast hún eftir að halda ekki fullri stjórn á sköpuninni, hún notar ýmsar leiðir til þess að fá utanaðkomandi öfl til þess að spinna með sér. Þegar undirmeðvitund, tæki og tól eða annað fólk stjórnar flæðinu skapast töfrakennt ástand og er það markmið Auðar í myndlist.
Auður er meðlimur Algera studio og hefur tekið þátt í fjölda samsýninga en þetta er þriðja einkasýning hennar.
WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com