Fara í leiðarkerfi


Samband Íslenskra Myndlistarmanna
The association of Icelandic visual artists

SÍM


Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) var stofnað árið 1982.  SÍM er hagsmuna- og stéttarfélag liðlega 700 starfandi myndlistarmanna. SÍM samanstendur af eftirtöldum aðildarfélögum og félagsmönnum þeirra ásamt  félögum með einstaklingsaðild að SÍM: Félagi íslenskra myndlistarmanna (FÍM), Íslenskri grafík, Leirlistarfélaginu,  Myndhöggvarafélaginum í Reykjavík (MHR), Félagi íslenskra samtímaljósmyndara, Myndlistarfélaginu og Textílfélaginu.

SÍM er málsvari myndlistarmanna gagnvart hinu opinbera og starfrækir skrifstofu að Hafnarstræti 16, Reykjavík. SÍM er aðili að Bandalagi íslenskra listamanna (BÍL), Listahátíð í Reykjavík, Alþjóðlegu listamannasamtökunum (IAA), Billedkunstnere i Norden (BIN), Norræna Myndlistarbandalaginu (NKF) og European Visual Artists Network (EVAN).  SÍM er aðili að Kynningarmiðstöð myndlistar CIA.IS og Myndstefi- Myndhöfundasjóði Íslands.

SÍM vinnur að hagsmunum félagsmanna sinna á breiðum grundvelli. SÍM skipar fulltrúa sína hin ýmsu ráð og nefndir á vegum hins opinbera m.a.: Myndlistarráð, Kynningarmiðstöð íslenskra myndlistar, Safnráð Listasafns Íslands, Listskreytingasjóð ríkisins, Starfslaunasjóð listamanna, Menningarmálanefnd Reykjavíkurborgar, Listahátíð í Reykjavík, úthlutunarnefnd Menningarmálanefndar Hveragerðisbæjar, Safnráð Listasafns Akureyrar og Leikminjasafn Íslands.

SÍM aðstoðar félagsmenn í faglegum málum s.s. í sambandi við höfundarétt, vsk, tryggingar, flutninga, tollamál,  sýningahald og lögfræðileg atriði.
Hjá SÍM eru fyrirliggjandi: gjaldskrá SÍM, samkeppnisreglur SÍM, samningar milli listamanna, sýningarsala og sölugallería, samningur og reglur er varða leigu á myndverkum til fyrirtækja og stofnana, keppnislýsingar o.fl.  Öll aðstoð sem SÍM veitir stendur félagsmönnum til boða endurgjaldslaust.

SÍM er aðili að Myndstefi – Myndhöfundasjóði Íslands og eru félagsmenn í SÍM sjálfkrafa félagsmenn í Myndstefi. Í SÍM – húsinu er aðstaða fyrir félagsmenn til að halda fundi og fyrirlestra eða aðrar myndlistarlegar uppákomur. Aðstaðan stendur félagsmönnum til boða endurgjaldslaust.

Föstudaginn 26. október 2001, afhenti borgarstjórinn í Reykjavík, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir Sambandi íslenskra myndlistarmanna nýuppgert hús að Hafnarstræti 16, til afnota fyrir starfsemi samtakanna.

Skrifstofa SÍM rekur  UMM.IS – Upplýsingavef um myndlist og myndhöfunda á Íslandi en vefurinn er byggður á gögnum frá Upplýsingamiðstöð myndlistar sem starfækt var um 10 ára skeið með stuðningi íslenska ríkisins. Gagnagrunnurinn sem bæði er á íslensku og ensku, er gríðarlega stór og margþættur og hefur reynst ómissandi fyrir ýmsar menningarstofnanir, myndlistarmenn, fræðimenn, kennara og erlenda sýningarstjóra.

SÍM rekur hátt í 200 vinnustofur fyrir íslenska myndlistarmenn og hönnuði en þær eru staðsettar á Seljavegi, Nýlendugötu, Súðarvogi, Korpúlfsstöðum og í Lyngási í Garðabæ.  Árið 2006 tók SÍM húsið Seljaveg 32, sem áður hýsti höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar, á leigu af ríkissjóði Íslands.

SÍM rekur Listamiðstöðina á Korpúlfsstöðum en hún var stofnuð í upphafi árs 2007. Auk áðurnefndrar gestaíbúðar og vinnustofa fyrir listamenn og hönnuði er starfrækt gallerí á Korpúlfsstöðum, sem rekið er af listamönnum á staðnum.  Listamiðstöðin hefur alla burði til að vera öflug miðstöð fyrir fræðslu á sviði sjónmennta en þar er verið að byggja upp öll helstu verkstæði sem listamenn og hönnuðir þurfa að hafa aðgang að.  Aðstaðan verður ekki eingöngu til afnota fyrir listamenn og hönnuði heldur verða verkstæðin opin almenningi undir handleiðslu umsjónarmanna og kennara.  Ennfremur er á Korpúlfsstöðum stór og glæsilegur salur þar sem ætlunin er að halda metnaðarfullar sýningar.

SÍM gefur út rafrænt fréttablað STARA, 3 sinnum á ári og eru þau birt á heimasíðu SÍM.

Félagsmenn fá árlega félagsskírteini sem er sambland af innlendu og alþjóðlegu skírteini (IAA).  Skírteinið veitir frían aðgang að öllum helstu listasöfnum hérlendis og erlendis. Auk þess er hægt að fá afslátt hjá mörgum verslunum og þjónustufyrirtækjum sem versla með myndlistarvörur gegn framvísun skírteinisins.

SÍM rekur gestavinnustofur og gistirými fyrir erlenda listamenn og íslenska listamenn sem búsettir eru erlendis eða á landsbyggðinni. Gestavinnustofurnar  eru á Seljavegi 32 og á Korpúlfsstöðum.  Í gestavinnustofum SÍM og gestaíbúð dvelja um 10-13 listamenn í hverjum mánuði. Gestavinnustofur SÍM eru afar mikilvægur þáttur í íslensku listalífi enda einnar sinnar tegundar í Reykjavík.

Skrifstofa SÍM rekur sjóðinn Mugg, tengslasjóð fyrir myndlistarmenn sem eru samstarfsverkefni milli Reykjavíkurborgar, SÍM og Myndstefs og styrkja myndlistarmenn til ferða og dvalar erlendis vegna myndlistarverkefna.

Félagsgjald SÍM er frádráttarbært frá skatti og er kr. 16.000.- fyrir árið 2014.