30 myndlistarmenn sýna á Haustsýningu Listasafnsins á Akureyri

 

 

SamRees.THISISIT.s

 

– Sam Rees, THIS IS IT, THE BEST DRAWING IN THE SHOW, 2009.

 

30 myndlistarmenn sýna á Haustsýningu Listasafnsins á Akureyri

Í mars síðastliðnum auglýsti Listasafnið á Akureyri eftir umsóknum um þátttöku í haustsýningu safnsins sem stendur yfir dagana 29. ágúst – 18. október 2015. Forsenda umsóknar var að listamenn búi eða starfi á Norðurlandi eða hafi tengingu við svæðið. Alls bárust hátt í 90 umsóknir og sérstaklega skipuð dómnefnd valdi 30 listamenn og verk á sýninguna. Dómnefndina skipuðu Aðalheiður S. Eysteinsdóttir myndlistarkona, Alice Liu myndlistarkona og rekstraraðili gestavinnustofanna Listhúss á Ólafsfirði, Arndís Bergsdóttir hönnuður og doktorsnemi í safnafræði, Hlynur Hallsson myndlistarmaður og safnstjóri Listasafnsins á Akureyri og Ólöf Sigurðardóttir forstöðukona Hafnarborgar menningar– og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar.

Listamennirnir sem taka þátt í haustsýningunni vinna með ólíka miðla og aðferðir, hér gefur að líta málverk, innsetningar, videóverk, leirverk, skúlptúra, ljósmyndir, skjáverk, textílverk, teikningar og bókverk. Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru: Arna Guðný Valsdóttir, Arnar Ómarsson, Baldvin Ringsted, Bergþór Morthens, Björg Eiríksdóttir, Eiríkur Arnar Magnússon, Freyja Reynisdóttir, Guðmundur Ármann Sigurjónsson, Guðrún Þórisdóttir, Gunnhildur Helgadóttir, Helga Pálína Brynjólfsdóttir, Heiðdís Hólm, Hekla Björt Helgadóttir, Joris Rademaker, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Ingibjörg Guðmundsdóttir, Klængur Gunnarsson, Marina Rees, Ragnheiður Þórsdóttir, Rannveig Helgadóttir, Rósa Sigrún Jónsdóttir, Rósa Júlíusdóttir, Sam Rees, Stefán Boulter, Unnur Óttarsdóttir, Victor Ocares, Þórarinn Blöndal, Þórgunnur Oddsdóttir, Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir og Þóra Sigurðardóttir. Sýningarstjóri er Hlynur Hallsson.

 

Haustsýningar voru lengi fastur liður í sýningarhaldi hér á landi og erlendis lifa þær víða enn góðu lífi. Haustsýning Listasafnsins á Akureyri verður tvíæringur og endurvekur þá góðu hefð að sýna hvað listamenn á svæðinu eru að fást við. Hún verður því fjölbreytt og mun gefa góða innsýn í líflega flóru myndlistar á Akureyri og Norðurlandi. Sýningin opnar á Akureyarvöku laugardaginn 29. ágúst kl. 15 og stendur til sunnudagsins 18. október 2015. Sýningin er hluti af Listasumri 2015.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com