Fara í leiðarkerfi


Samband Íslenskra Myndlistarmanna
The association of Icelandic visual artists

Stór sýning á íslenskum málverkum í Hong Kong

Sýning á rúmlega 80 málverkum eftir íslenska listamenn verður opnuð í The University Museum and Art Gallery í Hong Kong 10. september næst komandi. Sýnd verða málverk, skúlptúrar og teikningar úr safni Anthony J. Hardy en listaverka safn hans á íslenskum listaverkum er eitt það stærsta sinnar tegundar utan Íslands.

Verkin á sýningunni, sem ber heitið Ingenious Iceland : Twentieth-Century Icelandic Paintings from the Anthony J. Hardy Collection, ná yfir aldartímbil, allt frá Þórarni B. Þorlákssyni og öðrum frumherjum íslenskrar myndlistar til listamanna sem starfa á Íslandi í dag og má þar meðal annars nefna Karólínu Lárusdóttur, Braga Ásgeirsson, Harald Bilson, Hall Karl Hinriksson og skúlptúristans Önnu Sigríði Sigurjónsdóttur.

Verkin koma öll úr safni Anthony J. Hardy en hann er breskur listaverkasafnari búsettur í Hong Kong. Hann var áður stjórnarformaður Wellem Group sem þjónustar skipaiðnaðinn en er nú stjórnarformaður sjóminjasafnis í Hong Kong (Hong Kong Maritime Museum). Hann hefur safnað íslenskri list með skipulögðum hætti um árabil en tengsl hans við Ísland eru djúp þar sem hann var heiðurskonsúll Íslands í Hong Kong um þriggja áratuga skeið.

Samhliða sýningunni verður gefin út bók um sýninguna þar sem Forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson ritar fororð ásamt Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra. Þá ritar Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur grein um sýninguna.

Íslenskur sýningarstjóri sýningarinnar er Jóhann Ágúst Hansen.
Jóhann er eigandi og framkvæmdastjóri Gallerís Foldar og hefur starfað um áratugaskeið sem listmunasali og uppboðshaldari.